135. löggjafarþing — 42. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[01:52]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarni Harðarson) (F):

Herra forseti. Ég vona að ég teljist ekki brjóta hér þingskapareglur þó svo að ég leyfi mér að nota hluta af ræðutíma mínum til að halda aðeins áfram þeirri umræðu sem hafin var milli mín og hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, enda snertir hún fjárlögin mjög og það starf sem við í fjárlaganefnd höfum unnið að á liðnum vetri.

Raunar er það þannig, eins og ég gat um hér í ræðu í dag, að meginlínur fjárlaganna verða til í ráðuneytunum en það er þetta verkefni sem er ekki hvað síst mikilvægt í störfum fjárlaganefndar. Þess ber þó að geta að þótt þarna sé um milljarð að ræða er þetta líklega svo mikið sem fjórðungur af prósenti af heildarfjárframlögum ríkisins, ef ég man þær tölur rétt. Já. Nánast allir aðrir peningar, nánast 99,7% af fjárframlögunum, fara í gegnum stofnanir í Reykjavík.

Það er ekki rétt að ég hafi talað hér um valdhroka stofnana í Reykjavík. Ég hef ekki neitt sérstaklega á móti þeim en ég held aftur á móti að það gæti — það vita allir sem hafa fylgst með þjóðfélagsmálum á Íslandi að það gætir mjög mikils miðflóttaafls í íslenskri þjóðfélagsþróun þar sem við höfum þróast mjög hratt í átt að borgríki frá því að vera með búsetuna nokkuð jafnt dreifða um landið. Þetta er þjóðfélagsþróun sem hið pólitíska vald, Alþingi, þarf að taka alvarlega og vinna í af festu. Ein leiðin til þess er afskaplega ódýr og ódýrari en margar byggðaaðgerðir, litlar styrkveitingar eins og þessar sem geta oft skipt sköpum í litlum samfélögum. Margt af því sem við lögðum mikla vinnu í í vetur var kannski ekki stórir liðir á fjárlögunum en stórir liðir á landakortinu. Ég frábið mér að óvirðulega sé talað um þessa vinnu því að oft er mikilvægasta vinnan í því smáa.

Ég vona að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fyrirgefi mér að ég skuli hér halda þessari umræðu áfram í mínum ræðutíma en bendi á að við getum auðvitað haldið henni áfram svo í andsvörum hér á eftir þegar ræða mín er búin.

Nú langar mig aðeins til að ræða almennt um fjárlögin og sérstaklega það efni sem ég minntist á í dag að ég hefði ekki þá haft tök á eða tíma til að fjalla um, málefni þess merka félags, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar eða KADECO eins og það heitir í styttu og alþjóðlegu nafni.

Þannig er mál með vexti, herra forseti, að félag þetta er einkahlutafélag í eigu ríkisins, stofnað til þess af fráfarandi ríkisstjórn og var margt mjög gott og farið vel af stað með varðandi það félag. Það kemur þó í ljós nú þegar uppskeran er að verða að einnig hafa orðið mjög afdrifarík mistök við undirbúning málsins í fjármálaráðuneytinu þar sem hinn fjárhagslegi grundvöllur félagsins hefur verið ákveðinn. Kannski eru fyrstu og ein stærstu mistökin einmitt þau að þetta er einkahlutafélag svo eðlilegt sem það er sem skýrist að nokkru leyti af stofnsamþykktum félagsins þar sem beinlínis er gert ráð fyrir því að í fyllingu tímans geti aðrir aðilar en ríkið eignast í því.

Það kemur ýmislegt einkennilegt í ljós þegar skoðaður er stofnsamningurinn og ég get ekki séð að þau atriði hafi nokkurn tímann fengið umræðu í sölum hins háa Alþingis. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að félag þetta sé sjálfbært en hvergi er gert ráð fyrir því í tilgangi þess að það skili hagnaði til ríkissjóðs. Á nokkrum stöðum er að vísu getið um það í tilgangi félagsins að það eigi að koma eignum á Keflavíkurflugvelli í arðbær borgaraleg not en síðan kemur hið einkennilega 6. greinar ákvæði samningsins sem er gerður milli ríkisins og þessa félags þar sem beinlínis er gert ráð fyrir því að 100% af söluverði þeirra eigna sem þarna eru seldar renni til félagsins fyrstu tvö ár samningstímans.

Þegar þetta var samþykkt var vissulega mikil óvissa um það hversu stóran hluta af eignunum tækist að selja á fyrstu tveimur árunum, en það var ekki endilega gert ráð fyrir því samkvæmt fréttum og þeim heimildum sem ég hef getað aflað mér að sú sala væri óveruleg. Þvert á móti var reiknað með því í þessari umræðu að eignirnar stæðu nokkurn veginn undir þeim kostnaði sem mundi falla til við hreinsun og lagfæringu á svæðinu.

Bak við það mat stóð mat bæði íslenskra stjórnvalda og einnig bandarískra sem höfðu metið það svo þegar þau afhentu Íslendingum þessar eignir endurgjaldslaust að þær væru ekki meira en sjálfbærar, að draugabær eins og þarna var yrði ekki verðmætari en svo að hann mundi standa undir hreinsun sem enn er mikil óvissa um hvað kostar.

Þarna er öll áætlanagerð mjög óvarleg meðan ekki er vitað neitt um hver kostnaður er, hvort hann hlaupi á örfáum milljörðum eða jafnvel einhvers staðar vel á öðrum tug milljarða. Það vissu menn ekki á þessum tíma en ýmsar tölur voru þó hentar á lofti og hafa verið í opinberri umræðu um málið. Það er engu að síður mjög undarlegt að sjá hvað hlutirnir eru allir niðurnegldir í þessum samningum, miklu meira en ástæða var til og í rauninni miklu meira en hefði þurft að vera ef um hefði verið ræða opinbera stofnun eða þá ef mönnum er mjög harðsækið að hafa þetta hlutafélagsform hefði það verið ohf.-félag.

Í 6. gr. er sem sagt þetta einkennilega ákvæði sem margir hafa rekið augun í og við höfum rætt allmikið í fjárlaganefnd, að þóknun skuli nema 100% af söluverði fasteigna. Þar er líka allsérstakt ákvæði sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Óheimilt er að ráðstafa fé sem greitt er vegna samnings þessa til annars en þeirra verkefna sem tilgreind eru í samningnum og samrýmast þeim verkefnum sem verksali tekur að sér með samningi þessum.“

Það gildir um þetta eins og gildir líka um þau orð sem ég ræddi áðan hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, orð skipta máli. Töluð og rituð orð skipta máli. Það skiptir máli hvað er sett í samning milli tveggja lögaðila. Jafnvel þó að ríkið teljist fullkominn eigandi að þessu félagi gildir engu að síður þessi samningur meðan hann hefur ekki verið tekinn upp. Það er vissulega ákvæði um það í samningnum þar sem segir í 14. kafla:

„Telji samningsaðili forsendur samningsins breytast getur hann farið fram á viðræður um endurskoðun á einstaka ákvæðum samningsins á samningstímabilinu.“

Mér vitanlega hefur engin slík formleg endurskoðun farið fram eða verið formlega farið fram á að hún hefjist.

Því geri ég þetta að umtalsefni að ég tel það ráðslag sem hér er nú ástundað með því að færa tekjur og gjöld þróunarfélagsins inn í fjárlög engan veginn standast miðað við þennan samning. Í umræðu um þetta í fjárlaganefnd var hreinlega haft á orði að þó svo að ákvæðin væru svona í samningnum var það mat meiri hluta að það stæðist illa lög og því yrði að skauta fram hjá samningnum.

Þetta tel ég afar vonda stjórnsýslu þar sem það er hægur vandi að gera hlutina í réttri röð. Það er í fyrsta lagi ekkert sem kallar á það að færa þessi gjöld og þessar tekjur strax inn í fjárlög eða fjáraukalög. Það er vel hægt að fresta því til fjáraukalagagerðar á næsta ári. Þar sem ríkið er alger eigandi að þessu hlutafélagi mundu engir hagsmunir tapast við það og á þeim tíma er hægt að endurskoða samninginn. En þá kemur kannski akkúrat upp að með því að endurskoða þennan samning standa menn frammi fyrir því að þurfa að gera grein fyrir því hvers vegna þessi samningur er með þeim hætti sem hann er. Þá þurfa menn líka að átta sig á, sem er algerlega vanmetinn þáttur þessa máls, að það eru ákveðnar væntingar bundnar við samninginn, ákveðnar réttmætar viðskiptavæntingar bundnar við samninginn eins og hann er.

Þó svo að margir hafi talið að eignirnar á Keflavíkurflugvelli hafi verið seldar á undirverði eru þetta engu að síður miklir peningar. Það skiptir þá aðila sem kaupa miklu máli hvernig þeim tekst að gera eignir sínar þar arðbærar og upp á það skiptir miklu máli hvernig búið verður að svæðinu á annan hátt.

Í þessum samningi er skýrt kveðið á um það að allt það sem rennur til eignarhaldsfélagsins fari til uppbyggingar á svæðinu. Og það eru algerlega réttmætar væntingar þeirra sem þarna kaupa að gera ráð fyrir því að svo verði meðan ekki hefur verið um annað samið. Ég geri miklar athugasemdir við það hvernig að þessu máli er staðið, ekki aðallega vegna hagsmuna KADECO eða hagsmuna þeirra aðila sem þarna kaupa eignir, heldur fyrst og fremst vegna hagsmuna ríkisins. Aðili sem hegðar sér með þessum hætti í viðskiptum stofnar ekki bara hagsmunum viðskiptaaðila sinna í hættu, hann stofnar líka eigin hagsmunum í hættu. Okkar hlutverk á hinu háa Alþingi er m.a. að verja hagsmuni ríkisins.

Hér er notuð sú aðferð að sópa vandamálunum undir teppið, láta sem samningurinn sé ekki til og skauta fram hjá ákvæðum hans í trausti þess að enginn muni mótmæla. Myndin sem blasir við okkur varðandi þróunarfélagið er líka öll þannig að allir sem þar koma nálægt eru nú í nokkurri varnarstöðu, og er að vonum.

Ég veit ekki hvað ég á að fara langt ofan í málið. Ég sé ekki endilega ástæðu til að fara mjög djúpt ofan í það en þó vil ég aðeins geta þess vegna orða sem fallið hafa í fjölmiðlum á undanförnum dögum að það er mikil óvissa um alla þá samninga sem þarna hafa verið gerðir. Ég er ekki sammála því mati sem hvergi hefur reyndar verið öðruvísi en haft á orði — ekki verið lagt fram með formlegum hætti — að samningar þessir séu allir bókunarhæfir, að samningar þessir séu allir peningaígildi. Ég tel þar ýmsar forsendur geta átt eftir að breytast, bæði vegna þess að það er ákveðið að taka andvirði greiðslnanna út af svæðinu og setja þær beint í ríkissjóð en ekki síður vegna þess að við sölu þessara eigna hafa menn farið mjög frjálslega með allar almennar venjur og reglur um hæfi manna og vanhæfi.

Ég bendi þar aðeins á eitt atriði sem snýr að stöðu bæjarstjóra Reykjanesbæjar sem hefur í þessu máli óneitanlega setið beggja megin borðs. Það er alltaf mjög erfið staða í samningum og getur undir vissum kringumstæðum kallað á það að þeir samningar sem þannig eru gerðir teljist ekki hafa sama gildi og aðrir samningar. Ég veit að það eru stór orð að segja um embættismann sem ekki er hér heldur til andsvara að hann sitji beggja megin borðs en þannig er þó hlutunum varið. Það er nauðsynlegt að þessi umræða fari fram í þinginu vegna þess að það er okkar að gæta þessara hagsmuna. Fjármálaráðuneytið og fjármálaráðherra hafa ekki að mínu viti gert það með fullnægjandi hætti.

Það sem um er að ræða er að bæjarstjóri Reykjanesbæjar situr í stjórn KADECO sem fulltrúi stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum. Hann fer þar inn sem fulltrúi þáverandi stjórnarformanns, Steinþórs Jónssonar, og situr örfáum dögum seinna og semur um sölu eigna sem stjórnarmaður í KADECO við sama Steinþór Jónsson sem þá mætir sem stjórnarformaður, prókúruhafi og einn aðaleigandi að hlutafélaginu Base. Þar er um að ræða viðskipti upp á hundruð milljóna.

Bæjarstjórinn situr einnig í þessari stöðu sem samningsaðili í KADECO og sem stjórnarmaður í Keili sem byggir síðan tilveru sína á samningum Háskólavalla sem kaupa eignir á Keflavíkurflugvelli, eignir fyrir 14 milljarða — eða 12, allt eftir því hvernig menn vilja telja. Tengsl bæjarinsS við félagið Háskólavelli eru mjög margháttuð, bæði bein eignatengsl þó svo að eftir að samningarnir voru gerðir hafi félagið selt sinn hlut í Háskólavöllum, það er með beinum tengslum bæjarstjórans og bæjarins við mjög marga eigendur og með tengslum við Keili þar sem bæjarstjórinn situr einnig í stjórn.

Allt þetta kallar á mjög ítarlega rannsókn mála og því vek ég máls á þessu hér við fjárlagaumræðuna að með því að taka þessi atriði athugasemdalaust inn í fjárlögin leggur hið háa Alþingi blessun sína yfir að þetta sé gert með þessum hætti. Það tel ég mjög miður.

Ég ítreka að með því að þetta væri ekki tekið inn er ekki sjáanlegt að neinir hagsmunir ríkisins mundu tapast eða að ríkið afsalaði sér fjármunum sem það hefur. Það verður einfaldlega að gera þetta í réttri röð og þeir pólitískt kjörnu aðilar sem hafa hér staðið að samningagerð, sem ég hef skilið svo að sé mat meiri hluta fjárlaganefndar að standist ekki lög, þurfa þá að leiðrétta það áður en hægt er að hafa ráðslagið með öðrum hætti. Þetta er mjög mikilvægt í vandaðri stjórnsýslu. Við ástundum hana ekki með samþykkt þessara fjárlaga. Það er mjög alvarlegt.

Ég sé að hv. varaformaður fjárlaganefndar, Kristján Þór Júlíusson, er kominn í salinn og því langar mig að víkja aðeins að umræðu sem ég hlýddi á á sjónvarpsskjá. Ég hafði ekki tök á því að vera í salnum í allt kvöld en ég hlýddi á umræðuna. Talið barst nokkuð að ræðu minni fyrr í dag og ég kannast við það hvenær sem er og hef reyndar gert það í öllum þessum þremur umræðum um fjárlögin að ég hef lagt áherslu á að þau séu of hástemmd og sagt að það eigi að verja minna af ríkisfé til samfélagsmála við þær aðstæður sem nú eru uppi.

Það er auðveldara að vera í stjórnarandstöðu og mæla fyrir meiri útgjöldum. Það er auðveldara að vera ábyrgðarlaus í stjórnarandstöðu og þannig hafa menn kannski vanist því að stjórnarandstaðan lengstum sé. Það er mikill misskilningur að með því að mæla fyrir minni ríkisútgjöldum tali ég hér fyrir einhverjum sérstökum hægri flokki. Um það hnaut ég nokkuð í umræðunni í dag. Það er nefnilega ekki þannig að hægri flokkum sé yfirleitt treystandi til að draga úr ríkisútgjöldum. Það hafa þeir ekki sýnt mjög vel á Vesturlöndum, ekki þeir hægri flokkar sem helst hafa komist til áhrifa, en þar sem þeir hafa haft afl skynseminnar sér við hlið hefur það stundum blessast að halda ríkisútgjöldum í hófi. Það var það ankeri sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði í 12 ára stjórnarsamstarfi með Framsóknarflokknum. Þá var afl skynseminnar innan stjórnarinnar og þá var farið hægt milli ára í aukningu ríkisútgjalda. Kannski ekki nógu hægt, það get ég alveg tekið undir, og sérstaklega átti það kannski við undir lok kjörtímabilsins.

Það er eðli lýðræðisfyrirkomulags okkar að slaki verður oft meiri undir lok kjörtímabila, þegar líður nær kosningum. Nú er hins vegar mjög langt til kosninga og ég kvíði því hvernig núverandi ríkisstjórn muni haga sér þegar dregur nær kosningum eða hvernig hún muni haga sér þegar hún hefur ekki lengur 70% tölu frá Gallup til að hampa og þarf þá raunverulega að kaupa eitthvað.

Ég veit ekki hvað hún er að kaupa með þessum yfirboðum sem hér eru boðuð í fjárlagafrumvarpi, hvort hún er að reyna að kaupa sig upp í 80% fylgi. Verði henni að góðu með það vegna þess að ég held að það muni hún síst gera með þessum yfirboðum sem eru reyndar með þeim ólíkindum, og framar þeim yfirboðum sem sést hafa, að það er ekki bara lofað öllum þeim peningum sem hægt er að eyða, heldur er líka lofað peningum sem ekki er einu sinni hægt að eyða á komandi ári. Þá á ég sérstaklega við samgöngumálin þar sem í tíð fráfarandi ríkisstjórnar og undir forustu núverandi hæstv. forseta Alþingis hafði verið lögð fram mjög metnaðarfull og vönduð samgönguáætlun þar sem var í rauninni mjög vel gefið á garðann og þjóðin mátti vel við una. Samkvæmt henni var miðað við liðlega 20 milljarða til samgöngubóta á næsta ári. Núverandi ríkisstjórn er það ekki nóg, heldur allt að því tvöfaldar hún þá upphæð en er svo heldur farin að draga í land núna þegar dregur nær komandi ári því að auðvitað sér það hvert barn að keisarinn er ekki í neinum fötum í þessu máli.

Ég sakna þeirra radda innan hins ágæta Sjálfstæðisflokks sem hafði stundum á orði að það væri ekki hægt að gera allt fyrir alla alltaf. Ríkisstjórn sem er svo ósamstæð að hún kemur sér ekki einu sinni saman um listamannalaun — það er hluti af því sem við erum að afgreiða við 3. umr. fjárlaga — að afgreiða breytingu á listamannalaunum vegna hins meinta ósamkomulags innan stjórnarmeirihlutans. Það er auðvitað hrein hneisa gagnvart listamönnum þessarar þjóðar að listamönnum á heiðurslaunum skuli nú fækkað samhliða því sem þjóðinni fjölgar og góðæri er mikið. Til þess að fækka þeim þarf að auka fjárveitingu þannig að vitleysan ríður hvergi í þessum efnum við einteyming.

Ég tel mjög miður að stjórnarliðar skuli ekki hafa getað komið sér saman um að velja tvo menn í viðbót, tvo nýja menn inn á heiðurslistamannalaun í stað þeirra sem hurfu til sælli heima á þessu ári. Ég harma það ef það á að verða menningarstefna hinnar nýju stjórnar að hætta að veita heiðurslistamannalaun og láta þau deyja út með þeim hópi sem er núna. Þetta er mjög mikilvæg viðurkenning fyrir okkar fremstu listamenn og það er mjög mikilvægt að hér á Alþingi ríki skilningur og áhugi á kjörum og heiðri listamanna.

Að þessu mæltu læt ég lokið ræðu minni.