135. löggjafarþing — 42. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[02:16]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikið er lagt í sumar ræður við þessa umræðu. Að halda því fram að ríkisstjórnarsamstarfið hangi á bláþræði vegna þess að fulltrúar meirihlutaflokkanna komi sér ekki saman um listamannalaun er náttúrlega svefngalsi af mjög góðri gráðu, ekki er stafur fyrir því. Þvert á móti hefur verið fjölgað í þeim flokki á undanförnum árum og nú varð niðurstaðan sú að bæta ekki í heldur hækka laun við þá 28 sem fyrir voru á listanum.

Það slær líka úr og í í því sem hv. þm. Bjarni Harðarson segir, að ég hafi borið hv. þingmanni það á brýn að hann vildi stofna hægri flokk. Það er misskilningur, hann hefur verið eitthvað annars hugar þegar hann hlýddi á umræðuna í kvöld. Ég var að draga saman orðræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, flokksbróður hv. þm. Bjarna Harðarsonar, í kvöld, ég sagði að hann yrði væntanlega fyrsti fulltrúi þess flokks sem hann vildi, og sæi það í hillingum, sjá stofnaðan.

Annað rekst hvert á annars horn í málflutningi þeirra hv. þingmanna, félaganna Bjarna Harðarsonar og Birkis Jóns Jónssonar. Annar þeirra hélt því fram að stjórnarflokkarnir væru að búa til kosningafjárlög og það yrði kosið á næsta ári en hinn hélt því fram hér rétt áðan að ekki yrði kosið fyrr en eftir fjögur ár. Það er því ekki mikill samhljómur innan þessa litla flokks sem forðum var stór í sinni þegar hann átti í samstarfi við þann ágæta flokk Sjálfstæðisflokkinn.