135. löggjafarþing — 42. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[02:20]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki verður annað sagt um hv. þm. Bjarna Harðarson en að hann sé spámannlega vaxinn, það verður ekki af honum skafið, alls ekki, og ég vona svo sannarlega að spádómar hans rætist í því að stjórnarmeirihlutinn haldi í fjögur ár. Ég held að það sé ekkert sem bendi til annars en svo verði þrátt fyrir það, eins og hann orðar það, að á stjórnarheimilinu séu menn í vandræðum með listamannalaun og kristindóminn og ég veit ekki hvað og hvað. Það er þá ekki í fyrsta skipti sem stofnanir lenda í vandræðum með blessaða kristnina eða trúna og því síður listamannalaunin, menn geta litið í eigin barm með það ef þeir vilja fara í einhverjar söguskoðanir varðandi þá þætti.

Þetta eru að sjálfsögðu litlar gárur á stórum vatnsfleti. Það er ekkert óeðlilegt þó að eitthvað sé tekist á og skoðanir séu skiptar á milli stjórnmálaflokka, hvað þá í stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem er gríðarlega öflugur og mikill meiri hluti. (BjH: Um hvað komu menn sér saman?) Hv. þingmaður reynir í svefngalsa sínum að grípa fram í fyrir þeim sem hér stendur og reynir að veita honum málefnalegt andsvar en það er ekki maklegt því að ég hef heyrt hv. þm. Bjarna Harðarson vitna mjög ítarlega og af yfirgripsmikilli þekkingu í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Margoft hefur verið vitnað til hennar úr þessum ræðustóli og mjög vel m.a. af hv. þingmanni. Um það var samið sem þar stendur og eftir því verður unnið. Það er ekkert óeðlilegt þó að menn takist á þegar verið er að hrinda því í framkvæmd, það er heilbrigt og skynsamlegt.