135. löggjafarþing — 42. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[02:24]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sagði að hér væri öflugur og mikill meiri hluti. Ekki nægilega öflugur til að vera stórhuga, til að vera stór í sniðum, og vísa ég þar í samskiptin sem meiri hlutinn á Alþingi hefur við minni hlutann. Meira um það síðar og þá við annað tækifæri.

Við erum komin að lokum 3. umr. um fjárlög ríkisins fyrir árið 2008. Fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa gert grein fyrir meginsjónarmiðum okkar. Þar vísa ég til ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar, fulltrúa Vinstri grænna í fjárlaganefnd þingsins, en hann hefur farið yfir helstu áherslur okkar, og síðan hafa einstakir þingmenn gert grein fyrir þeim breytingartillögum sem við höfum sett fram í hinum ýmsu málaflokkum.

Ég sagði við 2. umr. um fjárlög að ég mundi fara þess á leit að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra yrðu viðstaddir þessa umræðu. Hvorugur þessara ráðherra hefur verið við umræðuna hér í dag og reyndar hef ég saknað þess að sjá ekki fagráðherra verma ráðherrabekkinn. Hitt er svo annað mál að fulltrúar stjórnarmeirihlutans í fjárlaganefnd hafa staðið hér vel vaktina, formaður og varaformaður nefndarinnar, hv. þingmenn Gunnar Svavarsson og Kristján Þór Júlíusson, ásamt fleiri fjárlaganefndarmönnum, hv. þm. Illugi Gunnarsson er staddur í þingsal.

Ég ætla ekki að efna til langrar ræðu en mig langar til að beina þeirri spurningu til þessara tveggja fulltrúa Sjálfstæðisflokksins hér við umræðuna, hversu raunhæf þeir telji fjárlögin vera og þá sérstaklega með tilliti til velferðarstofnana samfélagsins. Ég er að horfa til sjúkrahúsa og ég er að horfa til heilsugæslunnar og öldrunarstofnana. Ég ætla að láta liggja milli hluta að sinni fyrirhugaðar skerðingar að raungildi á barnabótum og vaxtabótum, ég mun eiga orðastað sérstaklega við fulltrúa Samfylkingarinnar um það efni — þeir hafa á undanförnum missirum þegar þeir voru í stjórnarandstöðu verið háværir en nú bregður svo við að þeir samþykkja þegjandi skerðingu á þessum þáttum — en það eru fyrst og fremst umræddar heilbrigðisstofnanir sem ég horfi til.

Við fjáraukalögin var skuldahali hjá ýmsum stofnunum styttur, það er alveg rétt, hann var styttur hjá heilsugæslunni og hjá ýmsum heilbrigðisstofnunum. En fulltrúar þessara stofnana, Landspítala – háskólasjúkrahúss, heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og sjúkrastofnana víðs vegar um landið, hafa mjög miklar áhyggjur af því að þeir geti ekki haldið uppi viðunandi þjónustu við það framlag sem þeim er ætlað á fjárlögum. Ég nefni sem dæmi, og mikilvægt dæmi, að forsvarsmenn Landspítala – háskólasjúkrahúss tala um fjárvöntun á bilinu 600–1.000 millj. kr. á komandi ári til að geta haldið uppi óbreyttu þjónustustigi.

Varðandi heilsugæsluna á Reykjavíkursvæðinu er talað um 800 millj. kr.. Við erum að tala um skuldbindingar upp á um 400 millj. kr. og komið hefur fram að samanlagður halli á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sé metinn á liðlega 400 millj. kr. og að forsvarsmönnum heilsugæslunnar reiknist til að þeir þurfi 400 millj. kr. til viðbótar til að halda uppi óbreyttri þjónustu. Ég spyr í fullri alvöru: Hlustar fjárveitingarvaldið ekki á þessar raddir og hafa menn í fjárlaganefnd ekki áhyggjur af þessum varnaðarorðum eða taka þeir ekki tillit til þessara varnaðarorða? Telja þeir fullyrðingar þessara aðila vera út í hött? Í DV, held ég það hafi verið, mánudaginn 10. des., segir aðstoðarlandlæknir, með leyfi forseta: „Við teljum algjörlega óviðunandi að skera eigi niður nauðsynlega grunnþætti“, og hann er að vísa til heilbrigðisþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Taka menn ekki alvarlega ábendingar sem koma frá þessum aðilum um að þeir geti ekki rekið starfsemina með óbreyttri þjónustu við þær fjárveitingar sem þeim er ætlað á fjárlögum? Ég ætla ekkert að segja þetta í mjög löngum ræðum, menn þekkja þessar staðreyndir. Við höfum heyrt þetta í fréttum að undanförnu, við höfum fengið blaðagreinar í blöðum inn á eldhúsborðið hjá okkur, m.a. frá forustumönnum í BSRB, varaformönnum bandalagsins, formanni Sjúkraliðafélags Íslands og formanni Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar nú á síðustu dögum, fólki sem hefur puttana á púlsinum, sem segir að ef kjör innan velferðarþjónustunnar verði ekki stórbætt horfi þar nánast til landauðnar í ýmsum stofnunum. Þetta eru staðreyndir sem við þekkjum.

Við fáum álitsgerðir frá Samtökum heilbrigðisstofnana í öldrunarþjónustunni þar sem tíundað er hver uppsafnaður rekstrarhalli sé frá liðnum árum, það er verið að tala þar um 2,5 milljarða. Það er kvartað yfir of lágum daggjöldum. Við verðum vitni að því að stofnuð eru samtök aðstandenda sjúklinga á öldrunarstofnunum, ég nefni Droplaugarstaði, ég nefni Skjól. Morgunblaðið tekur þetta upp í leiðara undir fyrirsögninni „Sviknar vonir“ og niðurlagið er á þessa leið, með leyfi forseta:

„„Vonsvikin eftir fund með heilbrigðisnefnd Alþingis“ var fyrirsögn fréttar Morgunblaðsins í gær. Hversu lengi á að svíkja vonir fólks?“

Það vill nú svo til að ég þekki þetta af eigin raun vegna þess að ég er sjálfur í þessum aðstandendasamtökum og hef setið fundi og rætt við starfsfólkið og þekki þann þunga og áhyggjur sem búa að baki.

Ég gæti haldið áfram að þylja fleira upp, ég get talað um pólitíkina, áhyggjur af því að menn eru að hækka sértekjur í heilbrigðiskerfinu um 34%, enda setjum við fram tillögur um að draga úr sjúklingasköttum, sértekjum, um 160 milljónir. Við höfum áhyggjur af því að menn séu með þessum hætti og þar komum við að pólitíkinni í þessu — þegar við tölum um að svelta stofnanir til einkareksturs þá er nokkur alvara á bak við þá fullyrðingu vegna þess að við erum að horfa á tillögur frá Heilsugæslunni í Reykjavík t.d. um að leggja niður það sem heilbrigðiskerfið skilgreinir ekki sem kjarnaþjónustu, að hún verði tekin út og útvistuð. Er það það sem vakir fyrir mönnum eða trúa menn því að tillögur nefndar undir forustu framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, Vilhjálms Egilssonar, á Landspítalanum um niðurskurð um mörg hundruð milljónir séu raunhæfar, telja menn það?

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að efna til langrar ræðu í þeirri von að fá svör og umræður, fá einhver viðbrögð við því sem ég er að segja. Telur fjárlaganefnd og telja þeir ágætu fulltrúar í fjárlaganefnd sem hér eru, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, varaformaður nefndarinnar, og hv. þm. Illugi Gunnarsson, að þessi varnaðarorð sem koma innan úr kerfinu eigi ekki við rök að styðjast? Getur verið að það vaki fyrir mönnum að þvinga fram kerfisbreytingar í þá veru sem við höfum verið að halda fram? Við sjáum ekki annað.

Ég veit að ég breyti ákaflega litlu með því að fara nánar í gegnum þætti þessa máls en ég óska eftir svörum um þetta og minni jafnframt á að við leggjum fram hugmyndir um tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Við erum með tillögur um hækkun fjármagnstekjuskatts úr 10% í 14% og teljum að með því móti séum við að færa ríkissjóði 10,5 milljarða, hækkum frítekjumark fjármagnstekjuskatts upp í 140 þús. kr., vorum með það í 120 þús. kr., sem þýðir að við erum að hlífa öllum smásparendum í landinu, á milli 70 og 90% fjölskyldna og einstaklinga sem borga nú fjármagnstekjuskatt yrðu undanþegin slíkum skatti ef tillögur okkar næðu fram að ganga. Síðan höfum við beint þeirri ósk inn í hið nýja hermálaráðuneyti við Rauðarárstíg, utanríkisráðuneytið, að skera niður hernaðarútgjöld Íslands um einn milljarð og beina þeim peningum inn í heilbrigðisþjónustuna.

Við leggjum fram ýmsar tillögur um hækkun á framlagi til heilbrigðisstofnana. Ég ætla að það hafi þegar verið talað fyrir þeim tillögum hér í dag og ætla ekki að tíunda þær nánar en ég óska eftir því að fá viðbrögð við því sem ég er að segja.