135. löggjafarþing — 42. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[02:40]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Já, það mun vera Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri, sá ágæti maður. Hann gerir margt ágætt, hann Vilhjálmur Egilsson, fyrrverandi hv. þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar þingsins um langt skeið, en í þessu tilviki held ég að honum séu afar mislagðar hendur. Hann hefur gerst sekur um það sem er verst varðandi stjórnun í stofnunum á borð við Landspítala – háskólasjúkrahús, þ.e. hann beitir reglustikunni samhliða niðurskurðarsveðjunni. Hann gerir kröfu um að allar deildir skeri niður óháð því hverjar aðstæður eru uppi á hverjum stað.

Ég hef farið í gegnum skýrslur Ríkisendurskoðunar sem hafa sýnt fram á að á Landspítala – háskólasjúkrahúsi hefur á undanförnum árum verið stöðug framleiðniaukning, sem menn kalla, upp á fleiri prósent á ári hverju. Hvað þýðir þetta? Þetta getur þýtt að menn eru að gera hlutina á hagkvæmari máta en þetta getur líka þýtt aukið álag á starfsfólkið. Nú segja menn sem þarna starfa að ekki verði gengið lengra og það blasi við nánast hættuástand ef ekki komi til meira fjármagn.

Ég tel að fjárlaganefnd sýni mikið óraunsæi í mati sínu ef ekki vakir þá eitthvað annað fyrir nefndinni, þ.e. að þvinga þessar stofnanir til að útvista verkefni og setja þær í einkarekstur.