135. löggjafarþing — 42. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[02:42]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef um það er að ræða að í þessari tillögu fjárlaganefndar felist einhver þvingun af hennar hálfu mætti helst að mínu mati leiða það út í þann farveg að sú þvingun fælist í því að menn í heilbrigðiskerfinu, bæði þeir sem starfa innan þess og eru að stýra því, væru neyddir til að vinna með hlutina á annan hátt en hingað til hefur verið gert. Ég held að við gerum okkur það alveg ljóst eins og ég nefndi hér áðan að að óbreyttu verklagi í heilbrigðiskerfinu muni þessar fjárveitingar ekki duga. Ég held að við förum ekkert í grafgötur með það. Við teljum að það eigi að vera hægt að veita mjög góða og ekki lakari heilbrigðisþjónustu á Íslandi með öðru verklagi við þær fjárveitingar sem markaðar hafa verið til þessara stofnana. Það kallar alveg tvímælalaust á skipulagsbreytingar.

Ekki kann ég að svara því með neinni vissu hvernig sú tillaga sem hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi áðan í ræðu sinni, og laut að fjármögnun þeirra tillagna sem vinstri grænir hafa lagt fram og lýtur að því að hækka fjármagnstekjuskattinn, mun reynast á komandi ári, ekki síst í ljósi þeirra atburða sem hafa átt sér stað á íslenskum fjármálamarkaði síðustu tvær vikurnar. Mér þætti vænt um að heyra mat hv. þm. Ögmundar á því hvernig hann metur þá stöðu sem uppi er á íslenskum fjármálamarkaði, sérstaklega íslenskum hlutabréfamarkaði, hvernig mætt verði þeirri boðuðu hækkun á fjármagnstekjuskatti sem vinstri græn leggja til við fjárlagagerð næsta árs.