135. löggjafarþing — 42. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[02:46]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið og færa enn á ný formanni og varaformanni mínar bestu þakkir fyrir gott samstarf í fjárlaganefnd. Eins vil ég færa öðrum nefndarmönnum þakkir fyrir samstarfið og sérstakar þakkir til ágætra starfsmanna nefndarinnar sem unnið hafa alveg feikilega gott verk.

Ég er þeirrar skoðunar að sú viðbót sem orðið hefur á útgjöldum ríkisins sem komið hefur fram milli 2. og 3. umr. í meðferð þingsins, breyti ekki í veigamiklum atriðum efnahagslegum áhrifum frumvarpsins, ekki sé um slíkar tölur að ræða. Því stendur áfram sú skoðun mín að við séum komin að ystu mörkum sem hægt er að hugsa sér hvað varðar aukin ríkisútgjöld. Bætt hefur verið mjög myndarlega í, sérstaklega í heilbrigðismálin og jafnframt í félagsmálin og menntamálin, alla þá þætti sem við teljum skipta svo miklu máli í okkar samfélagi. Það er óskandi að við munum uppskera árangurinn af þeim umbótum á næstu árum og vonandi til langrar framtíðar og sérstaklega horfi ég til menntakerfisins, að við munum uppskera þar ríkulega.

Ég tek þó fram í ræðu minni, sem verður mjög stutt, að ég er ekki ánægður með hversu mjög hefur verið aukið í ríkisútgjöldin á milli 2. og 3. umr. hér í þinginu. Ég tel það ekki heppilegt og ekki gott fordæmi. Þó er það svo að megnið af útgjaldaaukningunni varð vegna útgjalda vegna aldraðra og öryrkja. Vissulega er gott að tekist hafi að bæta enn kjör þess hóps og sérstaklega er ánægjulegt að samfélag okkar skuli vera það ríkt að við skulum geta aukið útgjöld til málaflokksins án þess að steypa ríkinu í neinar skuldir.

Það breytir því ekki að ég vonast til að ekki verði fordæmisgefandi í störfum þingsins að aukið sé svona milli 2. og 3. umræðu. Ég held að betur fari á því að slík hækkun hafi komið fram þegar frumvarpið er lagt fram. Í 2. umr., sem er meginumræðan um fjárlög, verða helstu stærðir fjárlagafrumvarpsins að liggja alveg skýrar fyrir.

Ég vil að lokum þakka stjórnarandstæðingum fyrir málflutning þeirra. Mér þykir hann um margt hafa verið bæði málefnalegur og ágætur. Menn hafa í umræðunni í það minnsta gætt að því að lenda ekki í óendanlega löngum ræðum sem sumar hverjar eiga til að verða innihaldslitlar. Hér hafa frekar verið markvissari umræður við þessa umferð og vonandi veit það á gott.