135. löggjafarþing — 42. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[02:59]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu nema um örfáar mínútur. Það eru þrjú atriði sem ég vildi nefna, í fyrsta lagi er ég ekki sáttur við skýringar stjórnarmeirihlutans á fjárframlögum til velferðarkerfisins, einkum heilbrigðisstofnana, sjúkrahúsa, heilsugæslunnar og stofnana fyrir aldraða, sem ég hef einkum staðnæmst við í þessari umræðu.

Í annan stað vil ég segja að þegar um er að ræða fjárveitingar til hins opinbera, niðurskurð eða fjáraukningu eftir atvikum, held ég að við eigum að gæta okkar á því að gerast ekki of alhæfingasöm. Það er nefnilega mikill munur á því að tala um rekstur á starfsemi sem er við lýði og við viljum hafa í góðu lagi, sjúkrahúsin, heilsugæsluna, stofnanir fyrir aldraða annars vegar og síðan framkvæmdir hins vegar. Ég skil það mætavel og er því fylgjandi sjálfur á þenslutímum að draga úr framkvæmdum eins og kostur er. Ég hef t.d. skilning á því á þenslutímum að fresta stórframkvæmdum á borð við Sundabraut og stórar byggingar. Þó að ég vilji fá tónlistarhús er ég því andvígur að þetta sé allt gert á sama tíma. Sömuleiðis mætti nefna fleiri stórframkvæmdir. Ég vil ekki leggja þetta tvennt að jöfnu, við eigum að draga úr alhæfingum hvað þetta varðar.

Síðan er þriðja atriðið og tengist þessari umræðu sem ég hef vakið máls á, að menn séu í reynd að þröngva kerfinu út í einkarekstur, og ég hef sagt: Vegna þess fyrirkomulags sem við búum við á Íslandi sem er kokteill, blanda af einkarekstri og opinberum rekstri, er sá möguleiki fyrir hendi að á sama tíma og við tökum ákvörðun um að fresta smíði Landspítala – háskólasjúkrahúss, nýrrar byggingar þar, rísi hann engu að síður fyrir tilstuðlan einkaframtaksins — og ríkissjóður borgi. Inn í byggingarnar hlaðast sérfræðingarnir og læknarnir sem hafa aðgang að ríkissjóði vegna samninga við Tryggingastofnun þannig að ákvörðun um að fresta byggingu spítala getur leitt til þess í okkar kerfi að spítalinn rísi engu að síður, ekki við Hringbrautina heldur suður í Garðabæ eða í Heilsuverndarstöðinni, og peningarnir komi samt úr ríkissjóði. Þetta er samhengi hluta sem við þurfum að hyggja að.

Mér finnst nefnilega að þegar rætt er um heilbrigðisþjónustuna og þróun hennar sé umræðan óþægilega grunn oft og tíðum. Það er eins og að menn telji að öllu sé bjargað með kerfisbreytingum einum en það er ekki þannig. Spurningin snýst um það hversu mikið fjármagn við ætlum að setja í starfsemina og á hvaða forsendum. Við viljum ekki heldur fá kerfi þar sem aðilar hafa sjálftökurétt í hirslum ríkissjóðs og vösum skattborgarans. Þetta eru deilur náttúrlega sem hafa staðið milli sérfræðilækna annars vegar og hins opinbera hins vegar og eru mjög flókið mál. Viljum við kerfi eins og tannlæknar hafa búið til? Ég segi nei. Eða viljum kerfið sem við höfum hjá Tryggingastofnun?

Aðeins eitt að lokum. Þegar rætt er um einkavæðingu og einkarekstur segi ég: Menn mega stofna alla þá einkaspítala sem þeir vilja, setja upp allan þann einkapraxís sem þeir vilja, alla þá einkaskóla sem þeir vilja — en ef þeir vilja að ég borgi fyrir það vil ég líka vera með í ráðum um hvernig fjármunum er ráðstafað. Það er vegna þessarar blöndu og þessa fyrirkomulags sem ég segi að niðurskurður á einum stað getur haft í för með sér kerfisbreytingar og aukin útgjöld á öðrum.