135. löggjafarþing — 42. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[03:04]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Hæstv. forseti. Mér er hvort tveggja ljúft og skylt að ljúka þessari umræðu hér sem staðið hefur í dag í forföllum hv. þm. Gunnars Svavarssonar, formanns fjárlaganefndar, sem þurfti að fara af þingfundi af persónulegum ástæðum. Fyrir hönd fjárlaganefndar færi ég öllum sem hér hafa tekið þátt í umræðunni bestu þakkir fyrir málefnalega og góða umræðu. Vissulega er hún löng, menn hafa sumir hverjir sett hér á langar ræður, mishnitmiðaðar, meðan aðrir hafa meitlað orð sín með öðrum hætti og betur kannski og það hefur að mínu mati ekki skilað síðri árangri að setja mál sitt fram með knappari hætti.

Það fer ekki hjá því við þá vinnu sem lögð hefur verið í gerð fjárlagafrumvarpsins af hálfu núverandi fjárlaganefndar að þar hafa komið fram þau sjónarmið að ýmislegt við þetta verklag beri að skoða og að mönnum beri að hyggja að öðru verklagi en viðgengist hefur og vilja ganga til þess að endurnýja það. Það er umræða um hver viðfangsefni fjárlaganefndar eru og hafa verið í þessu ferli, hvernig samspil fjárlaganefndar og framkvæmdarvaldsins á að vera við gerð fjárlagafrumvarpsins. Þar takast á að sjálfsögðu grundvallaratriði varðandi þingið sjálft, hvert verksvið þess á að vera við stefnumótun í þessum efnum og aðkomu þess að því verki. Þetta lýtur líka að tímasetningum, að því hvernig fjárlagafrumvarpið er unnið, hvenær það er lagt fram, hvaða tíma og svigrúm í rauninni þingið hefur til að vinna með fjárlagafrumvarpið og taka á í því efni ef það vill leggja sínar sérstöku áherslur í það verk.

Þetta eru allt saman viðfangsefni sem bíða okkar í kjölfar þess að fjárlagafrumvarpið verður afgreitt hér væntanlega í fyrramálið í atkvæðagreiðslu. Ég vænti góðs samstarfs við nefndarmenn sem ég þakka af heilum hug gott samstarf ásamt öllu því starfsfólki sem hefur ljáð okkur liðsinni sitt við að leggja þetta frumvarp fram. Ég vona heitt og innilega að þingið sjálft leggi vel í það verk sem fram undan er við það að endurgera verkferla og vinnulag við gerð fjárlagafrumvarpsins sem og óska ég þess að samstarfið við framkvæmdarvaldið verði gott í þeim efnum. Ég tel engu þurfa að kvíða á þeim tímum sem fram undan eru og við lok þessarar umræðu lýsi ég því einnig yfir að við erum mjög stolt yfir því að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í því að leggja fram þetta fjárlagafrumvarp og væntum þess að það verði mikil, góð og breið samstaða við afgreiðslu þess á þingfundi í fyrramálið. (ÖJ: Einkunnarorð …)