135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

afgreiðsla allsherjarnefndar á þingskapafrumvarpinu.

[10:38]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að Vinstri grænir hafa aldrei ætlað að vera með í þessu máli. Mörg tækifæri hafa gefist til að semja um þetta mál, um þingsköpin, (SJS: Rangt, rangt, rangt.) bæði í sumar og í haust í hópi þingflokksformanna og í allsherjarnefnd, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, það hafa gefist mjög mörg tækifæri til þess að vera með í þeim málamiðlunum sem menn hafa tekið þátt í. Allir flokkar hafa tekið þátt í málamiðlunum hér nema Vinstri grænir og það er alveg ljóst að þeir hafa ekki ætlað að vera með frá upphafi. Ef þeir hefðu ætlað það, virðulegi forseti, hefðu þeir náð samkomulagi við okkur af því að við teygðum okkur í áttina til þeirra.

Ræðutíminn hefur verið lengdur frá því sem til stóð til að teygja sig í átt til Vinstri grænna, búið er að lengja ræðutímann um fjárlögin til að teygja sig í átt til Vinstri grænna en þetta er ekki nóg. Við sem stöndum að þessu frumvarpi viljum styttri og snarpari ræðutíma. Við viljum að þessi vinnustaður sé fjölskylduvænni og breytist til nútímahátta og verði líkari því sem gengur og gerist á öðrum Norðurlöndum. Það vilja Vinstri grænir ekki og ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég vorkenni Vinstri grænum í þessu máli. (ÖJ: Þú ert búin að gera það lengi.) Þeir hafa ekki viljað semja, þeir vilja ekki vera með okkur hinum í að breyta Alþingi þannig að það (Gripið fram í.) verði nútímalegri og betri vinnustaður. (Gripið fram í.) Þeir vilja vera einir og þeir hafa dæmt sig til einangrunar í þessu máli.

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þingmenn sem ekki eru í ræðustól að gefa ræðumanni frið til þess að tjá sig.) (ÖJ: ... um einkavinaspillingu Framsóknar.)

Hæstv. forseti. Þær svívirðingar sem koma utan úr þingsal eru ekki svara verðar. Ég hef verið trufluð í ræðu minni, það verður að hafa það, en ég ítreka að ég vorkenni Vinstri grænum.