135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

afgreiðsla allsherjarnefndar á þingskapafrumvarpinu.

[10:42]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Ég harma það að þingskapafrumvarpið skuli komið á dagskrá með þeim hætti sem raun ber vitni. Það hefur alltaf legið fyrir af hálfu okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að við höfum lagt kapp á að allir flokkar gætu orðið samstiga í afgreiðslu um þingskapamál. Það er rangt sem hér er haldið fram að ekki hafi verið gefin tækifæri til þess og það er rangt sem hv. þm. Jón Magnússon segir að engar tillögur hafi komið fram frá okkur um þetta efni. Það er rangt, það stenst enga skoðun. Þær tillögur hafa komið fram og þeim hafa fylgt þau orð að við værum að sjálfsögðu reiðubúin til viðræðna um þær hugmyndir, þar væru engir úrslitakostir á ferðinni.

Hv. þingmaður segir að hinn mikli þingskapameirihluti hafi skapast vegna þess að hér sé um heilbrigða skynsemi að ræða. Mér dettur nú í hug að því að verr gefast heimskra manna ráð sem fleiri koma saman, þó að ég ætli ekki endilega að segja að það eigi við í þessu tilfelli en óneitanlega kemur það upp í hugann. (Gripið fram í.) Við erum ekki sammála því að þær tillögur sem hér liggja fyrir leiði til skilvirkari þingstarfa, skilvirkari löggjafarstarfa burt séð frá umræðu um ræðutímann. Það er í raun fáfengilegt, þegar verið er að fara úr því ástandi að hér er ótakmarkaður ræðutími í 2. og 3. umr. um lagafrumvörp niður í takmarkaðan ræðutíma sem við höfum líka sagt að við værum reiðubúin til að skrifa upp á, að umræðan skuli þá snúast um einhverjar örfáar mínútur til eða frá og menn skuli láta brjóta á því.

Við erum þeirrar skoðunar að vinna þurfi að skilvirkari lagasetningu. Umboðsmaður Alþingis hefur margsinnis kvartað yfir því að löggjafarstarfið sé ekki nógu vandað. Við sjáum það ekki gerast í þessum tillögum, okkur sýnist ofurvald forseta Alþingis og framkvæmdarvaldsins verða enn meira verði frumvarpið að lögum og það er (Forseti hringir.) ekki vegna þess að við séum á móti því að bæta löggjafarstarf.