135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

afgreiðsla allsherjarnefndar á þingskapafrumvarpinu.

[10:44]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Það liggur fyrir að ræðutíma og störfum hefur verið breytt í ríkisstjórn, í bæjar- og sveitarstjórnum til að gera þau nútímalegri, í fyrirtækjum og Alþingi verður að fylgja þeirri þróun til þess að vera lýðræðisleg stofnun sem menn hafa áhuga á. Það hefur enginn áhuga lengur á löngum ræðum. Ég hugsa t.d. til hæstv. félagsmálaráðherra, sem situr mér á vinstri hönd, í æsku flutti hún 10 tíma ræðu í þinginu (Félmrh.: Tíu og hálfan.) með einu líffræðilegu stoppi í miðju, en það hefur enginn áhuga lengur á svona umræðum. Vinstri grænir stunda slíka umræðu, þeir telja sjálfir að þeir séu gullkjaftar, en menn vilja sjá snarpari skoðanaskipti þar sem tekist er á í þinginu á málefnalegan hátt í stuttum og örum ræðum. Sjálfur Churchill sagði einhvern tíma að það tæki sig fimm mínútur að semja fimm tíma ræðu og fimm klukkustundir að semja fimm mínútna ræðu. Þetta er sannleikur málsins. Við getum mörg komið hér upp og talað í fimm eða tíu klukkustundir án nokkurs undirbúnings en vandinn er að vera stuttorður, málefnalegur, að sjónarmið komi fram. Oft er hringt í mig utan úr þjóðfélaginu, fólk er að fylgjast með umræðu (Gripið fram í.) og þingmenn taka miðjuna úr deginum í þriggja og fjögurra tíma ræður. Ég segi við vini mína í Vinstri grænum: Þeir misnota frelsið og eyðileggja oft nútímalega umræðu með svívirðilega löngum ræðum og þeir eiga auðvitað að ganga til samninga. Nú hefur ræðutíminn í 2. umr. verið lengdur, sem er fagnaðarefni, og auðvitað gátu þeir gengist inn á það mál. Þeir kusu annað, þeir halda enn að það sé tíska að tala dag og nótt. (Forseti hringir.) Það skiptir máli að láta verkin tala og að fólkið sjái hver sjónarmið okkar í þinginu eru.