135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

afgreiðsla allsherjarnefndar á þingskapafrumvarpinu.

[10:49]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi þá er það rangt sem fram kom hjá þingflokksformanni Framsóknarflokksins að ítrekað hafi gefist tækifæri til samninga og samkomulags. Hið rétta er að ítrekað hefur verið rætt um breytingar á þingskapalögum og hvaða sjónarmið ættu þar að liggja að baki. Á hvaða forsendum breytingarnar ættu að hvíla.

Síðan gerist það að hæstv. forseti Alþingis afhendir okkur frumvarp með þeim orðum að við tökum því eða höfnum. Þetta er staðreynd málsins. Síðan höfum við reynt að hnika málum til. Lagt fram breytingartillögur og hugmyndir að breytingum í allsherjarnefnd þingsins og þegar við samþykktum að vísa málinu þangað fyrir nokkrum dögum þá var það gert með því fororði að við væntum þess að málið fengi djúpa og málefnalega umfjöllun. Það er rangt hjá hv. þm. Jóni Magnússyni að við höfum ekki lagt fram hugmyndir að breytingum. Ég vil þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir að staðfesta að svo sé.

Hæstv. forseti. Ég fór þess á leit formlega í gær að málinu yrði frestað þannig að okkur gæfist ráðrúm til að vinna breytingartillögur okkar og greinargerð með þeim. Við óskuðum eftir því að frestur yrði gefinn þar til síðdegis í það minnsta, nefndum klukkan sex hvað þetta snertir. En hvað gerist? Búið er að setja málið á dagskrá þegar í dag, þegar eftir að atkvæðagreiðsla um fjárlög hefur farið fram núna á eftir. Svo eru menn að tala um sanngirni og lýðræðisleg vinnubrögð.

Aðeins varðandi eitt, hæstv. forseti, hvort það eigi að hlusta á einn flokk af fimm. Já. Við erum að tala um stærsta stjórnarandstöðuflokkinn á þingi (Forseti hringir.) og við erum að tala um stjórnarskrárbundnar skyldur sem sá flokkur hefur til að rækja það hlutverk sitt að halda uppi (Forseti hringir.) stjórnarandstöðu og veita framkvæmdarvaldinu verðugt aðhald.