135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:12]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Komið er til lokaafgreiðslu fjárlagafrumvarp ársins 2008, fyrsta fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar. Eins og mál þetta er afgreitt úr fjárlaganefnd er afgangur á ríkissjóði á næsta ári áætlaður tæplega 40 milljarðar kr. Til viðbótar því afgreiddum við hér fyrir nokkrum dögum fjáraukalagafrumvarp með u.þ.b. 82 milljarða kr. afgangi.

Þessar staðreyndir eru mikilvægt innlegg í þá baráttu sem fram undan er fyrir efnahagslegum stöðugleika. Þessar tölur sýna svart á hvítu að ríkisstjórnin og meiri hluti hennar hér á Alþingi er að auka aðhald í ríkisfjármálum og leggja sitt af mörkum til að auka stöðugleikann í þjóðfélaginu.

Ég óska fjármálaráðherra sem hefur veikindaleyfi í dag til hamingju með þennan árangur, sömuleiðis fjárlaganefndinni allri og öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóg til að þessi mætti verða niðurstaðan.