135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:17]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Fjárlög fyrir árið 2008 koma hér til lokaafgreiðslu. Þau byggja að meginstofni til á óbreyttri stefnu fyrrverandi ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Það sést ekki mikill munur hver þar er undir sæng með Sjálfstæðisflokknum, enda bjuggust fæstir við að það mundi nokkru breyta. (Gripið fram í.) Þetta er þó áherslubreyting, í fyrsta lagi er stofnuð hér hernaðarstofnun. Hin nýja áhersla ríkisstjórnarinnar er herstofnun. Varið er til þess samtals á tveimur árum á þriðja milljarð kr. og á hún að hafa umsjón með heræfingum, kosta heræfingar erlendra herja hér á landi. Þetta hefur ekki gerst síðan lýðveldið var stofnað.

Í öðru lagi er mörkuð sú stefna að hefja skuli nú einkavæðingu og markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins, enda fagnaði hæstv. forsætisráðherra því að fá Samfylkinguna með sér í ríkisstjórn svo að hægt væri að taka þar til hendi í þá veruna. Þetta sést líka í fjárlögunum, heilbrigðisþjónustunni er haldið í fjárhagslegri úlfakreppu. Ég hef rætt hér heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu sem bæði er með gríðarlegan halla og rekstrarfjárskort á næsta ári, Landspítalann, heilbrigðisstofnanirnar um allt land, sérstaklega minni heilbrigðisstofnanir sem verða sendar út í næsta ár með skertar fjárveitingar til að takast á við þau verkefni. Þetta eru hin nýju áhersluatriði þessarar ríkisstjórnar sem hæstv. forsætisráðherra síðan grobbar af að sé með mikla og digra sjóði. Þetta fólk fær hins vegar ekki að njóta þess, sjúkt, aldraðir, öryrkjar.

Nú verður gengið til atkvæðagreiðslu, herra forseti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa lagt fram breytingartillögur til þess að sníða af verstu vankanta þessa frumvarps varðandi heilbrigðismálin, menntamálin og fleiri mál og ég skora á hv. þingmenn að styðja þær. Við munum styðja allnokkrar breytingartillögur sem fjárlaganefnd leggur til um ýmis atriði sem hafa verið unnin í því samkomulagi sem ramminn hefur skammtað í fjárlaganefndinni. Varðandi þær tillögur sem hins vegar eru unnar fullkomlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar munum við annaðhvort sitja hjá eða greiða atkvæði gegn ef við teljum (Forseti hringir.) sérstaka ástæðu til.