135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[11:45]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég greiði þessari tillögu atkvæði mitt þótt ég sé ekki sátt við þann afgreiðslumáta sem fjárlaganefnd hefur kosið að hafa á ákveðnum þáttum fjárveitinga til Þjóðminjasafns Íslands. Þjóðminjasafnið fær verkefni í hendurnar upp á tugi milljóna króna sem Þjóðminjasafnið á enga aðild að. Þetta eru sjálfstæð verkefni sjálfstæðra fyrirtækja eða einstaklinga úti í bæ sem vinna við fornleifarannsóknir eða að uppgreftri. Þjóðminjasafnið þarf hins vegar að hafa umsýslu með fjármununum og greiða þessum sjálfstæðu aðilum þá fjármuni sem fjárlaganefnd samþykkir, og við hér, að setja í þessi verkefni. Þetta er ekki eðlilegur framgangsmáti.

Verkefni af þessu tagi á að setja á safnliði en ekki gera Þjóðminjasafnið að umsýslustofnun í þessum efnum þótt auðvitað sé gott að fá viðurkenningu á því að Þjóðminjasafnið fái peninga, sjálfstæða fjárhæð, til að annast þessa umsýslu. Þetta er hins vegar ekki eðlilegur framgangsmáti (Forseti hringir.) þótt ég greiði atkvæði með tillögunni.