135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:14]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fjárlaganefnd Alþingis hefur borist erindi frá sjúkrahúsunum í landinu og í fréttatímum útvarps- og sjónvarpsstöðva og í blöðum höfum við fengið það staðfest að forsvarsmenn sjúkrahúsanna í landinu telja að verði ekki breyting gerð á ákvörðun stjórnarmeirihlutans um fjárframlög til þessara stofnana á komandi ári blasi víða við neyðarástand, að þessar stofnanir geti ekki sinnt þeim verkefnum sem þær sinna nú. Þetta er tilraun af okkar hálfu til að ná fram málamiðlun. Landspítalinn þyrfti t.d. 1.000 millj. að mati forsvarsmanna sjúkrahússins til að halda í horfinu á næsta ári. Við leggjum hér til málamiðlun um framlag upp á 600 millj. og við leggjum til framlag upp á 80 millj. til Sjúkrahússins á Akureyri. Það mundi varla duga til að mati þeirra (Forseti hringir.) sem til þekkja en þetta er tilraun okkar til málamiðlunar.