135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:26]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Með þessari tillögu er eingöngu verið að gera heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu kleift að starfa með óbreyttu sniði. Samt er krafan um að auka framboð heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu. Það eru þúsundir manns hér án heimilislæknis, án þjónustu heilsugæslu. Við erum líka að tala um hvernig eigi að halda utan um og hefta þenslu og útgjöld til heilbrigðismála. Neyðin er fyrst og fremst að efla heilsugæsluna, efla fyrst og fremst heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu. Er með þessari afgreiðslu fjárlaga til heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu verið að úthýsa þeim verkefnum sem hefur verið gerð tillaga um? Er verið að úthýsa þessum mikilvægu verkefnum forvarna til einkaaðila, til nýrrar starfsemi? Er það það sem liggur að baki? Eru þetta (Forseti hringir.) sparnaðaraðgerðir ríkisstjórnarinnar til frekari einkavæðingar? Ég segi já.