135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:44]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Virðulegur forseti. Við leyfum okkur að endurflytja tillögu, lítt breytta frá 2. umr., um viðbótarframlög til Ferðamálastofu. Þar er fyrst og fremst um að ræða aukin framlög upp á 30 millj. kr. til ferðamálasamtaka landshluta vegna upplýsingamiðstöðva sem er mikilvægur hluti af þeirra starfsemi. Í öðru lagi 20 millj. kr. til fjölsóttra ferðamannastaða þar sem við gerum ráð fyrir að framlagið fari til úrbóta í umhverfismálum á fjölsóttum ferðamannastöðum og loks viðbótarframlag til markaðssóknar í íslenskri ferðaþjónustu upp á 75 millj. kr. en samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er framlag til markaðssóknar í íslenskri ferðaþjónustu skorið niður í 70 millj. kr. en var fyrir þremur árum 300 millj. kr. Það er að mínu mati alvarleg atlaga að þessari mikilvægu og blómlegu atvinnugrein í landinu og þess vegna leggjum við til og væntum stuðnings við aukið framlag til þessa málaflokks.