135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:53]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Það liggur fyrir að samkvæmt gildandi reglum um endurgreiðslur á hluta virðisaukaskatts vegna fráveituframkvæmda sveitarfélaga vantar verulegar fjárhæðir í frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2008. Ríkisstjórnin virðist sem sagt ekki reiðubúin til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart sveitarfélögunum að þessu leyti og er það þá ekki fyrsta dæmið þar um.

Við leggjum hér til, þingmenn Vinstri grænna, að til þessa málaflokks verði bætt við til að standa undir þeim skuldbindingum sem ríkið hefur undirgengist með lögum um endurgreiðslu á framkvæmdakostnaði sveitarfélaganna vegna fráveituframkvæmda. Það er mjög mikilvægt að Alþingi sýni í verki gagnvart sveitarfélögunum að það hyggist standa við samninga sem það hefur gert.