135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:56]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég átel og undrast framgöngu ríkisstjórnarflokkanna og sérstaklega Samfylkingarinnar hvað varðar fjárhagsstöðu Náttúrufræðistofnunar Íslands. Ég hef átt þess kost undanfarin 10 ár að fylgjast mjög náið með samskiptum þings og stofnunar, ráðuneytis og stofnunar og þar hefur gengið á ýmsu en það verður að viðurkennast að hvað varðar árið 2008 horfa starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands fram á erfiðustu stöðu sem þar hefur lengi verið uppi. Það er ekki aðeins að afsalað hafi verið heimanmundinum sem ég kalla, lóðinni sem var gefin í tilefni af 200 ára afmæli Hins íslenska náttúrufræðifélags í Vatnsmýri, nú á einnig að selja húsnæðið sem stofnunin er í samkvæmt fjárlögum en það á ekki að bæta fyrir um húsnæði stofnunarinnar peningalega á næsta ári og það á alls ekki að efla starfsemina. (Forseti hringir.) Þetta er þegar Samfylkingin fer með umhverfisráðuneytið. Ég segi já.