135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[12:58]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er gerð tillaga um að fella úr gildi heimild til að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Orkuveita Reykjavíkur og ríkissjóður eiga og reka hitaveituna saman og á ríkissjóður liðlega 20% hlut í henni. Hitaveitan á jafnframt jarðhitaréttindi á jörðinni Deildartungu í Reykholtsdal, þar á meðal Deildartunguhver sem er einn vatnsmesti hver jarðar.

Með vísan til þess hvernig ríkisstjórnarflokkarnir nýttu heimild á fjárlögum til sölu Hitaveitu Suðurnesja síðasta vor er mjög brýnt að afnema nú þegar heimild til sölu á hlut ríkisins í Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar ásamt Deildartunguhver svo að hún fari ekki á sömu leið.