135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[13:01]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég flyt breytingartillögu við fjárlög sem á að koma í veg fyrir að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins geti farið fram hjá Alþingi Íslendinga í því skyni að einkavæða heilbrigðiskerfi landsmanna. Sjálfstæðismenn hafa sagt að fara eigi í umfangsmiklar breytingar á heilbrigðiskerfinu og heimildargreinin í fjárlagafrumvarpinu er því miður á þann veg að fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins geta komist hjá lýðræðislegri og opinni umræðu í þinginu til þess að fara í róttækar breytingar. Ég trúi því ekki að samfylkingarmenn muni greiða atkvæði gegn því að umræðan sem slík fari fram á vettvangi þingsins.

Þess ber einnig að geta að Framsóknarflokkurinn hefur farið með málefni heilbrigðisráðuneytisins (Gripið fram í.) síðustu ár og umrædd heimildargrein hefur verið þar inni. Ég hef að sjálfsögðu treyst ráðherrum Framsóknarflokksins til að standa vörð um heilbrigðiskerfið en Samfylkingin hefur afhent (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokknum heilbrigðisráðuneytið. Sjálfstæðismenn segja að nú sé hægt að ráðast í (Forseti hringir.) hluti sem ekki var hægt að gera með framsóknarmönnum. Einkavæðing verður það, hæstv. forseti.