135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[13:05]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli á því að engir hlutir eru til sölu í Hitaveitu Suðurnesja. Ef maður hefur einu sinni selt hlut líkt og þennan er það einfaldlega þannig að þeir geta gengið kaupum og sölum miðað við þær samþykktir sem gilda um það í félaginu og í þessu tilfelli er forkaupsréttur í félaginu. Ríkið á ekki hlut í Hitaveitu Suðurnesja hf. lengur og mun þar af leiðandi ekki geta nýtt sér forkaupsréttinn, en það er forkaupsréttarákvæði inni í félaginu.

Ég vil einnig vekja athygli á því, hv. þingmenn, að það voru sveitarfélög sem keyptu þennan hlut af ríkinu á sínum tíma, það voru sveitarfélögin Reykjanesbær, Grindavík og Hafnarfjörður sem síðan seldu m.a. Orkuveitu Reykjavíkur. Það liggur því ljóst fyrir hvernig farið var með hlut ríkisins. Í umræðum hér hefur því oft verið haldið á lofti að hlutur ríkisins hafi farið yfir til Geysis Green en það var alls ekki svo heldur fór hlutur ríkisins yfir til sveitarfélaganna.