135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[13:06]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er lýðum ljóst að fráfarandi ríkisstjórn fórnaði Hitaveitu Suðurnesja á altari einkavæðingarstefnu sinnar með skilyrtri sölu á 15% hlut sínum, skilyrtri sölu, hv. þm. Gunnar Svavarsson, vegna þess að þeir sem ekki máttu bjóða í hlutinn voru þau fyrirtæki sem voru í opinberri eigu. Það var fyrir fram ákveðið að þetta skyldi á almennan markað.

Nú eftir að þrjú sveitarfélög hafa slegið skjaldborg um jarðhitaréttindi sín á Reykjanesi hefur þrengt mjög að framtíðarmöguleikum Hitaveitu Suðurnesja og miklar deilur og óvissa eru um framtíð fyrirtækisins, hvert það stefnir. Til að endurreisa Hitaveitu Suðurnesja og eyða óvissu um framtíð fyrirtækisins leggjum við þingmenn til að ríkið (Forseti hringir.) stígi þetta skref til baka. Það er það eina sem getur tryggt þessu (Forseti hringir.) fyrirtæki einhverja framtíð.