135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

kjararáð.

237. mál
[14:21]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Sú var tíðin að starfsmenn hins opinbera höfðu ekki samningsrétt um kaup sitt og kjör. Þá var um að ræða einhliða ákvarðanir, margvíslegt form haft á þeim ákvörðunum, í kjararáðum og kjaradómum og ég minnist þess tíma þegar þau samtök sem ég var félagi í, Starfsmannafélag sjónvarpsins, fluttu mál sitt fyrir Kjaradómi. Að vísu var þá um að ræða blöndu af ákvörðunum um kjörin í samningum og einnig kom til sögunnar ákvörðun Kjaradóms.

Það sem athyglisvert var við viðhorf manna til þessa fyrirkomulags var hve mjög ásáttir þeir sem voru í efri stigum launakerfisins voru við þetta kerfi, og hve hinir sem lægst höfðu kjörin, sem voru nærri gólflistanum eins og kallað er á vinnustöðum, voru ósáttir vegna þess að skilningurinn á þörf fyrir kjarabætur hjá þessum háæruverðugu dómstólum og dómurum var jafnan meiri gagnvart stjórnendum og þeim sem stóðu ofar í launastiganum en gagnvart kjörum hinna.

Í seinni tíð höfum við búið við þetta fyrirkomulag eins og við þekkjum og hafa alþingismenn og kjörnir fulltrúar og svokallaðir æðstu embættismenn heyrt undir þetta kerfi þar til síðast upp úr sauð. Það hefur nokkrum sinnum soðið upp úr í þessu kerfi, menn hafa ekki alltaf verið sáttir við ákvarðanir á þessum bæ. Það mun hafa verið síðla hausts 2005 sem það varð til þess að ákvarðanir Kjaradóms voru afturkallaðar og eftir mikið japl, jaml og fuður var ákveðið að ráðast í breytingar á lögunum. Við þá lagasmíð myndaðist einhugur á Alþingi í þá veru að stefnt skyldi að því að fækka þeim sem heyrðu undir kjararáð og sett var í lögin takmarkandi ákvæði þess efnis.

Nú er það mál manna sem hafa verið að fjalla um þetta tiltekna frumvarp að enn sé lagatextinn harla óljós. Hann er svo óljós að núverandi kjararáð á í mestu vandræðum með að ákvarða hverjir eigi að heyra undir ákvörðunarsvið ráðsins og hverjir ekki. Ágengnin og þrýstingurinn hefur verið mikill frá ýmsum hópum. Fyrst lét kjararáð undan hinu geistlega valdi, prestar vildu ólmir fá að heyra undir vængi kjararáðs og varð ágengt í því efni, því að eftir því sem ég man best og veit best ákvarðar kjararáð kjör presta.

Þá komu prófessorar. Prófessorar vildu búa við eitthvert allt annað kerfi en almennir lektorar og kennarar, hvað þá almennir starfsmenn háskólanna. Þeir vildu ekki sæta ákvörðunum við samningaborð milli stéttarfélaganna og ríkisvaldsins eða launagreiðandans, heldur vildu þeir að kjararáð ákveddi kjör þeirra. Ekki hafa þeir náð þeim vilja sínum fram eftir því sem ég best veit.

Þá kom næsti hópur og það er sá hópur sem er að finna í þessu frumvarpi. Það eru skrifstofustjórar hjá Stjórnarráðinu. Ég held að þeir séu um 60 talsins, ef ég man rétt, sem næstir bönkuðu upp á hjá kjararáði. Kjararáð vísaði málinu til þingsins og hefur nú beðist ásjár og beðið hæstv. fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytið að hjálpa sér og þaðan mun þetta frumvarp eða þessi breyting við lögin um kjararáð vera ættuð. Lagt er til að skrifstofustjórar hjá Stjórnarráðinu fái nú inngöngu í þennan fína klúbb sem mönnum finnst vera. Meiri hlutinn á þinginu, ég man ekki hvort það er allur þingskapameirihlutinn, a.m.k. ríkisstjórnarmeirihlutinn, hefur fallist á þessa málaleitan þótt í nefndinni hafi komið fram ákveðnar efasemdir og hér í ræðustól m.a. frá hv. þm. Pétri H. Blöndal, formanni nefndarinnar, svo og hv. þm. Bjarna Benediktssyni.

Ég kveð mér hljóðs í þessari umræðu fyrst og fremst til að reifa þann vanda sem hvílir hjá kjararáði sjálfu hvað varðar ákvörðunarvald, markalínur, hvar eigi að draga landamæri, hverjir eigi að heyra undir ráðið og hverjir ekki, og tek undir það sjónarmið sem fram kom hjá fyrrnefndum þingmönnum sem ég nefndi að æskilegt væri að skýra lögin betur hvað þetta snertir. Sjálfum finnst mér mjög mikilvægt að sem flestir sæti ákvörðun um kjör sín og kaup samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaganna og ég kaupi ekki þau rök sem teflt hefur verið fram af hálfu fjármálaráðuneytisins eða hæstv. fjármálaráðherra, sem ýtir þessu frumvarpi inn í þingsal, að skrifstofustjórar hjá Stjórnarráðinu hafi allir með samningsgerð að gera.

Það eru ákveðin rök fyrir því að kjör þess sem stýrir samningum fyrir hönd stofnunar séu ákvörðuð öðruvísi en í kjarasamningum. Ég skil þau, en ég held einfaldlega að þetta eigi ekki við um alla skrifstofustjóra. Svo er þess að geta að ákvörðunarvaldið og samningagerðin er í talsvert ríkum mæli komin inn í einstaka stofnanir. Menn hafa heyrt um stofnanasamninga.

Hvað þingmenn varðar þá hef ég jafnan verið þeirrar skoðunar að Alþingi eigi sjálft að ákvarða um kaup þingmanna og ráðherra. Ég held að vísu að ég sé nánast einn um þá skoðun. Þetta er minnihlutasjónarmið sem ég átti þó sameiginlegt með fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Davíð Oddssyni, ef ég man rétt þótt hann treysti sér aldrei til að fylgja þeirri sannfæringu sinni við atkvæðagreiðslu hér í þingsal.

Röksemd mín var þessi: Á bak við allar ákvarðanir sem teknar eru, hvort sem er um kaup, kjör eða annað, á að liggja ábyrgð. Það á að vera hægt að sækja þann sem tekur ákvörðunina og láta hann standa eða falla með sinni ábyrgð. Með því að skipa kjararáð eða Kjaradóm til að ákvarða um kjör okkar firrum við okkur þessari ábyrgð að mínum dómi. Þess vegna fannst mér eðlilegt að þessi ákvörðun yrði tekin hér á endanum, gæti verið samkvæmt ábendingu eða tillögu sem kæmi frá aðila á borð við kjararáð, en síðan mundum við standa og falla með ákvörðunum okkar. Við gætum t.d. gert það í sömu viku og við ákvörðum um kjör öryrkja eða kjör ellilífeyrisþega. Ég held að það gerði okkur gott að halda okkur svolítið við efnið og jarðtengdum hvað þetta snertir.

Hins vegar tek ég fram að ég greiddi atkvæði með kjararáði og lögunum eins og þau liggja fyrir núna vegna þess að þau eru byggð á málamiðlun sem allir þáverandi þingflokkar stóðu að og ég hygg að við höfum öll greitt atkvæði með þessari skipan mála.

Það er eitt annað atriði sem mig langaði til að nefna í þessari umræðu og það er að það færist í vöxt að stjórnendur stofnana hjá hinu opinbera eða í eigu opinberra aðila semja um sín kjör við stjórnir stofnananna eða fyrirtækjanna. Er einhver lína eða einhver rauður þráður í þessu? Já, hann er sá að þetta á fyrst og fremst við um þær stofnanir sem sýsla með fjármuni, stofnanir sem eru á einn eða annan hátt tengdar inn í fjármálamarkaðinn. Þá er röksemdin sú að til að fá fólk til starfa í samkeppni við fjármálastofnanir þurfi að greiða eftir því munstri sem þar er að finna.

Ég gef lítið fyrir þessar ákvarðanir, enda held ég að ekki sé rétt samhengi á milli hárra launa og gæða í störfum og gæða við stjórnun nema síður sé. Það getur vel verið að það sé meira að segja stundum öfugt hlutfall þarna á milli. En ég vek athygli á því að hvað varðar stofnanir sem sýsla með manneskjur, heilbrigðisstofnanir, leikskólar, skólar almennt, þá dettur engum í hug að stjórnir viðkomandi stofnana séu samningsaðilar um kaup þeirra sem stýra bátnum.

Hæstv. forseti. Ég vildi fyrst og fremst vekja athygli á þessum sjónarmiðum, að það á við um þessi lög eins og allflesta lagasmíð að hún þarfnast stanslausrar endurskoðunar. Öll löggjöf á að sönnu að vera í stöðugri endurskoðun og nú erum við áþreifanlega minnt á það þegar sækir í gamla horfið sem við vildum forðast á sínum tíma að það kunni að vera ástæða til að við tökum lögin um kjararáð til endurskoðunar.