135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

kjararáð.

237. mál
[14:36]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt, ég studdi það frumvarp vegna þess að í því fólst ákveðin stöðlun sem gerir það auðveldara að flytja réttindin yfir í hið almenna kerfi hjá almennu lífeyrissjóðunum auk þess sem þingmenn töpuðu á því frumvarpi. Þeir voru flestir verr settir eftir það frumvarp en fyrir nema þeir sem höfðu verið langlengst á þingi. Iðgjaldið var hækkað úr 4% í 5% og réttindin jukust sáralítið. Þar voru vissulega agnúar sem ég var ekki hrifinn af. En menn stóðu frammi fyrir valinu að samþykkja allan pakkann eða ekki og í honum fólst ákveðin stöðlun því að réttindi þingmanna voru mjög flókin þar áður. Það er þess vegna sem ég studdi það.

Við þingmenn eigum að taka á honum stóra okkar og samþykkja lífeyrisréttindi fyrir þingmenn eins og almenningur, fólkið sem kýs okkur, hefur og hafa þá launin rétt en ekki fela þau í einhverjum lífeyrisréttindum eins og opinberir starfsmenn gera.