135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[14:50]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 116, 10. okt. 2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Í þessu áliti er lagt til að veiðigjaldið verði alfarið lagt niður, þ.e. tímabundið í næstu þrjú fiskveiðiár og þær greiðslur sem hafa átt sér stað út af þessu fiskveiðiári verði endurgreiddar.

Eitt meginmarkmiða frumvarpsins er að fella tímabundið niður veiðigjald á aflaheimildir í þorski vegna verulegs niðurskurðar á aflaheimildum á yfirstandandi fiskveiðiári en jafnframt eru ákveðnar líkur á að aflaheimildir í þorski aukist ekki í bráð, með óbreyttum veiðiaðferðum og fleiru. Þessar tillögur og þetta frumvarp er hluti af boðuðum mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar.

Hitt meginmarkmiðið er að fella niður veiðiskyldu á úthafsrækju, en aflabrestur mun hafa háð veiðum á úthafsrækju. Ef ekkert væri að gert hefði aflahlutdeildin verið felld niður að því marki sem ekki tókst að veiða upp í úthlutaðar heimildir. Ég hefði kosið að farið yrði eftir þessari meginreglu, þetta væri þá utan aflaheimildar. En tímans vegna gafst ekki tóm til að útfæra slíkar tillögur. Þær eru flóknar og varða dýpstu rætur fiskveiðistjórnarkerfisins og þetta nefndarálit var unnið á miklum hlaupum í gær, í tímaleysi og bárust seint drög að uppkasti að þessu.

Eins og allir vita er íslenskur sjávarútvegur einn af hornsteinum íslensks atvinnulífs og grundvallarþáttur í að halda uppi atvinnu og búsetu í landinu og einn mikilvægasti þátturinn í öflun gjaldeyristekna fyrir þjóðina. Stjórnvöldum er því skylt að hlúa skilyrðislaust að atvinnugreininni og tryggja henni eins stöðugan og fyrirsjáanlegan rekstrar- og lagaramma og frekast er unnt. Þar vil ég leggja ríkasta áherslu á að útgerðin og fiskvinnslan og atvinnugreinarnar í landinu almennt sitji við sama borð, búi við sama rekstrarumhverfi. Þar er ég ekki síst að tala um skattlagningu.

Ákvarðanir stjórnvalda um að skera niður aflahlutdeild í þorski á yfirstandandi fiskveiðiári um 30% eru eins og allir vita gríðarlegt áfall fyrir greinina og það er ekki enn útséð hvernig brugðist verður við. Þetta áfall dynur á á þessu fiskveiðiári, 2007/2008 en mótvægisaðgerðirnar koma á næstu árum á eftir. Þær duga engan veginn til að bæta upp það tjón eða tap sem verður á yfirstandandi fiskveiðiári, þá sérstaklega í sjávarbyggðum sem reiða sig að langmestu leyti á sjósókn og fiskvinnslu.

Í áliti og tillögum meiri hluta nefndarinnar er lagt til að veiðigjaldið verði fellt niður í þorski og það standi í stað á öðrum tegundum, það taki ekki hækkunum upp í 9,5% árið 2009. Ég er þeirrar skoðunar að þessar tillögur frá meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar séu til bóta en ég tel þær ganga of skammt, að ganga þurfi lengra í þessum mótvægisaðgerðum. 1. minni hluti telur því einu rökréttu leiðina og miklu öflugri mótvægisaðgerð að fella veiðigjaldið alfarið niður í ákveðinn tíma, bíða átekta þrjú næstu fiskveiðiár og taka þá nýja ákvörðun að vel yfirlögðu ráði þegar rannsóknir og veiðireynsla hafa sýnt fram á veiðiþol þorskstofnsins. Ég vík reyndar að því síðar í ræðu minni að við höfum líka lagt fram tillögu um sólarlagsákvæði í fiskveiðistjórnarlögin og þau verði öll tekin upp til heildarendurskoðunar á svipuðum tíma.

Sé ekki vilji til þessa af meiri hlutanum eða Alþingi þá finnst mér klént að þetta veiðigjald skuli renna, ef ég má orða það svo, í hít ríkissjóðs óskipt en því skuli ekki varið til að efla viðkomandi sjávarbyggðir sem verst verða úti og við vitum nákvæmlega hverjar þær eru. Þær eru m.a. í mínu kjördæmi, Suðurkjördæmi á Reykjanesi, Þorlákshöfn, Höfn og svo auðvitað Vestmannaeyjar. Annaðhvort ætti að veita þessa fjármuni beint til að styrkja viðkomandi sjávarbyggðir eða, sem er kannski skynsamlegra, að stórauka með veiðigjaldi hafrannsóknir frá þessum byggðarlögum, þær hafrannsóknir sem eru stundaðar í þessum byggðarlögum. Það eru útibú víða frá Hafrannsóknastofnun og mætti líka veiðigjaldið til að styrkja útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki og sjómenn til að stunda þær rannsóknir og afla okkur þekkingar frá sjómönnunum sjálfum. Því miður er nokkur trúnaðarbrestur í gangi milli Hafrannsóknastofnunar og sjómanna og útgerðar um fiskveiðistjórnina. Ég kem betur að því síðar.

Fjölmargar umsagnir bárust til nefndarinnar og við fengum á fund okkar gesti, m.a. bæjarstjórann í Vestmannaeyjabæ. Hann lýsti því skilmerkilega hvaða áhrif gjaldið hefði á hans byggðarlag, það koma rúmar 100 millj. í veiðigjaldi frá Vestmannaeyjum. Vestmannaeyjar eru langstærsta sjávarbyggðin í greiðslu þessa gjalds og þaðan kemur stærsti hluti þess. Reykjavík er í öðru sæti, svo kemur Akureyri, Grindavík og fleiri bæjarfélög. Það er sammerkt með þeim sem komu fyrir nefndina að gagnrýna veiðigjaldið. Byggðastofnun taldi t.d. í umsögn sinni að þessar breytingar væru nauðsynlegar, hún styddi þær en teldi að grípa þyrfti til fleiri og öflugri aðgerða vegna niðurskurðar og aflabrests í einstökum byggðarlögum. Sjómannasambandið lagðist gegn veiðigjaldinu. Hið sama gildir um samtök fiskvinnslu án útgerðar og þaðan kom ábending um að ekki eingöngu útgerðin yrði fyrir barðinu á þorskaflaskerðingunni heldur kæmi skerðingin einnig hart niður á starfandi fiskvinnslufyrirtækjum. Samtökin bentu enn fremur á að Alþingi ætti að beita sér fyrir því að fiskur yrði unninn á Íslandi í ríkari mæli.

Frá Landssamtökum smábátaeigenda komu svipaðar athugasemdir. Þeir benda á að þær bætur eða mótvægisaðgerðir sem felast í niðurfellingu veiðigjaldsins séu aðeins lítið brot af því aflaverðmæti sem sjávarbyggðir fara á mis við vegna þorskaflaskerðingarinnar. Þeir benda á að vegna skerðingar á veiðiheimildum í þorski skerðist möguleikar til að veiða ýsu en þar er þorskur gjarnan meðafli.

Svipuð sjónarmið koma fram frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna um sérstakt gjald á íslenskan sjávarútveg, ofurgjald sem þeir kalla. Samtök fiskvinnslustöðva skora á stjórnvöld að fella niður veiðigjaldið og sama gildir um umsögn frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Allir þessir aðilar gagnrýna veiðigjaldið, ráðstöfun þess og margt fleira. 1. minni hluti telur að ekki verði litið fram hjá þeirri staðreynd að veiðigjaldið sem auðlindaskattur sé fyrst og síðast skattur á landsbyggðina.

Fyrir öllum sem fara út fyrir Reykjavík er ljóst að landsbyggðin er mun háðari sjávarútvegi en höfuðborgarsvæðið. Það er staðreynd líka að þar eru atvinnutækifæri færri og laun almennt lægri en tíðkast á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélög, m.a. í þessum sjávarbyggðum, standa í ströngu við að halda uppi því þjónustustigi sem íbúar þess eiga rétt á. Þar kemur reyndar að öðru atriði sem eru tekjustofnar sveitarfélaga og fleira sem ég ætla ekki að gera að umtalsefni en þarf svo sannarlega að gera úrbætur gagnvart. Það skýtur því skökku við að skattleggja eina tegund atvinnurekstrar umfram aðra og sérstaklega skýtur það skökku við þegar þessi atvinnurekstur, útvegur og fiskvinnsla, er hornsteinn byggðastefnu í landinu sem stjórnvöldum ber að hlúa að. Ég ítreka að 85% af þessu gjaldi koma af landsbyggðinni, 100 millj. kr. rúmar frá Vestmannaeyjum. Það er hægt að gera marga góða hluti fyrir 100 millj. kr., bæta höfnina og mörg önnur þjónustuatriði til að styrkja sjómenn og fiskvinnslufólk og þar fram götunum.

Ég spurði reyndar hæstv. sjávarútvegsráðherra þegar frumvarpið var lagt fram hvort hann teldi að það að leggja gjald á eina tegund auðlindar væri hugsanlegt brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ég spurði líka hvort það væri mismunun fólgin í því að fella niður gjaldið á eina tegund fiskjar en ekki af öðrum. Ég hef efasemdir um það út frá þeirri meginhugsun sem býr að baki. Þeir fræðimenn sem komu á fund nefndarinnar töldu að þetta fyrirkomulag gæti staðist stjórnarskrána að uppfylltum vissum skilyrðum, þ.e. að frumskilyrðið væri að um tímabundna aðgerð væri að ræða, að brugðist væri við gegn tímabundnum sérstökum aðstæðum og ákveðinn hópur yrði fyrir meiri skakkaföllum en aðrir. Ég er alls ekki sannfærður um að þessi skilyrði séu uppfyllt, að ákveðinn hópur verði fyrir meiri skakkaföllum en aðrir. Ég hygg að niðurfelling á veiðigjaldi aðeins á þorski geti komið mismunandi niður á mismunandi fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækjum.

Ég held því fram að stjórnarskráin og jafnræðisreglan eigi að njóta vafans í þessu sambandi. Þótt veiðigjald sé fellt niður tímabundið á þorskaflamark er allt eins hugsanlegt að önnur útgerð verði illa úti svo ekki sé minnst á landvinnsluna sem einnig verður fyrir verulegum búsifjum vegna aðgerða stjórnvalda. Það er eins víst að samkeppnisstaða útgerðar skekkist með því að einni útgerð sé ívilnað umfram aðrar. Allt þetta heggur að jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sem ég talaði um. Eins og hér stendur þá tel ég bæði skynsamlegt og eðlisrökrétt að fella veiðigjaldið alfarið niður tímabundið í stað þess að mismuna eftir tegundum og mismuna eftir auðlindum.

Ég sé ástæðu til að vekja sérstaka athygli aftur á frumvarpi sem hv. þm. Björn Valur Gíslason og fleiri úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði lögðu fram á haustþingi. Við lögðum til heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu. Við leggjum til sólarlagsákvæði þannig að lögunum verði markaður ákveðinn gildistími, þ.e. til 1. september 2010 og þá taki nýtt kerfi við. Veiðigjaldið er hluti af þessu kerfi og það kæmi til endurskoðunar á þeim tíma. Rökin fyrir heildarendurskoðun og þar með niðurfellingu veiðigjalds blasa við. Við höfum tekist á um fiskveiðistjórnarkerfið í rúma tvo áratugi. Allan þann tíma hafa markmið þessa kerfis verið að vernda fiskstofna og stuðla að hagkvæmri nýtingu fiskstofna. Þau hafa verið að treysta atvinnu og efla byggð í landinu. Það er kristaltært að okkur hefur mistekist að vernda fiskstofnana. Okkur hefur líka mistekist herfilega í að treysta byggð í landinu. Okkur hefur mistekist að treysta atvinnu. Það verður ekki búið við löggjöf sem hefur á rúmum tveimur áratugum beinlínis gengið gegn meginmarkmiðum sínum.

Með hliðsjón af þeim rökstuðningi sem ég hef fært fram telur 1. minni hluti rökréttast að fella veiðigjaldið alfarið niður í þrjú fiskveiðiár og taka að þeim tíma liðnum til við að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið í heild sinni. Tillagan um breytinguna er við 2. gr. Greinin orðist svo, með leyfi forseta:

„Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:

Þrátt fyrir ákvæði V. kafla laganna skal ekki leggja veiðigjald á veiðiheimildir fiskveiðiárin 2007/2008, 2008/2009 og 2009/2010. Fiskistofa skal endurgreiða útgerðum veiðigjald sem innheimt hefur verið á fiskveiðiárinu 2007–2008.“