135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[15:15]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Örstuttar athugasemdir við hv. þm. Grétar Mar Jónsson. Það munar ekki um það þegar hv. þingmaður kemur í ræðustól. Þingmenn vinstri grænna leggja blessun sína yfir mesta rán Íslandssögunnar og þar fram eftir götunum.

Hv. þm. Grétar Mar Jónsson. Þegar svo stórt er sagt, svo miklu haldið fram, þá finnur maður orðum sínum stað. Ég bið hv. þingmann að lesa og gaumgæfa sjávarútvegsstefnu vinstri grænna sem er úthugsuð. Ég bið hv. þingmann líka að lesa tillögur, lagafrumvarp þar sem 1. flutningsmaður var Björn Valur Gíslason og ég er meðflutningsmaður að, fara nákvæmlega yfir það og segja mér svo, hv. þingmaður, hvar finnur þú orðum þínum stað?

Ég get ekki annað að brugðist við sem þingmaður Suðurkjördæmis, þegar á fund sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar mætir áhyggjufullur bæjarstjóri úr Vestmannaeyjabæ og setur fram hugmyndir og tillögur.

Við höfum líka bent á það í þessari greinargerð, eða minnihlutaáliti sem hér fylgir, að þessum fjármunum verði varið til eflingar á hafrannsóknum. Til sjómanna eða fiskvinnslufólks eða til að styrkja félagslega stöðu bæjarfélaganna í sjávarbyggðunum. Það höfum við gert með ítarlegum og skynsamlegum hætti. Það leysir ekki þann vanda sem hér blasir við að berja hausnum við steininn. Ég skora á hv. þingmann að útfæra þær tillögur sem hann er með í þessum efnum.