135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[15:19]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað erfitt að standa í andsvörum þegar ekki er svarað spurningum sem bornar eru upp. Ég hef kannski aðra spurningu fyrir hv. þingmann. Hvernig vill hann leggja fiskveiðistjórnarkerfið af? Hvernig vill hann svara fyrir veiðiheimildir sem hafa gengið kaupum og sölum og þar fram eftir götunum? Hvernig vill hann styrkja sjávarbyggðir í kjördæmi sínu? Hvaða hugmyndir hefur hann í þeim efnum aðrar en að ráðast að þeim sem hér stendur með stóryrðum?

Ég hef mestar áhyggjur í þessu máli af stöðu nytjastofnanna og stöðu sjómanna og fiskverkafólks. Ég get tekið meðvitaða afstöðu til mála burt séð frá því hvaða skoðun ég hef á kerfinu, fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég aflegg það ekki í þessari umræðu. Hins vegar legg ég fram tillögur hér sem ég tel að muni gagnast sem mótvægisaðgerðir.