135. löggjafarþing — 43. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[15:23]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt við þessa umræðu breytingartillögu á stjórn fiskveiða sem varðar sérstaklega álagningu veiðileyfagjalds. Í stuttu máli er það bjargföst skoðun mín að álagning veiðileyfagjalds sé röng og eigi ekki við neitt sambærilegt að styðjast í þjóðfélaginu og eigi þess vegna að fara út úr stjórnkerfinu og skattheimtukerfinu.

Veiðileyfagjald á sjávarútveginn, túlkað sem auðlindagjald, er gróft brot á jafnræðisreglu á innheimtu skatta í landinu, einstæð og einhliða skattheimta á fyrirtæki í sjávarútvegi umfram önnur fyrirtæki landsins, virðulegi forseti. Veiðileyfagjaldið er sérstök skattheimta á landsbyggðina. Landsbyggðin greiðir 85% af veiðileyfagjaldinu á móti 15% hlutfalli sem höfuðborgarsvæðið greiðir. Á landsbyggðinni búa 35% íbúa landsins og það eru þeir sem borga þau 85% sem liggja í veiðileyfagjaldi.

Þegar veiðileyfagjaldið, auðlindaskatturinn var settur á voru ríkjandi hugmyndir um sambærilega skattheimtu af öðrum auðlindum landsins. En ekkert hefur verið gert í þeim efnum og engin áform um það svo vitað sé.

Það voru ýmsir sem holuðu steininn til að koma þessu kerfi á. Einna harðast gekk Morgunblaðið fram um langt árabil. Og því miður í þeirri baráttu lagði Morgunblaðið ávallt upp með það troll að hafa enga hugmynd um hvernig ætti að útfæra þetta, bara að heimta gjald. Aldrei rök fyrir því af hverju það ætti að vera eða hvernig það ætti að vera. Af hverju það ætti að vera á útveginum umfram aðra.

Það er svolítið erfitt fyrir mig, gamlan Morgunblaðsmann, sem hefur hjartalag Morgunblaðsmanns og það situr maður uppi með hvort sem manni líkar betur eða verr, að gagnrýna mitt gamla blað. Þessi aðferð Morgunblaðsins flokkast ekki undir annað en það sem mætti kalla kommúnisma Morgunblaðsins. Slík er aðförin að landsbyggðinni og sjávarútveginum. Hún er ráðstjórn sem á ekki við nein rök að styðjast. Það er ætlað samkvæmt núgildandi lögum að auðlindaskattur sjávarútvegsins verði liðlega 1 milljarður króna á árinu 2008, þó að nú sé verið að kynna hér af hv. formanni sjávarútvegsnefndar, breytingu í þeim efnum. (Gripið fram í.) Já, það má fagna því en með blendnum rómi þó en allt er gott sem er í rétta átt.

Ef samsvarandi auðlindaskattur væri á önnur fyrirtæki landsins, á önnur auðlindafyrirtæki landsins, þá ætti t.d. Orkuveita Reykjavíkur að greiða 810 millj. kr. á ári. (Gripið fram í.) Það getur hver og einn, hv. þingmaður, lagt fram frumvarp um slíkt. En þeir sem malda ekki einu sinni í móinn við þessum yfirgangi ættu nú ekki að vera að státa af því að hrópa á aðra til hjálpar. Landsvirkjun ætti samkvæmt sömu reglum og viðmiðunargjaldið er sótt til sjávarútvegsins að greiða á ári 1.417 millj. kr. (KHG: Það er allt of lítið.) Það er rétt eins og kemur fram hjá hv. þingmanni, Kristni H. Gunnarssyni, að það er allt of lítið.

En það er auðvitað grundvallaratriði þegar menn ræða um slíka skattheimtu að það sé samræmi í henni og það sé jafnvægi við aðrar greinar í landinu sem eru að vinna úr auðlindum þjóðarinnar. En sýndarmennskan er slík að það er enginn að velta því fyrir sér þar sem er lagt á ráðin í valdabúskap þjóðarinnar, að fylgja þessu eftir.

Veiðileyfagjaldið mismunar byggðum landsins. Atvinnusvæði landsins og atvinnugreinar eiga í samkeppni um mannauð og fjármagn. Gífurlegri samkeppni um mannauð og fjármagn. Þar sem peningarnir velta hraðast og mest þar eru bestu menn til verka keyptir umsvifalaust hvaða verði sem það kostar. Það á sér ekki stað úti á landsbyggðinni.

Á það ekki að vera hlutverk hv. alþingismanna að tryggja að það sé jafnræði í þessum efnum og að menn sitji við sama borð eins langt og það nær að minnsta kosti, þó að aldrei sé hægt að hnýta upp alla enda í þeim efnum?

Miðað við auðlindaskatt á árunum 1991–2007, miðað við þær reglur sem liggja fyrir, þótt nú sé verið að koma fram með tillögur um að breyta þeim til skamms tíma, þá hefði Suðurkjördæmi greitt um 7 milljarða kr. í veiðileyfagjald. 7 milljarða kr. á þessu árabili úr einu kjördæmi, að vísu því sem greiðir hæst hlutfall af veiðileyfagjaldi, eða um 30%. Þetta eru einfaldar tölur og einfalt dæmi og auðskilið. En það er ástæða til þess að taka því alvarlegra en menn gera og hafa gert lengi.

(Forseti (EMS): Forseti vill spyrja hv. þingmann hvort mikið sé eftir af ræðu hans því það var ætlunin að gera fundarhlé frá hálffjögur til fjögur og spurning um hvort hv. þingmaður vill ljúka á skömmum tíma eða gera hlé á ræðu sinni.)

Ég á tvo tíma eftir.

(Forseti (EMS): Fundinum er frestað til klukkan fjögur.)