135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[16:41]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Grétar Mar Jónsson) (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Í umræðum um þessi mál tölum við gjarnan um mismunun. Ég segi það hiklaust að þegar settur var á kvóti og kvótakerfi á Íslandi var það mesta mismunun sem gerð hefur verið. Það var alvörumismunun. Þá var fáum afhentur kvótinn en aðrir máttu éta það sem úti frýs. Það er stóri mismunurinn. Það er ekki sanngjarnt að bera það saman að Orkuveita Reykjavíkur, sem var byggð upp af Reykvíkingum, og Landsvirkjun, sem var byggð upp af landslýð öllum, eigi að greiða sama auðlindagjald og þeir fáu útvöldu sem fá að hafa aðalauðlind þjóðarinnar, kvótann, fiskinn í sjónum. Það er ekki hægt að leggja það að jöfnu. Það er ekki sanngjarnt og ekki réttlætanlegt að bera þetta saman, það er eins og að bera saman appelsínur og epli.

Veiðileyfagjald er afkomutengt, það á hv. þm. Árni Johnsen að gera sér ljóst. Það er verið að lækka það í frumvarpinu úr 2,45 niður í 1,45 og það er verið að gera ýmsar breytingar og fella það alveg út á þorski og rækju. Engin atvinnugrein nokkurs staðar í heiminum hafi verið ríkisstyrkt jafnmikið og íslenskur sjávarútvegur með því að leyfa mönnum að veðsetja, selja og leigja sameign þjóðarinnar, kvótann í sjónum.