135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[16:43]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er athyglisvert mál á ferðinni sem lætur minna yfir sér en efni standa til og stækkar svo í meðförum þingsins. Í raun má segja að breytingarnar á málinu, ekki hvað síst þær ræður sem hér hafa verið fluttar gegn veiðigjaldinu, gefi tilefni til að fara yfir sögu þessara mála frá 2001 þegar samið var um veiðigjaldið við útvegsmenn, rifja upp hvernig þeir samningar voru, á hvaða forsendum þeir voru reistir, hverjar aðstæður voru og hvað menn hafa staðið við af því sem þeir undirgengust á þeim tíma. Ég held að sá málflutningur sem hér hefur verið uppi gefi tilefni til þess. Mér finnst býsna langt gengið í málflutningi og tillögum af hálfu stjórnarmeirihlutans og eiginlega ekki hægt að sitja undir því án þess að fara yfir sögu málsins.

Hér kemur fram að lækka þurfi veiðigjaldið vegna skertra heimilda á þessu fiskveiðiári til þorskveiða. Það má út af fyrir sig skoða það mál. En þá þurfum við líka að skoða alla þá þætti sem tengjast því máli. Í fyrsta lagi þurfum við að fá upplýsingar um hvort niðurskurðurinn verður langvarandi. Hér er sagt eitt fiskveiðiár og í tillögunum er miðað við tvö fiskveiðiár og ætla má að bak við þá yfirlýsingu felist óbein yfirlýsing sjávarútvegsráðherra um að þorskveiðarnar verið bundnar við 130 þús. tonn annað fiskveiðiár.

Ég vil efast um að þetta sé rétt, virðulegi forseti. Ég tel mig hafa upplýsingar um að ákvörðun sem tekin var af formönnum stjórnarflokkanna en ekki sjávarútvegsráðherra hafi verið langvarandi niðurskurður í þorskveiðum, sex ára niðurskurður, þar sem miðað verði við 130 þús. tonn í a.m.k. þrjú ár og síðan hægfara aukningu í þrjú til fjögur ár þar til komið verði aftur í 190 þúsund tonn. Þetta eru þær upplýsingar sem ég hef um stefnuna sem ríkisstjórnin hefur markað í þessu efni. Það er nauðsynlegt að hún komi fram, að sjávarútvegsráðherra lýsi stefnu sinni þannig að þingheimur viti á hvaða forsendum er unnið. Það er algerlega óþolandi að ræða þessi mál þannig að ekki sé upplýst hvað ríkisstjórnin ætlar sér að gera nema næstu tvö ár.

Mun það t.d. gerast, virðulegi forseti, þegar kemur fram á næsta fiskveiðiár, á seinna fiskveiðiárið sem hér er lagt til að fella niður veiðigjald af þorski, að sjávarútvegsráðherra muni koma og segja: Nú er svo í pottinn búið að við verðum að búa við langvarandi niðurskurð og vegna þess að hann er langvarandi verður að fella niður veiðigjaldið, ekki bara í tvö ár heldur alveg. Ég held, virðulegi forseti, að þetta geti verið áætlunin sem stjórnarliðið vinnur eftir, að markmiðið sé að fella niður veiðigjaldið af þorski fyrir fullt og fast. En þá eiga menn að segja það, upplýsa í þessari umræðu hvort það komi fram á næsta þingvetri eða gefa yfirlýsingu um að það sé ekki ætlunin ella. Ef þetta gengi eftir er verið að blekkja menn til að veita tímabundna niðurfellingu sem breytist síðan í varanlega þegar menn hafa fallist á að fella niður gjaldið um tíma. Þetta er alkunn leið í stjórnmálum og gamlir menn sem sitja hér á þingpöllum og hafa setið sumir lengi þekkja hana. Mér þætti dálítið merkilegt ef Samfylkingin léti teyma sig yfir skurðinn með þessari aðferð, flokkur sem hefur árum saman barist fyrir því að afraksturinn af verðmæti veiðiheimildanna skiptist milli þeirra sem eiga þær og þeirra sem nota þær, hafa fallist á að afraksturinn skiptist þannig að þeir sem nota þær og selja fái allt en eigendurnir ekkert. En það er reyndin. Það má ætla að það sé reyndin miðað við uppgjöf Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum.

Eftir að formaður Samfylkingarinnar gekk á fund LÍÚ á aðalfundi fyrir rúmu ári var ljóst að Samfylkingin hafði gefist upp í sjávarútvegsmálunum og ákveðið til að auka líkurnar á að komast í ríkisstjórn með því að í sjávarútvegsmálum mundi flokkurinn fylgja línu LÍÚ. Mér virðist þetta blasa við, virðulegi forseti. Þess vegna hef ég nokkrar áhyggjur af framvindu mála og tel rökstuddar grunsemdir fyrir því að þetta sé aðeins fyrra skrefið af tveimur sem endi með því að fella alveg niður veiðigjald í þorski. Ég kalla eftir því að stjórnarliðar upplýsi um þessi áform sín og segi það hreint út í þessari umræðu. Er þetta svo?

Rökstuðningurinn fyrir niðurskurði í þorski er byggður á því að samsetning hrygningarstofnsins sé þannig að ungir árgangar séu um 90% stofnsins og breyta þurfi hrygningarstofninum þannig að hann samanstandi af eldri fiski. Það er út af fyrir sig skynsamleg tillaga, a.m.k. hljómar hún þannig í eyrum leikmanns, sem ég er í þessum fræðum. En þá geri ég mér grein fyrir því, ég vænti þess að aðrir þingmenn séu sammála mér um það, að taka mun mörg ár að breyta samsetningu hrygningarstofnsins úr því sem hann er í dag yfir í það sem að er stefnt. Það tekur ekki minna en sex til tíu ár og þarf að vera mjög mikil takmörkun á þorskveiðum allan þann tíma Ég held að það liggi í augum uppi að það er ekki hægt að breyta aldurssamsetningu hrygningarstofnsins í þá veru sem að er stefnt með öðrum hætti en miklum niðurskurði í þorskveiðum í mörg ár.

Ég tel grunsemdirnar um að þetta sé aðeins fyrra skrefið og markmiðið sé að fella veiðigjaldið niður eiga við rök að styðjast. Það er því eðlilegt að spyrja: Er þetta það sem að er stefnt? Verður þetta lagt til á næsta fiskveiðiári eða á næsta löggjafarþingi? Ég held að það sem ég lýsti sé í bígerð og þá eiga menn að ræða málin út frá réttum forsendum og upplýsa málið þannig að menn séu ekki blekktir í þessari umræðu.

Ég sakna þess að í áliti meiri hluta er ekki gerð nein tilraun til að meta áhrifin af skerðingu þorskveiða á yfirstandandi fiskveiðiári. Á móti minna magni sem hver útgerðarmaður fær að veiða, sem auðvitað er tap á tekjum, það sjá allir, þá hækkar fiskverð. Það hefur hækkað síðan skerðingin var ákveðin og hækkunin minnkar tekjuskerðinguna.

Í öðru lagi hefur verð á erlendum mörkuðum hækkað. Skerðingin eða tekjutapið er því greinilega minna en menn héldu að það yrði. Ég hitti vinnslumann um daginn sem var reyndar svo bjartsýnn að hann hélt því fram að verðið á erlendum mörkuðum mundi hækka svo mikið, það hefði þegar hækkað töluvert, að það yrði ekkert tekjutap þegar upp væri staðið. Ég skal ekki halda því fram en þessi vinnslumaður var þessarar skoðunar. Hann hlýtur að hafa eitthvað fyrir sér í þeim efnum.

Mér finnst að þegar menn ræða á Alþingi um að lækka gjald á útgerðina um rúman hálfan milljarð króna þá þurfi þeir að leggja mat á hvaða skaða útgerðin verður fyrir vegna ákvörðunar um minni veiði. Það er engin tilraun gerð til að meta það. Ég hef efasemdir um að tekjutapið sé svo mikið sem ætla mætti miðað við samdráttinn.

Eins liggur fyrir að verðmæti veiðiheimildanna sjálfra hefur hækkað gríðarlega. Það hefur hækkað vegna skerðingarinnar þannig að verðmæti aflaheimildanna hefur ekki dregist saman í þorskveiðum. Það verður því ekki séð að útvegsmenn hafi orðið fyrir eignaskerðingu á veiðiheimildum vegna niðurskurðarins. Kvótinn er minni en verðmæti hverrar einingar er meira. Þá spyr ég: Er rétt að bæta mönnum skaða sem ekki hefur orðið?

Það er ljóst að svo miklum niðurskurði mun fylgja samþjöppun veiðiheimilda. Það er augljóst. Ég held því fram að það sé eitt af markmiðunum með niðurskurðinum, að stuðla að fækkun útgerða, stuðla að því að þorskurinn verði framvegis, ekki bara á þessu fiskveiðiári og því næsta heldur framvegis, veiddur á miklu færri skipum og veiðiheimildirnar á höndum færri aðila sem eigi hver um sig mjög mikið. Útgerðin er að breytast, á því skulu menn átta sig. Vegið er að hlutaskiptakerfinu í sjávarútvegi, að lækka launakostnaðinn. Hin góðu laun sem hafa tíðkast lengi á sjó eru á undanhaldi og vaxandi tilhneiging til að semja um kaup og kjör við sjómenn á öðrum forsendum en gilt hafa. Við sjáum það m.a. endurspeglast í því að vaxandi fjöldi erlendra sjómanna er farinn að starfa um borð í bátum, m.a. á línuskipum sem hafa hingað til verið álitin góður kostur fyrir duglega sjómenn. Menn hafa getað aflað sér mikilla tekna. En þau eru orðið þannig mönnuð að einungis útlendingar eru á dekki en Íslendingarnir yfirmenn. Menn hljóta að spyrja: Á hvaða kjörum eru þessir menn fyrst Íslendingarnir vilja ekki lengur vinna um borð í þessum skipum á þeim kjörum sem eru í boði?

Það er verið að breyta útgerðinni á Íslandi, færa hana í stærri fyrirtæki og Samherjafyrirtækin eru að yfirtaka alla útgerð. Það er verið að breyta hlutföllunum á skiptingu tekna milli launa annars vegar og fjármagns hins vegar. Minna fer í að borga laun og meira í að borga fyrir kvótann, þeim sem eiga kvótann. Það er breytingin, virðulegi forseti, á þessum árum. Með því að lækka þetta litla veiðigjald sem þó er á að hjálpa til með þessa samþjöppun veiðiheimilda, fækkun útgerða og fækkun starfa á sjó. Það er vegið að sjávarplássum landsins með því að greiða fyrir og stuðla að mikilli samþjöppun á komandi mánuðum, sem er þegar byrjuð. Hv. þingmenn geta kynnt sér þetta með því að skoða hvernig breytingarnar ganga yfir þessa mánuðina. Hver útgerðarmaðurinn á fætur öðrum gefst upp og selur vegna þess að það sem má veiða er of lítið en verðið sem hann fær er svo hátt, hefur aldrei meira. Þá selja menn. Þeir sem kaupa þurfa ekki að borga allan skattinn til ríkisins. Það á að lækka hann og hjálpa kaupendunum að kaupa út litlu útgerðarmennina svo hægt sé að hagræða frekar í íslenskum sjávarútvegi. Að því er unnið, virðulegi forseti.

Ég vil minna á að árið 2001 var gert samkomulag milli stjórnvalda og útvegsmanna. Á árunum á undan hafði farið fram mikil umræða um að breyta kvótakerfinu þannig að veiðiheimildirnar yrðu ekki lengur í höndum þeirra sem þá hefðu þær með þeim hætti sem þá var. Menn vildu breyta skilgreiningunni, tímasetja úthlutunina og að menn greiddu fyrir afnotaréttinn alveg eins og við erum að hugsa um varðandi orkulindirnar. Það var kallað fyrningarleið, að breyta um kerfi, að breyta um handhöfn veiðiheimildanna og skilgreina hana í tíma og magni. Útvegsmenn börðust hart gegn því og niðurstaðan varð samkomulag um að engin breyting skyldi verða á kvótakerfinu en í staðinn greiddu útvegsmenn veiðigjald, borguðu gjald fyrir óbreytt kerfi. Það samkomulag var staðfest með lagasetningu á Alþingi árið 2001.

Mér finnst forsvarsmenn LÍÚ hafa illa staðið við það samkomulag. Þeir hafa leynt og ljóst talað gegn því samkomulagi sem þeir áttu aðild að og ganga harðar fram í því með hverju árinu sem líður að rjúfa það. Ef menn vilja ekki að greitt verði veiðigjald fyrir að nýta fiskveiðiauðlindir landsmanna þá er fallið niður samkomulag um óbreytt kvótakerfi. Á því skulu menn átta sig. Það er ekki hægt að gera samkomulag og vinna svo leynt og ljóst að því að svíkja það en það sýnist mér að gert hafi verið. Þetta samkomulag hefur reynst útgerðarmönnum happadrjúgt. Þegar samkomulagið var gert var verð veiðiheimilda í þorski á bilinu 700–1.000 kr. fyrir hvert kíló. Í dag er það liðlega fjórum sinnum hærra, 4.000 kr. á kíló í þorski er verðið í dag. Leiguverð á þorskkvóta var þá um 100 kr. en er í dag um 230 kr. Verðmæti þorskveiðiheimildanna er á milli 500 og 600 milljarða kr., ríflega fjórum sinnum meira en árið 2001. Hver á þessa peninga? Ekki þeir sem eiga veiðiheimildirnar. Þessi verðmæti hafa útvegsmenn tekið út úr fyrirtækjum sínum og skilja eftir skuldir á þeim. Skuldir sjávarútvegsins eru yfir 300 milljarða kr. Svo kveina menn yfir því að borga 2,42 kr. fyrir afnot af veiðiheimildunum. Það á að lækka niður í 1,45 kr. og þeir kalla það landsbyggðarskatt.

Virðulegi forseti. Vegna þess sem fram kom hjá hv. þm. Árna Johnsen vil ég benda á að kvótakerfið sjálft er stærsti landsbyggðarskattur sem settur hefur verið á. Landsbyggðin borgar alla þessa hundruð milljarða kr. sem menn taka út úr fyrirtækjunum, geyma á bankareikningum innan lands og erlendis, en skilja skuldirnar eftir á fyrirtækjunum. Það er skattheimtan, það er landsbyggðarskatturinn. Það er ekki veiðigjaldið sem á að vera 1,45 kr., heldur salan á aflahlutdeildinni fyrir 3.900 kr. eða 4.200 kr. Það er landsbyggðarskatturinn. Fyrirtæki á landsbyggðinni sem hefur orðið að byggja sig upp með því að kaupa veiðiheimildir á 4.000 kr. fyrir kílóið í þorski verður að leita allra leiða, fækka störfum og lækka launin, til að halda velli. Það hafa þau fyrirtæki gert það með þeim afleiðingum a meðaltekjur í sjávarplássunum, sem áður voru þau hæstu á landinu, hafa hríðfallið og eru um 20% fyrir neðan það sem gerist á höfuðborgarsvæðinu og munu halda áfram að lækka. Það er verið að breyta sjávarplássum landsins í verbúðir þar sem búa útlendingar og Íslendingar, illa launaðir í samanburði við fólk á höfuðborgarsvæðinu. Það er landsbyggðarskatturinn, virðulegi forseti. Ég vildi óska þess að hv. þm. Árni Johnsen kæmi auga á þá staðreynd.

Eitt hefur komið fram í þessari umræðu sem er út af fyrir sig ástæða til að fagna. Vinstri grænir hafa fellt grímuna. Þeir hafa fellt grímuna í nefndaráliti sínu. Þeir finna það eitt að stefnu ríkisstjórnarinnar að hún gangi ekki nógu langt í þjónustu við LÍÚ. Þeir vilja ganga alla leið. Það er stefna Vinstri grænna. Þeir eru uppi í fanginu á LÍÚ. Þeir hafa árum saman sagt að þeir vilji breyta kvótakerfinu, gera þetta og gera hitt. En það er ekkert að marka þá, ekkert að marka stefnu Vinstri grænna í sjávarútvegsmálum þegar kemur til kastanna, eins og á þessari stundu, þegar menn þurfa að taka afstöðu til beinharðra tillagna. Þá kemur þetta álit skýrt fram. Þeirra stefna er: Við viljum það sem Samherji vill. Stefna Vinstri grænna er stefna Samherja. Það eina sem þeir hafa fram að færa er samkeppni við Samfylkinguna um að sitja í fanginu á LÍÚ. Það er stefna þessara tveggja flokka í hnotskurn. Þeir hafa ekkert annað fram að færa. Það má segja að það sé fagnaðarefni að Vinstri grænir hafi fellt þá grímu sem þeir hafa sett upp gagnvart kjósendum á undanförnum árum, t.d. í alþingiskosningum fyrr á þessu ári, virðulegi forseti.