135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[17:05]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt annað en að svara málflutningi hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar. Hann hefur fært þessa umræðu út fyrir það sem ég fjallaði um í minni ræðu sem var veiðileyfagjald, út í kvótakerfið. Það er ekki það sem ég ætla að fjalla um og tek ekki þátt í að þessu sinni með tilliti til þess að menn vilja stytta umræður í þinginu sem er vel skiljanlegt.

Hins vegar þýðir ekkert fyrir hv. þm. Kristin H. Gunnarsson að búa til einhvern nýjan farveg í því sem menn kalla landsbyggðarskatt. Bara það að á sex ára tímabili hefur skattur af veiðileyfagjaldi í Suðurkjördæminu numið 7 milljörðum kr. segir alla söguna. Bara það að byggðarlag eins og Vestmannaeyjar sem greiðir yfir 110 millj. kr. á ári í veiðileyfagjald segir alla söguna. Þess vegna vísa ég því á bug þegar sagt var að það væri ekki skattur á landsbyggðina. Um hitt málið fjalla ég ekki að þessu sinni því að það er í rauninni ekki á dagskrá.