135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[17:09]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf):

Herra forseti. Hér hefur verið rætt mikið um sjávarútvegskerfið á Íslandi sem ég er mikill áhugamaður um að verði breytt og gerðar miklar breytingar á. Ég hef margsagt það. Ég sagði það fyrir kosningar og ég er á sömu skoðun enn í dag. (GMJ: En þú gerir ekkert.) Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn gerðu samkomulag sín á milli í stefnuyfirlýsingu sinni um samstarf um ríkisstjórn, og m.a. segir í því plaggi:

„Tryggja skal stöðugleika í sjávarútvegi. Gerð verður sérstök athugun á reynslunni af aflamarkskerfinu við stjórn fiskveiða og áhrifum þess á þróun byggða.“

Ég tek fram, hæstv. forseti, að mér finnst ekki kveðið nógu fast að orði hér. Það má fara í mikla vinnu við að endurskoða öll þessi mál. Í sjálfu sér er það þó ekki hér til umræðu og vegna aðstæðna í þinginu og samkomulags sem hefur verið gert um ræðutíma o.s.frv. ætla ég ekki að halda langa ræðu um mál sem ég gæti talað endalaust um, ósanngjarnt framsal, leigukvóta, ég gæti talað um að allur fiskur eigi að fara á markað o.s.frv. Þó að þetta samkomulag hafi verið gert á milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um ríkisstjórnina hefur samstarfið beinst miklu meira að velferðarkerfinu, því sem hefur snúið að öryrkjum, öldruðum, börnum — og byggðamálum meira almennt en kannski einstökum þáttum, vegamálum, fjarskiptamálum og mörgu öðru. Ég ætla ekki að tala meira um þetta en hins vegar vona ég að sú nefnd sem ég býst við að verði sett á laggirnar í ljósi þess samkomulags sem stendur í stefnuyfirlýsingunni fari að líta dagsins ljós.

Í umræðu nefndarinnar um að fella niður veiðileyfagjald af þorski kom sú hugmynd upp — og ég held að ég megi alveg segja að hún sé ekki síst runnin úr mínum huga — að við mundum lækka veiðileyfagjald á bolfiski frekar en öllum fisktegundum. Nú er bætt um betur og veiðileyfagjald á öllum tegundum lækkað um ákveðna prósentu. Ég er þeirrar skoðunar að það hefði átt að nægja að láta þessa lækkun koma á bolfiskinn því að útgerðin með hann verður fyrir allra mestri skerðingunni, þ.e. þeir sem veiða þorsk eru líka að veiða ýsu og svo koll af kolli. Þetta er útgerðin sem verður fyrir mestum áföllum. Þess vegna hafði ég þá hugmynd að við mundum koma meira til móts við þá útgerð. Það er hún sem verður fyrir mestum áföllum vegna niðurskurðarins í þorski. Ég gleðst yfir því að þorskverð hækkar og vona að það haldist sem hæst en við getum ekki reiknað með að það haldist svona hátt út allan tímann. Þess vegna er þetta gert. Hitt var niðurstaða sem ég felli mig við. Hún kemur til stuðnings. Það er ekki þannig að þær útgerðir sem hafa þorskveiðiheimildir leigi þær allar frá sér. Það er bara lítið brot af fiskveiðiheimildunum sem leigðar eru til annarra útgerða.