135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[17:13]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Grétar Mar Jónsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er dálítið skondið að þegar við upplifum það eins og skeði í sumar að heilu bæjarfélögin, sveitarfélögin, sjávarþorpin misstu allar sínar veiðiheimildir á einu bretti og hörmungar riðu yfir fólkið sem hafði stundað fiskvinnslu og sjósókn þarf að skipa nefnd til að skoða málið. Það er ótrúlegt. Að menn skuli geta leikið sér að því að tefja málin og forðast að taka á þeim eins og þarf að gera með svona aðgerðum — að skipa nefnd. Eins og segir í stjórnarsáttmálanum stóð til að skipa nefnd en það er ekki enn þá búið að því. Það eru liðnir 6–7 mánuðir frá því að skipa átti þessa nefnd, og ekki nóg með það, hún á sjálfsagt ekki að skila neinni niðurstöðu fyrr en eftir tvö ár eða eitthvað þess háttar og á meðan brennur Róm.

Það er ótrúlegt hvað stjórnarflokkarnir bjóða fólki á landsbyggðinni sem verður fyrir þeim hörmungum sem kvótaniðurskurður er. Þetta kvótakerfi, enn og aftur segi ég það, hefur leitt hörmungarnar yfir fólkið. Það er fiskveiðistjórnarkerfinu að kenna hvernig staðan er á landsbyggðinni og hjá því fólki sem á allt sitt undir fiskveiðum og á heima á þessum stöðum af því að þeir voru byggðir upp í kringum fiskveiðar og fiskvinnslu. Það er búið að kippa öllum grunni undan því að þetta fólk geti haft sæmilega lífsafkomu heima hjá sér, heima í sínum sveitarfélögum sem það er fætt og uppalið í, heima í sjávarbyggðunum.