135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[17:19]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að sjávarútvegurinn skiptir gríðarlega miklu máli úti á landsbyggðinni, en það er bara svo margt annað sem kemur til. Samfélagið hefur breyst mjög mikið og þó að byggðir hafi haft alveg ótakmarkaðan kvóta og hafi mátt veiða alveg eins og menn mögulega gátu áður en kvótakerfið kom á hallaði samt undan fæti hjá ýmsum byggðarlögum sem jafnvel lögðust af. Þetta sjáum við ef við skoðum sögu síðustu aldar hér á landi miðað við útgerð þar sem var gott útræði og annað, það eru margir aðrir þættir.

Eftir að sú ríkisstjórn sem nú er komst til valda hefur mjög mikið og gott verið lagt til málanna varðandi byggðamál sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir líf byggðanna, bæði hvað varðar samgöngur, menntamál og ýmislegt annað sem er algjörlega nauðsynlegt að hafa á stöðunum svo að fólk vilji vera þar.

Ég ætlaði ekkert að segja meira en fyrst hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er kominn í salinn langar mig bara að ítreka að lokum að það er alls ekki á dagskrá hjá Samfylkingunni að afleggja veiðileyfagjaldið, alls ekki. Hér er komið til móts við útgerð sem hefur orðið fyrir miklum niðurskurði og þess vegna er þetta gert, ekki af neinum öðrum ástæðum. Það er ekki markmiðið að afnema veiðigjaldið.