135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[18:13]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Grétar Mar Jónsson) (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég spyr vinstri græna, sem allt í einu eru farnir að tala um sjávarútvegsmál: Hvað vilja þeir í þessum málum? Vilja þeir taka aflamarkskerfið af? Ég hef aldrei heyrt það. Ég hef ekki heldur heyrt að þeir vilji fara í sóknarmark eða taka upp færeyska dagakerfið. Þeir hafa jú talað um byggðakvóta, kvóta tengdan byggðunum. Það er það eina sem hægt er að merkja á málflutningi þeirra.

Ég ætla að minna á að fyrir nokkrum dögum var samþykkt frumvarp um opnun og lokun á veiðisvæðum. Það var samþykkt þannig að það átti að fara að loka kóralsvæði fyrir suðurströndinni. En það mátti líka opna svæði og það er búið að opna veiðisvæði fyrir vestan og norðan og austan og reyndar með allri suðurströndinni líka, reyndar ekki fyrir troll á suðurströndinni en fyrir togskip og þau græða væntanlega hafið, hv. þm. Jón Bjarnason, þegar þau fara inn á grunnslóðina upp á sex mílur eða hvað sem þau mega fara grunnt, stóru togararnir á grunnsævi með 5 tonna hlera aftan í sér, tvo slíka. Það er örugglega til að græða hafið eða hitt þó heldur.

Fulltrúi ykkar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, Atli Gíslason, samþykkti þetta. Það var verið að fara inn í landhelgislögin með frumvarpinu til þess að geta hleypt skipum og nú er verið að leyfa togveiðar í Ísafjarðardjúpi á bát sem er að fiska þar í troll í áframeldi og ekki nóg með það hann fiskar 50 tonn af ýsu en 12 tonn var hann búinn að fiska um daginn af þorski í áframeldi. (Gripið fram í.)