135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[18:17]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Grétar Mar Jónsson) (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Við erum að ræða um veiðileyfagjald — um hvaða tölur tölum við þegar við erum að ræða veiðileyfagjald sem á að fara að fella niður?

Ég er hér með samantekt, veiðigjald fyrir veiðiheimildir, greiðslugrunnur árið 2003 er 300 millj., greiðslugrunnur 2004 300 millj., 2005 700 millj., 2006 837 millj. og 2007 430 millj. Skiptir svona miklu máli að ná þessu af? Þegar hv. þm. Árni Johnsen sagði að 7 milljarðar væru fluttir úr Suðurkjördæmi og það væri miklu meira en íslenskir útgerðarmenn hefðu nokkurn tímann borgað í veiðileyfagjald fór hann með rangar tölur. Ég hef þessar tölur hér á blaði beint úr upplýsingadeild Alþingis.

Við erum á villigötum í þeirri umræðu að fella niður veiðileyfagjald í staðinn fyrir að láta það renna til fólksins sem þarf á því að halda, sjómannanna sem missa vinnuna og fiskvinnslufólksins sem missir vinnuna. Þá ganga þeir lengra í Vinstri grænum og vilja leggja þetta veiðileyfagjald alveg af. Þið viljið þjónka útgerðarmönnunum og LÍÚ-klíkunni betur og meir en meira að segja núverandi stjórnarflokkar.