135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[18:19]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við hv. þm. Grétar Mar Jónsson séum einmitt sammála um að þetta fjármagn, hvort sem það er tekið eða liggur í greininni sjálfri, eigi að renna til byggðanna, eigi að vera þar og einmitt að koma íbúunum í viðkomandi byggðum til góða. Eins og ég sagði hér í ræðu minni áðan er veiðigjaldið innbyggt í fiskveiðistjórnarkerfi sem við erum ekki sammála. Innan þess kerfis sem er verður samt að horfa á vissan raunveruleika hvað það varðar.

Þess vegna höfum við flutt tillögu um sólarlagsákvæði í núgildandi lög um stjórn fiskveiða og að þau verði endurskoðuð í heild sinni. Við viljum að allir aðilar komi þar að, allir þingflokkar og allir hagsmunaaðilar, og nái sátt um þetta stóra mál innan tilskilins tíma. Það er öllum ljóst að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi hefur fullkomlega brugðist í öllum þeim þáttum sem það var sett upp til að ná, í öllum þeim markmiðum sem því var ætlað að ná hefur það brugðist. Þess vegna verðum við að taka á þessu máli en með ábyrgum hætti.