135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[18:32]
Hlusta

Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég harma mjög þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í þessu máli alveg frá því að hugmyndin kom upp að ég vil segja í höfðum örfárra einstaklinga innan þingsins eða í ríkisstjórn, hjá framkvæmdarvaldinu, til dagsins í dag. Ég vil líka halda því til haga að ég fullyrði að hægt hefði verið að ná viðunandi samkomulagi, og í það fór ég með opnum hug í allsherjarnefnd, ef menn hefðu haft vilja til þess og ef menn hefðu gefið sér tíma til þess.

Ég tel vinnubrögðin algerlega óviðunandi og ég verð að segja eins og er að ég hef ekki átt þeim að venjast í starfi mínu á vinnumarkaðnum til þessa. Ég hef hvergi séð svona vinnubrögð áður, að fá ekki einu sinni að vita við meðferð málsins í allsherjarnefnd hvað standi til næst. Hvenær á að taka málið út? Verður það afgreitt fyrir jól? Nei, aldrei nein svör. Verða gestir kallaðir fyrir nefndina? Verður kallað eftir umsögnum? Engin svör við því.

Ég stakk upp á að kalla fyrir fyrrverandi forseta þingsins og reyna að dreypa á þeim reynslubrunni. Það var tekið vel í það. Síðan var því hafnað. Ég óskaði eftir því að starfsmenn þingsins kæmu fyrir nefndina en þeir höfðu óumbeðnir sent umsögn til allsherjarnefndar. Því var hafnað að ræða starfsskilyrði þingsins við fulltrúa starfsmanna. Ég óskaði eftir að ég fengi í hendur samanburð á dönskum þingskapareglum og íslenskum miðað við frumvarpið samþykkt. Það hefur ekki komið fram. Ég óskaði eftir gögnum frá vinnu undir forustu Ólafs G. Einarssonar, ef ég man rétt. (Gripið fram í.) Hv. þm. Birgir Ármannsson, það hefur þá farið á mis við mig á þessum hraða.

Það átti hvorki að ræða við kóng né prest. Það átti ekki að ræða við stjórnarandstöðuna. Það var ekki leitað samkomulags af heilum hug. Ég fullyrði enn og aftur að hefðum við gefið okkur betri tíma hefði það náðst. Við stungum upp á því að leita sátta og klára málið fyrir 10. febrúar ef ég man rétt. Því var líka hafnað.

Ég spyr: Af hverju liggur svona á? Af hverju er ástæða til að slíta friðinn? Af hverju er ástæða til að bola okkur frá samráði, samvinnu, málamiðlun og öðru slíku? Hvað lá svona mikið á? Hafa þingstörfin gengið svona illa í vetur út af ræðutíma? Ég fullyrði það að innan núgildandi laga mætti koma miklu betri brag á þingstörfin.

Ég hygg að þessi vinnubrögð, sem ég tel forkastanleg, séu til þess fallin að varpa rýrð á Alþingi, því miður. Ég tel líka að með þessu frumvarpi, ef það verður samþykkt, hafi meiri hlutinn á þingi, þingskapameirihlutinn, reist sér bautastein sem ætti að verða víti til varnaðar í kennslubók um vönduð þingsköp.

Meira að segja það að okkur er veittur hálfur dagur, segi ég, til að vinna upp þetta vandaða plagg, vinna upp minnihlutaálit, vinna upp lagabreytingar sem voru tæknilega erfiðar, þær voru það tæknilega erfiðar að málið var í úrvinnslu í skjalavinnslunni í nokkra klukkutíma í dag, meira að segja það átti að taka frá okkur. Svo förum við inn í umræðuna án þess að þetta plagg hafi legið fyrir með nægum fyrirvara til að menn gætu kynnt sér það. Þetta er ekki til eftirbreytni. Þetta kallar á óvandaða löggjöf, óvönduð vinnubrögð bera í skauti sér óvandaða löggjöf.

Og að bjóða líka upp á það — það er kannski af því að ég er svo reynslulaus í óvönduðum vinnubrögðum, að þetta tíðkist hér — að taka þetta mál út í önnum þingsins rétt fyrir jólahlé er líka óboðlegt. Það er með öllu óboðlegt. Við vorum tilbúin að gangast undir þá svardaga að klára þetta mál fyrir 10. febrúar, gefa okkur tíma, leita til þrautar málamiðlunar. Í það fór ég í vinnunni í allsherjarnefnd með algjörlega opnum huga, algjörlega án nokkurrar kreddufestu og annars. Eina sem ég hafði í huga var að störfin á Alþingi yrðu skilvirkari og starfsaðstæður starfsmanna yrðu fjölskylduvænni, þ.e. að hægt væri að samræma hér vinnu og fjölskylduábyrgð. Þegar upp er staðið í þessu frumvarpi gerist það ekki. Hér er ekki samræmd vinna og fjölskylduábyrgð. Hér er ekki komið í veg fyrir kvöld- og næturfundi. Hér er ekki hagað svo til að ég geti eða aðrir þingmenn eða starfslið þingsins sagt við fjölskyldu sína klukkan þrjú að degi: Ég kem heim klukkan átta. Nei, það er hægt að slíta fundi klukkan átta að kvöldi og byrja upp á nýtt og halda honum áfram alla nóttina. Það er engin trygging fyrir því. Til hvers var þá lagt af stað? Eingöngu með því að horfa á ræðutímann. Að fara í einn lítinn þátt í heildarmynd í störfum þingsins. Og enn og aftur fullyrði ég að með sátt og samlyndi og samkomulagi væri hægt að gera Alþingi að fjölskylduvænum vinnustað, að góðum vinnustað, að skilvirkum vinnustað innan núgildandi þingskapalaga. Ég fullyrði það.

Ég vil segja það hér að hornsteinar stjórnskipunar Íslands, eins og annarra vestrænna lýðræðisríkja, er þrískipting ríkisvaldsins í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Þannig er leitast við að tryggja viðunandi jafnvægi í samfélaginu milli lýðræðislegs valds almennings, beins og óbeins, í gegnum kjörna fulltrúa og framkvæmdarvaldsins sem situr í umboði Alþingis. Hér ríkir þingræði og þingbundin ríkisstjórn. Síðan skera dómstólarnir úr ágreiningi.

Skyldi þetta frumvarp efla löggjafarvaldið gagnvart framkvæmdarvaldinu? Skyldi það hafa verið kannað? Svo er ekki. Það er kannski út af því að frumvarpið er sprottið úr ranni framkvæmdarvaldsins, úr ranni stjórnsýslunnar? Ég hef sagt að það sem einkenni þetta frumvarp sé lýðræðisþreyta, lýðræðisóþægindi eða lýðræðisfælni. Það hefur komið berlega fram á þinginu og í störfum allsherjarnefndar.

Það er viðurkennd staðreynd á Íslandi að þjóðþingið, Alþingi Íslendinga, er veikt gagnvart framkvæmdarvaldinu og það hefur veikst síðastliðinn einn og hálfan áratug. Staða Alþingis sem slíks gagnvart framkvæmdarvaldinu snýst eðli máls um þá möguleika og réttindi minni hlutans til að sinna hlutverki sínu gagnvart ríkisstjórn, í stjórnarandstöðu, í aðhaldshlutverki, í eftirlitshlutverki. Mér líður stundum hér á þinginu eins og að stjórnarandstaðan sé formsatriði, að við séum tekin eins og formsatriði en ekki faglegt vinnandi fólk sem leggur alúð í störf sín og vill landinu vel.

Það er óskaplega stór liður í hlutverki þingmanna og stjórnarandstöðu að standa fyrir rökræðum og koma mismunandi sjónarmiðum á dagskrá út í samfélagið. Því má aldrei gleyma að hlutverk okkar er margþætt. Það er ekki aðeins löggjafarstarf heldur er Alþingi líka helsti vettvangur pólitískra skoðanaskipta og umræðu í landinu. Hér takast á stjórnmálaflokkar og lýðræðislega kjörnir fulltrúar þeirra og þeirri viðureign verður að skapa viðunandi umgjörð sem snýst um að tryggja rétt minni hlutans, tryggja að ræðutími sé ekki þrengdur svo að hann sé ekki til staðar. Ég vil líka benda sérstaklega á það að á Alþingi takast fulltrúar löggjafarvaldsins á við ráðherra framkvæmdarvaldsins. Hér á hinu háa Alþingi þurfa ráðherrar að standa sín reikningsskil, að svara spurningum löggjafarvaldsins, að skýra sjónarmið framkvæmdarvaldsins fyrir löggjafarvaldinu. Það er afar brýnt.

Þess vegna kom það algjörlega flatt upp á mig þegar nokkrir hv. fulltrúar í allsherjarnefnd vildu stytta ræðutímann við 1. umr. til viðbótar. Hvað þýðir það? Það þýðir að tækifæri þingmanna til að láta ráðherra framkvæmdarvaldsins standa reikningsskil eru skert. Ráðherrar standa þessi reikningsskil fyrst og fremst í 1. umr. Þar svara þeir spurningum, þar þurfa þeir að gera grein fyrir sjónarmiðum að baki öllum þeim aragrúa lagafrumvarpa sem þeir leggja fram. Ráðherrar eru mun sjaldnar viðstaddir 2. umr. eða 3. Það eru örfáar undantekningar frá því eins og hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson, ég held að það sé af öðrum ástæðum, fremur málgleði en eitthvað annað, en hæstv. ráðherra hefur verið duglegur að mæta í þingið.

Þarna er verið að takmarka og það er vilji þingmanna til að koma í veg fyrir að við hv. þingmenn getum tekist á við ráðherrana, spurt þá spjörunum úr. Ég hygg að ráðherrar, sérstaklega þeir sem setið hafa lengi á ráðherrastóli, veikist smám saman og fái þessa lýðræðisþreytu sem ég kalla, lýðræðisóþægindi, að þurfa að standa fyrir svörum á Alþingi, að þurfa að hlusta á efnislegar umræður sem eru lengri en 15 mínútur, að þurfa hitt og þetta. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Því fer víðs fjarri að ræðutíminn einn skiptir öllu máli. Hann er hluti af heildarmynd. Réttindi stjórnarandstöðunnar og ákvæði þingskapa eiga að tryggja lýðræðisleg skoðanaskipti. Umræður, vönduð vinnubrögð og vönduð lagasetning Alþingis eru heild, órjúfanleg heild, hluti af stærri heildarmynd sem ekki verður skilin frá öðrum.

Ég vil taka sérstaklega fram að það er í sjálfu sér ekki markmið að flytja langar ræður. Alls ekki. Þaðan af síður innihaldslausar eða rýrar. Þaðan af síður að standa í málþófi. En það er bara þannig að fjöldi mála kallar á lengri umræðu en þetta frumvarp veitir rétt til. Undir hvað er stjórnarandstaðan þá seld? Undir vald forseta. Alræðisvald forseta. Ég hef sagt og get sagt það aftur að við gætum hugsað okkur að styðja þetta frumvarp ef tryggt væri að minni hlutinn skipaði ævinlega forseta þingsins. Þá væri hægt að stýra þinginu án þess að kúga minni hlutann. Það hefur gerst á þingi að stjórnlyndir ráðherrar hafi tekið völdin af forseta þingsins. (Gripið fram í.) Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson ætti fremur að hlusta en að snúa út úr, hlusta á þessa ræðu. Hún verður síðan síðan skrifleg í þingtíðindum og ég legg til að hv. þingmaður lesi hana í hverri viku. (Gripið fram í.)

Það er markmið að tryggja á þingi að lágmarksjafnvægi sé alltaf til staðar þar sem kjörnir fulltrúar allra helstu sjónarmiða í stjórnmálum landsins eigi vettvang til að koma skoðunum sínum á framfæri. Þess vegna geyma þingsköpin fjölmörg ákvæði sem miða öll að hinu sama, að tryggja vandaða umfjöllun um mál. Þau tryggja að þingnefndir geti sinnt rannsóknarskyldu sinni, þau tryggja að öll sjónarmið fái að heyrast og að framkvæmdarvaldið geti ekki í krafti meiri hluta síns rúllað umdeildum eða viðamiklum málum í gegn fyrirvaralítið eða fyrirvaralaust. Þau gera ráð fyrir að tími, ráðrúm og aðstæður gefist til að rannsaka mál og ræða og vekja á hinum opna umræðuvettvangi Alþingis, þar sem fundir fara fram í heyranda hljóði, athygli á því sem er á dagskrá.

Það er merkilegt, þegar verið er að stytta ræðutíma í 15 mínútur eða 20 mínútur, að tekin hefur verið tekin saman tafla um ræðutíma einstakra þingmanna, m.a. í stjórnarandstöðunni, í haust og vor. Það er ótrúlega oft að þeir hafa yfirstigið þau mörk. Þeir hafa nú ekki æft sig mikið á þeim. Væntanlega verður gerð nánari grein fyrir því síðar í umræðu um þetta mál.

Ég verð að vekja aðeins sérstaka athygli á því, frú forseti, að eins og flestir vita í þessum sal starfaði Alþingi á árum áður í tveimur málstofum, efri og neðri deild. Öll lagafrumvörp önnur en fjárlög fóru að minnsta kosti í gegnum sex umræður. Árið 1991 var Alþingi sameinað í eina málstofu sem að mörgu leyti var framfaraspor hvað varðaði skilvirkni og vinnubrögð á Alþingi en um leið lagði það mikla ábyrgð og skyldur á herðar þeim sem þar réðu ferð til að tryggja að þetta yrði ekki til þess að vinnubrögð versnuðu, að skoðun mála yrði grynnri og einfaldari og aukin hætta á mistökum.

Við þessar breytingar voru hafðir uppi miklir svardagar um að í stað tveggja deilda sem skoðuðu lagafrumvörpin kæmi vandaðri, dýpri og yfirvegaðri umfjöllun í sameinuðu þingi, í einni málstofu og í nefndum. Það má deila um það hversu vel þessi fyrirheit hafa verið haldin.

Ég ítreka að Alþingi Íslendinga stendur veikt að vígi gagnvart framkvæmdarvaldinu og í þessu frumvarpi er engin trygging fyrir því að úr því rætist. Kjarni lýðræðisins á Íslandi og í vestrænum löndum, þrískipting ríkisvalds, það mun enn gefa á þann bát. Það sýnir best hversu löggjafarstarfið gerist óvandað að ótrúlega mörg dæmi eru um léleg vinnubrögð. Frumvarpið sem við ræðum hér er að mínu mati, ef ég má nota svo sterk orð, átakanlegt dæmi um vinnubrögðin. Ég kem betur að því síðar.

Hið sama má segja um frumvarp um tilfærslur í Stjórnarráðinu. Það var keyrt í gegn. Allir þingmenn sem setið hafa á þingi á síðustu kjörtímabilum vita nákvæmlega að framkvæmdarvaldið keyrir yfir þingið fyrir jól og fyrir þinghlé á vorin með stjórnarfrumvörp í löngum bunum. Það vita allir sem starfað hafa á þingi meira en eitt kjörtímabil að framkvæmdarvaldið virðist hafa það tak á nefndum að frumvörpum er hraðað í gegnum nefndastarfið. Stundum gefst ekki einu sinni tími til leita umsagna eða að kalla til gesti. Maður sér slík frumvörp og að við frumvarpssmíðina hefur ekki verið leitað umsagna, eins manns frumvarp úr ráðuneytunum í stórum málum án þess að talað sé við neinn einasta hagsmunaaðila. Að fá slíkt frumvarp mánuði eða hálfum mánuði fyrir þinglok, keyra það í gegnum nefnd, er óboðlegt. Ég ítreka það. Óvönduð frumvarpssmíð. Óvönduð lagasetning. Hið sama er hér á ferðinni og vík ég betur að því síðar.

Það er staðreynd sem ég vil ítreka, eins og þingræði, lýðræði og stjórnmálahefðir hafa þróast hér á landi, að staða Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu hefur veikst. Ég bið þann hv. þingmann sem heldur öðru fram vinsamlega að rökstyðja það, telji sá hinn sami að staða Alþingis hafi styrkst á undanförnum 10, 15 eða 20 árum. Sérstaklega hefur hallað undan fæti síðustu 16 ár, síðustu fjögur kjörtímabil. Því ráða ýmsir þættir. Hér hafa setið að völdum sterkar meirihlutastjórnir með stjórnlynda valdamenn sem endurtekið hafa sýnt þann vilja í verki, þá sterku löngun sína og ásetning að hafa Alþingi undir í glímu löggjafarvaldsins við framkvæmdarvaldið.

Því miður, frú forseti, hefur borið á miklum tilhneigingum til að breyta Alþingi í raðafgreiðslustofnun og færibandastofnun fyrir pólitískar ákvarðanir og málatilbúnað ríkisstjórnarinnar. Fyrir því eru tugir dæma á síðasta kjörtímabili, um hvernig frumvörpum er hraðað í gegnum þingið. Gegn ásælni framkvæmdarvaldsins í löggjafarvaldið, þessu valdabrölti framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafarvaldinu, er aðeins ein vörn. Aðeins ein brynja. Það eru þingsköpin. Þau eru vopn gegn gerræði framkvæmdarvaldsins. Þar eru réttindi sem veita minni hluta, stjórnarandstöðu eða þingmönnum sem eru ósammála framkvæmdarvaldinu, vopn í þeirri baráttu. Þau vopn eru t.d. fólgin í því að ekki er hægt að taka mál á dagskrá nema með afbrigðum, þ.e. það þarf að líða nóttin, tiltekinn dagafjöldi eða sólarhringafjöldi, frá því að þingmál kemur fram þangað til að kemur að 1. umr., á milli 2. og 3. umr. og frá því að þingskjöl berast úr nefndum og þangað til umræðan hefst. Frá þessu er unnt að veita afbrigði og til þess þarf tveggja þriðju hluta meiri hluta á þingi.

Því miður hefur Alþingi, að kröfu framkvæmdarvaldsins, beitt slíku meirihlutavaldi til að koma í gegn breytingum á Stjórnarráðinu. Ekki var það að kröfu Alþingis. Það var að kröfu ráðherra að breyta Stjórnarráðinu, tveggja hæstv. ráðherra í tengslum við stjórnarmyndun. Þá gerist þetta. Þá kemur fram stjórnlyndið.

Þingsköpin eiga að tryggja að þingnefndir fái viðunandi tíma til að sinna rannsóknarskyldu sinni og mál séu til umsagnar úti í þjóðfélaginu hjá hinum ýmsu aðilum og fái til þess sæmilegan tíma. Ég ítreka það að á þessu verður oft misbrestur. Í þessu máli varð ekki bara misbrestur á því heldur alger vöntun. Skýringarnar voru þær að við þingmenn vissum hvað kemur okkur best. En er ekki Alþingi þing almennings, þing fólksins utan sala þingsins? Er ekki rétt að spyrja fróða menn eða almenning að því hvað þeim finnist um Alþingi, hvernig þeim finnist þingið eiga að starfa o.s.frv.? Fjöldi fólks hefur þekkingu á þessum málaflokki, t.d. fyrrverandi forsetar þingsins, eins og prófessor í stjórnskipunarrétti.

Það kemur aldeilis starfsliði Alþingis við hver starfsskilyrðin eru. Því var borið við í þingnefnd að það væri íþyngjandi fyrir starfsmenn að mæta fyrir nefndina til að tjá sig um málið. Er íþyngjandi að tala saman og tjá sig um starfsaðstæður á þingi? Er það íþyngjandi? Er íþyngjandi að vera blátt áfram og heiðarlegur og segja skoðun sína tæpitungulaust? Er það íþyngjandi? Er íþyngjandi að tala saman yfir höfuð? Ég varð svo hissa þegar ég heyrði þessi ummæli að ég er eiginlega ekki enn búinn að melta þau.

Ég ítreka að í störfum nefnda verður ærinn misbrestur þegar mál verða keyrð í gegn í vor. Það hefði verið fróðlegt að taka saman dæmi um það, en því miður gafst ekki tóm til þess hjá allsherjarnefnd, hversu mörg mál hafa verið keyrð í gegnum nefndir á síðustu dögum fyrir þinghlé án umsagna. Án nokkurrar skoðunar. Bara vegna þess að keyra átti þau í gegn af ofurvilja og valdi framkvæmdarvaldsins. Ekkert nema málfrelsi eða ræðutími og skyldutími málsmeðferðar í nefndum getur komið í veg fyrir þetta stjórnlyndi.

Ég minntist á það áðan að nú eru uppi þær aðstæður að núverandi ríkisstjórn styðst við svo stóran meiri hluta, tvo þriðju, að hún getur í krafti hans nýtt sér afbrigði án stuðnings frá stjórnarandstöðunni. Við höfum lagt það til að setja þröskuldinn í þrjá fjórðu í þessari stöðu. Það er hægt að setja inn ákvæði sem tryggir að stjórnarandstaðan verði aldrei borin ofurliði í þessum afbrigðum. Þetta nýtti ríkisstjórnin sér strax á vordögum. Þetta er öryggisventill í störfum Alþingis. Þetta er öryggisventill gegn stjórnlyndi framkvæmdarvaldsins. Það er ekkert öðruvísi. Það var undarlegt að upplifa það að Samfylkingin og formaður hennar, hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skyldi leggja blessun sína yfir að veita afbrigðin.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég varð fyrir verulegum vonbrigðum. Ég trúði ekki mínum eigin augum eða eyrum þegar þetta fór fram. Það var vegna þess að ég hafði lesið Borgarnesræður hæstv. ráðherra. Ég hafði heyrt í hæstv. ráðherra í útvarpi og sjónvarpi og á þingi talandi um það að leysa mál í samráði og sátt og samlyndi, leita málamiðlana, slá nýjan tón, koma með þíðu inn í íslensk stjórnmál.

Í sömu ræðu lýsti hæstv. utanríkisráðherra því yfir að árið 1991 hefði skollið á frostavetur í íslenskri pólitík með því að hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson tók við stjórnartaumum í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins. Ekki hefur frosthörkunum linnt frá því að núverandi ríkisstjórn var mynduð. Mér sjálfum finnst við komin í meira kuldaskeið en ríkti þá. Það hefur ekkert gerst sem bendir til þíðu, þvert á móti eykst frostharkan í samskiptum við stjórnarandstöðuna og samskiptum við almenning, í samskiptum við stofnanir og þar fram eftir götunum.

Þetta hef ég haft á orði áður. Þetta hafði ég á orði í umræðum hér um tilfærslur í Stjórnarráðinu þegar umsagnir Skógræktar ríkisins og margra fleiri voru virtar að vettugi og þeim var ekki svarað með rökstuddum hætti og ég hafði það á tilfinningunni að þessara umsagna hefði verið leitað umsagnanna vegna en ekki vegna innihaldsins. Þetta átti bara að vera svona burt séð frá því þótt faglegir umsagnaraðilar þessara stofnana hefðu lýst því að frumvarpið gengi gegn markmiðum sínum um skilvirkni. Hvar er þíðan? Það gerðist líka í þeim dæmum að það var ekki rætt við starfsfólk þessara stofnana og það er í óvissu um framtíð sína nú í jólamánuðinum.

Frú forseti. Ég ætla næst að gera svolítinn samanburð á stöðu þessara mála í öðrum þjóðþingum. Því hefur verið hampað að við séum að taka upp danskar reglur á þessu sviði, að ræðutíminn sé sniðinn eftir dönskum reglum. Hv. þm. Birgir Ármannsson, það kom fram á fundum allsherjarnefndar í máli skrifstofustjóra hv. Alþingis. Ég hef þá misskilið illa ef ég er að fara með rangt mál þar. En það er sjálfsagt að hv. þingmaður leiðrétti mig í ræðu sinni eða andsvari. En hvað um það. Rökstuðningur fyrir þessu frumvarpi er að við séum með óvenjulegan ræðutíma, ómögulegan ræðutíma. Hví var þá ekki orðið við óskum mínum um það að leggja fram samanburð, heildstæðan samanburð á starfsskilyrðum og starfsháttum þjóðþinga á Norðurlöndum og Alþingis Íslendinga að breyttum þingsköpum miðað við þetta frumvarp? Því var það ekki gert? (BÁ: Upplýsingar voru settar í hólf þingmanna.) Því gaf nefndin sér ekki tíma eða hélt fund um þessar upplýsingar í hólfi þingmanna? Af hverju var keyrslan slík? Af hverju mátti ekki bíða fram í janúar og afgreiða málið í byrjun febrúar og klára þessa upplýsingaöflun, því að það gat vel verið að það væri meira kjöt á beinum danskra þingskapalaga en hér er. Þá á ég við stuðning við nefndastörf, stuðning í nefndum. Ég get alveg nefnt það hér að sá stuðningur er óviðunandi. Það er of mikið álag á starfsmönnum þar og þeir eru vinnandi baki brotnu og eru búin þau starfsskilyrði fyrir meiri hlutann að þeim gefst því miður ekki tími, þótt viðkomandi starfsmenn hafi til þess fullan vilja, að skila af sér drögum eða annarri vinnu.

Ég hef dæmi um þetta úr drögum að minnihlutaáliti mínu varðandi breytingar á lögum um vátryggingarsamninga, frumvarpið sem hér var til umfjöllunar um breytingar á lögum um fiskveiðistjórn varðandi veiðigjaldið. Ég hafði lagt upp drög og efnisinnihald og annað slíkt með mjög góðum fyrirvara. Málin voru tekin á dagskrá hér án þess að minnihlutaálitið væri komið fram. Það hefði verið að mínu mati fullkomlega eðlilegt að huga að þessum málum samhliða ræðutímanum og fleiru.

Því er hampað, sérstaklega af aðstandendum núverandi þingskapafrumvarps sem á að skerða ræðutíma þingmanna og takmarka réttindi stjórnarandstöðunnar, að í kringum okkur séu þingin eða þingmenn ekki með ótakmarkaðan ræðutíma. Þá gleyma menn því að íslenska þingið hefur mikla sérstöðu miðað við þing á Norðurlöndum. Það er í fyrsta lagi miklu mun fámennara, við höfum 63 þingmenn og rúmlega 50 þegar ráðherrar eru frátaldir en fámennustu þingin á Norðurlöndum hafa 170 þingmenn og upp í 350. Þar gerist það — og þar þekki ég til, sérstaklega í Noregi — að þar er allt undirbúningsferli þingmála miklu mun lengra, miklu opnara og ítarlegra auk þess sem nefndirnar eru miklu mikilvægari pólitískur vettvangur en nefndirnar hér. Í nefndunum eiga menn á Norðurlöndunum sinn ræðustól, ef ég má orða það þannig. Þeir eiga sinn vettvang þar. En á þessu þingi er vettvangurinn hér þar sem ég stend og hér er ástundaður munnlegur málflutningur. Hér er sá vettvangur sem skiptir mestu máli á þinginu og þannig er málum hagað en á Norðurlöndunum er vald þingnefnda og öll umgjörð miklu rýmri og miklu betri. Þar er mikilvægur vettvangur pólitískra umræðna og stefnumótunar. Þar fara fram umræður þar sem fjöldi nefndarmanna slagar upp í að vera hálfur fjöldi þingmanna á Alþingi. Og þar er fundað fyrir opnum tjöldum og þar fer fram stór hluti hins pólitíska rökstuðnings sem við á Íslandi höfum kosið að hafa héðan úr þessum ræðustól.

Þá spyr maður: Af hverju er ekki hugað að þessu? Af hverju var þetta ekki skoðað í nefndarstarfinu? Af hverju var jafnvel ekki leitað eftir ítarlegum samanburði frá öllum þjóðþingum sem við berum okkur saman við? Af hverju spurðum við ekki Íra hvernig þeir fóru að þegar þeir endurskoðuðu þingstörfin hjá sér og gerðu heildarúttekt þar?

Ég vil líka halda því til haga að það er langur vegur frá því að úrræði stjórnarandstöðu á þjóðþingum hinna Norðurlanda séu jafntakmörkuð og ætla mætti á þessum hráa samanburði á ræðutíma. Ég vil nefna það hér að finnska stjórnarskráin geymir ákvæði sem tryggir hverjum einasta þingmanni finnska ríkisþingsins — sem eru 200 — rétt til að tjá sig á öllum stigum við umræður og afgreiðslu mála. Þetta endurspeglast í finnskri löggjöf og starfsháttum á finnska þinginu og þar er ævinlega grunnreglan sú að fara varlega í að takmarka ræðutíma og tjáningarfrelsi þingmanna. Réttindi þingmanna eru í raun vernduð þar af stjórnarskrá. Þessi tjáningarréttur er viðurkenndur í öllum ferlum og hann er síðast en ekki síst tryggður með því að mál fá vandaða meðferð. Og þar fara umræður yfirleitt ekki fram nema í góðu samkomulagi fyrir fram um tilhögun þeirra. Ræðutíma er þar skipt málefnalega á milli, og vel að merkja, að meðan löggjafarstarfið á Íslandi er jafnóburðugt og raun ber vitni, meðan við búum við það að framkvæmdarvaldið helli yfir okkur frumvörpum á lokastigum þings fyrir jól og sumarfrí, óvönduðum frumvörpum, þá kalla þau á lengri ræðutíma. Eftir því sem vandað er betur til lagasetningarsmíðinnar þess styttri umræðutíma þarf.

Þetta mál sem við ræðum er dæmigert fyrir það. Ég hygg að ég hefði getað staðið hér og flutt framsögu minni hlutans um þetta frumvarp á mun skemmri tíma ef tómið hefði verið betra, undirbúningurinn vandaðri. Ég ítreka það að nefndarvinna er hér á stundum í skötulíki og það er verulegt áhyggjuefni. Þetta kalla ég lýðræðisþreytu hjá framkvæmdarvaldinu, lýðræðisóþol líka. Það er jafnvel verið að leggja fram frumvörp rétt fyrir sumarhlé sem framkvæmdarvaldið vill böðlast áfram með burt séð frá því að viðkomandi frumvarp hafi ekki neina slíka brýna þýðingu að það þurfi að afgreiða það fyrir sumarið, að það sé þannig að efni til að alveg ástæðulaust sé að kýla það í gegnum þingið, að það þoli betri skoðun.

Ég vil líka benda á að á þjóðþingum annarra Norðurlanda eru réttindi stjórnarandstöðu mun betur tryggð en hér á landi. Það er ekki óalgengt að þar sé valdi forseta deilt. Það er ekki óalgengt að forsetinn komi úr hópi stjórnarandstöðunnar. Það er frekar regla en undantekning að forusta í þingnefndum deilist bæði á minni hluta og meiri hluta og gengið er út frá því í þjóðþingum Norðurlandanna að þingið sé sjálfstæð stofnun óháð framkvæmdarvaldinu og óháð meiri hluta og minni hluta á hverjum tíma á meðan við upplifum það aftur og aftur að vera lögafgreiðslustofnun framkvæmdarvaldsins. Við upplifum það að minni hlutinn er formsatriði. Við upplifum það að hæstv. forseti virðist ekki hafa áhyggjur af því þó að nefndarálit minni hlutans komist ekki að í þessu máli. Hann virðist ekki hafa áhyggjur af því þó að okkur í miðjum starfsönnum hér sé ætlað að skrifa nefndarálit á örfáum tímum, verandi hér í fullum þingstörfum, verandi hér í atkvæðagreiðslum, verandi bundin í þingsal og upplifa það að fá aldrei við þessar aðstæður að vita fyrr en í gær að málið yrði tekið úr nefndinni í gærkvöldi. Ég margkallaði eftir upplýsingum um hvaða vinnulag við ætluðum að hafa við vinnslu þessa máls og svörin voru jafnóljós og hver önnur véfrétt í hvert einasta skipti þar til á fundinum í gærmorgun eða seinni part í gær. Hvað gerði ég þá? Frá starfsönnum, frá tveimur öðrum nefndarálitum sem ég var vinna og öðru slíku, fór ég að vinna í þessu minnihlutaáliti á hlaupum. Það er þess vegna sem ég held því fram að við í stjórnarandstöðunni séum formsatriði, skiptum ekki máli. Við erum einhvern veginn hér til að fylla upp í þingsköp eða eitthvað svoleiðis. Það er ekkert mark tekið á okkur. Það er verið að taka frá okkur það hlutverk að vera öryggisventill á framkvæmdarvaldið.

Ég ítreka að forusta í þingnefndum á Norðurlöndum skiptist á meiri hluta og minni hluta. Við val í trúnaðarstöður þar er litið til reynslu og hæfni en ekki bara til þess hvort menn tilheyra minni hluta eða meiri hluta. Reyndum þingmönnum sem hafa sannað sig í starfi er fremur treyst til forustu í þingnefndum en þeim sem koma blautir bak við eyrun til þingstarfa. Hér á landi því miður, sérstaklega á seinni árum, virðist horft til þess hvort menn tilheyri minni hluta eða meiri hluta. Þaulreyndir stjórnmálamenn á þingi á þessum vetri, með langan og farsælan feril að baki sem formenn þingflokkanna, sem ráðherrar í ríkisstjórnum, sitja í minni hluta undir forustu óreyndra þingmanna, með fullri virðingu fyrir þeim óreyndu þingmönnum. En því ekki að nota mannauðinn í þessum stjórnmálamönnum, með þessa löngu og miklu reynslu? Nei, það er ekki gert. Frekar skal meiri hlutanum beitt. Þessi tilhneiging er svo rík að það kom ekki einn einasti varamannspóstur í nefndum í hlut stjórnarandstöðunnar við kosningar í nefndir í vor, ekki einn.

Þegar gerðar voru breytingar á þingsköpum árið 1991 átti að brjóta í blað. Starfsaðstæður þingmanna voru bættar almennt og reynt var að skapa meira jafnvægi milli meiri hluta og minni hluta, ekki síst með því að fulltrúar minnihlutaflokkanna færu með formennsku í þingnefndum í samræmi við hlutfallslegan styrk sinn. Ég ítreka að þetta fyrirkomulag gafst ágætlega. Í mín eyru hefur verið sagt að frá þessu hafi verið ein undantekning en undantekningin sannar regluna. Forustumenn stjórnarandstöðunnar veittu mikilvægum þingnefndum forustu á kjörtímabilinu 1991–1995 og 1995–1999. Ég get nefnt að Halldór Ásgrímsson var formaður efnahags- og viðskiptanefndar á fyrra kjörtímabilinu, Kristín Ástgeirsdóttir formaður félagsmálanefndar og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon formaður sjávarútvegsnefndar lengst af hluta síðarnefnda tímabilsins. (LB: Formaður heilbrigðisnefndar.) (Iðnrh.: Formaður heilbrigðis- og trygginganefndar í gagnagrunnsmálinu, og stóð keikur.) — Ég held áfram ræðu minni eftir þetta inngrip hæstv. ráðherra Össurar Skarphéðinssonar.

Það hefur orðið bakslag í þessari þróun síðustu áratugi. Í raun höfum við horfið aftur til fortíðar, við höfum horfið til baka tvo til þrjá áratugi í stjórnlyndi og í ofurásælni framkvæmdarvaldsins í völd. Það höfum við gert. Yfir vötnunum svífur aukið valdboð meiri hlutans og framkvæmdarvaldið, eins og ég hef margítrekað, lítur á Alþingi sem hreina afgreiðslustofnun fyrir frumvörp sín.

Það verður að halda því til haga í þessu samhengi að ekki aðeins það sem gerist á Alþingi sýnir manni þá skekkju sem er á þessari mynd, ójafnvægið í valdahlutföllum, milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Það sáum við í fjárlagaafgreiðslunni í dag í atkvæðagreiðslunni. Hvað gerðist þar? Eftir því sem stofnanir eru fjær frá Reykjavík, því minni fjárveitingu fá þær. Því fjær sem stofnanir eru frá ráðuneytunum því minna fá þær. Nær undantekningarlaust er verið að efla stöðu aðalskrifstofa ráðuneytanna, utanríkisráðuneytis og fjölda ráðuneyta. Í hvað fara þessir peningar, þessar auknu fjárveitingar, gegnumgangandi í fjárlögum? Þær fara til að styrkja ráðherravald, ráðherraræðið og framkvæmdarvaldið.

Hvað gerist með þessari styrkingu? Jú, ráðuneytin stækka og þau styrkjast að mannafla. Ráðherrar taka sér nú tvo, þrjá og jafnvel fjóra pólitíska aðstoðarmenn inn í ráðuneytin (Iðnrh.: Hverjir taka sér fjóra?) ráðgjafa, blaðafulltrúa og verkefnisstjóra fyrir utan hina pólitísku aðstoðarmenn. (Gripið fram í.) Er hæstv. ráðherra Össur bara með þrjá? Æ, æ. (Iðnrh.: Ég hef einn.) Æ, æ, bara með þrjá. Sá þingmaður sem hér stendur er ekki með aðstoðarmann frekar en aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar. En þetta sýnir glöggt hvað er að gerast. Á sama tíma erum við að veikja löggjafarstarfið, veikja eftirlitshlutverk Alþingis og það sem verst er, veikja stjórnarandstöðuna. Hver er tilgangurinn? Hver skyldi sá tilgangur vera? Eflaust koma einhverjir að því síðar. Við í stjórnarandstöðunni höfum setið með tvær hendur tómar án nokkurra möguleika til að undirbúa mál og vinna til jafns við meiri hlutann, vinna til jafns við ríkisstjórnina. Við erum borin ofurliði.

Hv. þm. Ellert B. Schram situr og hlustar á mig með athygli, sem ég er þakklátur fyrir. En svo maður færi þennan málflutning minn yfir í fótbolta þá notaði hv. þingmaður þá samlíkingu að í allsherjarnefnd væri ég að sparka boltanum yfir bárujárnsgirðinguna á Melavellinum, (EBS: Að hreinsa út af.) að hreinsa út af. Hv. þingmaður upplýsti að þegar KR komst í 1:0 þá hafi þeir verið mikið í því að sparka út af eftir það. En mér líður þannig í stjórnarandstöðunni að þótt inn á völlinn fari tvö lið þá sé ég er í liði sem hefur bara markmann eða einn á kantinum miðað við ægivald framkvæmdarvaldsins. Þannig er það. Ég held að það sé 11:5 staðan, 11:5 mannskapurinn. Hvaða afleiðingar hefur þetta haft, þetta gerbreytta valdahlutfall? Hvað hefur gerst? Það heyrir til algerra undantekninga að þingmenn semji frumvarp, þ.e. viðamikil frumvörp. Þingmenn semja fyrirspurnir og þingsályktunartillögur og fleira en aðstaða þeirra til að semja frumvarp með aðstoð er lítt fyrir hendi. Þær undantekningar eru frá þessu að viðkomandi þingmaður sé sérfræðingur á því málasviði sem hann er að leggja frumvarp fram um.

Hvað verður um þau frumvörp sem þingmenn leggja fram, þingmannafrumvörpin? Þau komast ekki einu sinn í 1. umr. eða þau sofna í nefndum. Það er hins vegar annað þegar unnið er undir pólitískum handarjaðri ráðherra. Þá eru aðstoðarmennirnir eins og maurar í kring að semja, fyrir utan allt starfsfólkið í ráðuneytunum. Svo gleymdi ég bílstjórunum sem geta stundað þá fjölskylduvænu iðju að fara út í búð og kaupa mjólk. Það er hluti af fjölskylduábyrgð, hv. þingmaður, að sinna börnum, sinna heimili og öðru slíku. Hér er hins vegar vinnuálagið slíkt á stjórnarandstöðunni á þessum dögum að það gefst ekki tóm til þess en hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson getur sent bílstjóra sinn til sækja föt í hreinsun og fara ... (Iðnrh.: Vertu ekki með svona vitleysu, drengur. Þú ættir hætta þessari fíflalegu umræðu.) Það var skrifað um þetta, hæstv. ráðherra skrifaði um þetta. Þetta er bara staðreynd. Hluti af aðstoðarmönnum ráðherra, sem er allt í góðu lagi með, eru bílstjórar. Þar kom kannski hinn fjórði. (Gripið fram í.)

Ég ætla að ítreka það sem ég hef sagt áður, að frumvörpin koma seint og illa inn. Það er staðreynd sem enginn getur á móti mælt. Það plagar öll vinnubrögð á þingi, plagar þingmenn og plagar starfsfólk, m.a. við jólaundirbúning og annað. Það væri auðvelt að samræma starfsskipulag og vinnu á þingi ef vilji stæði til þess og sinna fjölskylduábyrgðinni innan núgildandi þingskapa. Hægt væri að gera allsherjarbragarbót á því. Þetta var almennur inngangur að því sem ég vildi sagt hafa.

Ég ætla aðeins að víkja orðum að þessu frumvarpi. Þegar forseti Alþingis boðaði í ræðu síðasta vor að hann hygði á breytingar á þingsköpum og endurskipulagningu þingstarfa þá vil ég árétta að því var vel tekið af þingflokki Vinstri grænna. Við höfum nefnilega lagt fram og haft ýmsar hugmyndir um hvernig bæta megi störf þingsins, endurskipuleggja þinghaldið, vanda betur til lagasetningar og almennra vinnubragða á þingi. Við höfum lagt margar slíkar hugmyndir fram og sumar þeirra hafa ratað inn í þetta frumvarp. Sumar þeirra rötuðu inn í frumvarpið á síðustu stigum í vinnslu allsherjarnefndar. Þessar hugmyndir lögðum við ekki fram sem einhverjar kröfur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Við lögðum þær hugmyndir fram til að bæta starfsskilyrði á þingi. Það var ekki gustuk við okkur þingmenn VG að taka þær inn í frumvarpið heldur voru þær teknar inn vegna þess að fulltrúar í allsherjarnefnd sáu skynsemi í því.

Ég vil halda því til haga að þegar ljóst var að forseti Alþingis vildi binda umbætur á starfsaðstæðum þingmanna og stjórnarandstöðunnar órjúfandi böndum við að ræðutími og málfrelsi yrðu skorin niður við trog og endanlega takmarkað við tímamörk þá skildu leiðir. Við gátum ekki horft á þetta eingöngu út frá ræðutímanum. Við vorum til umræðu um heildarúttekt og að bæta það sem þyrfti raunverulega að bæta. Ef þetta frumvarp gæfi okkur tryggingu fyrir því þá væri ég glaður í ræðustólnum en svo er ekki.

Ég vil líka taka fram, sem brennur á okkur í stjórnarandstöðunni, að á meðan forseti sem hefur jafnmikið vald til að ákveða dagskrá og alla tilhögun á vinnu kemur frá meiri hlutanum þá er ekki á góðu von. Þegar allir formenn nefnda koma úr meiri hlutanum þá er ekki á góðu von. Þegar meiri hlutinn er svo stór að hann getur veitt sér afbrigði á hverjum degi, þá er ekki á góðu von. Þá brestur öryggisventillinn, sem er stjórnarandstaðan, sem gegnir afar brýnu hlutverki á öllum þjóðþingum í vestrænum löndum.

Það er ekki að sjá í þessu frumvarpi að meint markmið þeirra náist. Við rökstyðjum að frumvarpið sé ekki hugsað til enda. Það tekur ekki mið af augljósum staðreyndum um starfshætti Alþingis og þróun þeirra. Ég vil minna á að Alþingi Íslendinga er gömul stofnun sem byggir á sterkum hefðum og ein af þeim hefðum sem við byggjum á um áratugi er ótakmarkað málfrelsi. Þannig hefur það verið um áratugi. Það hefur nánast undantekningarlaust verið virt. Við áttum mjög erfitt með að trúa því þegar við sáum þetta frumvarp, að þessar skerðingar kæmu fram án þess að öryggisventlarnir væru virkjaðir um leið. Vel að merkja, frumvarpið er samið og ræðutíminn styttur út frá málum sem heyra til undantekninga í meðferð á Alþingi, ákveðnum stórum málum sem heyra til undantekninga.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill spyrja hvort þingmaður eigi langan tíma eftir af ræðu og horfir til þess hvort fresta eigi fundi og gera matarhlé eða hvort hv. þingmaður vill klára ræðuna og taka andsvör.)

Nei, frú forseti, ég held ég eigi það mikið eftir að rétt væri að taka hlé.