135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[20:01]
Hlusta

Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (frh.):

Frú forseti. Ég ræddi í ræðu minni áðan um misvægið milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins og færði að því rök hve ráðuneytin hefðu stækkað og hve aðstaðan væri mismunandi hjá hinum venjulega þingmanni og framkvæmdarvaldinu. Í þeirri umræðu lét ég orð falla sem mátti misskilja og voru misskilin í garð hæstv. ráðherra Össurar Skarphéðinssonar og bílstjóra hans. Ég vil taka það fram að ég lít á hæstv. ráðherra sem mann heilinda og heiðarleika og meiningin bak við þessi orð var aldrei að draga það að nokkru leyti í efa, aldrei. Ég bið því hæstv. ráðherra afsökunar á þessum óvarlegu ummælum sem sögð voru í hita ræðu minnar um það misvægi sem ríkir á milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins.

Ég vil næst, frú forseti, víkja að málsmeðferð þessa máls. Ég held því fram að með framlagningu þessa frumvarps hafi verið brotið í blað í sögu Alþingis. Til þessa hefur ævinlega verið leitað eftir samstöðu og samkomulagi allra þingflokka um veigamiklar breytingar á þingsköpum í stærri málum rétt eins og leitað hefur verið samstöðu í málum sem varða breytingar á stjórnarskránni og stjórnskipuninni. Menn hafa leitað sátta í slíkum málum. Nú bregður svo við að vikið hefur verið frá þessu áratuga gamla vinnuferli og frumvarpið er lagt fram í andstöðu við stærsta stjórnarandstöðuflokkinn, Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, þrátt fyrir að a.m.k. ég í störfum mínum og fleiri í allsherjarnefnd hafi sýnt óskoraðan og einlægan vilja til að komast að málamiðlun í þessu máli. Sú málamiðlun var ekki til þess að sinna einhverjum kenjum VG heldur fyrst og fremst einlægur áhugi okkar á því að bæta starfshætti þingmanna, starfsskilyrði hér á þinginu, okkar og þingmanna.

Það liggur fyrir að þetta frumvarp er smíð örfárra manna. Frumvarpið kemur fullskapað fram og er kynnt sem slíkt og ég vil meina að þar hafi verið sniðgengnar flestar kröfur sem gera verður um vandaða frumvarpssmíð. Við slíka frumvarpssmíð, bæði hvað þetta frumvarp varðar og aðra lagasmíð, hlýtur maður að byrja á að skilgreina hvort nauðsyn sé á lagasetningu, skilgreina nauðsynina og þörfina, og spyrja sig hvort unnt sé að bæta starfsskilyrði þingmanna og starfsfólks og alla umgerð á þinginu til að efla lagasetningarstarfið og skila frá okkur vandaðri lagasmíð innan ramma núgildandi þingskapalaga. Rökstudd greining á þessum þætti liggur ekki fyrir en það er brýn nauðsyn í svona máli að slík greining sé á borðinu.

Samráð við undirbúning að gerð þessa frumvarps hefur verið í lágmarki. Það var rætt í þröngum hóp og borið undir þingflokksformenn í sinni endanlegu mynd, ekki á smíðatíma frumvarpsins eða við samráðsleitan þá. Það liggur líka fyrir að ekki hefur verið haft samráð innan húss við starfsfólk, við fyrrverandi forseta, við fræðimenn á sviði stjórnskipunar eða yfir höfuð aðra sem gagnlegt hefði verið að heyra sjónarmið frá og þess vegna við almenning í landinu. Hvernig vill almenningur í landinu sjá að Alþingi starfi? (Gripið fram í.) Það er mikill og háskalegur misskilningur að halda að starfshættir og vinnubrögð á Alþingi séu einkamál Alþingis. Að mínu mati varðar þetta alla þjóðina. Þetta er ekki einkamál þingsins. (Gripið fram í.) Alla þjóðina varðar hvernig hér er starfað og okkur varðar miklu að virðing Alþingis sé sem mest á hverjum tíma. Það er þjóðin, það er almenningur sem sendir okkur hingað í umboði sínu á fjögurra ára fresti.

Það er líka gagnrýnt, sem reyndar er ekki efnisatriði þessa frumvarps en ég vil þó halda því til haga vegna þess að það er kynnt í fjárlögum sem eitt og sama mál, og ég vil vekja til umhugsunar á því og það er ráðning svokallaðra pólitískra aðstoðarmanna sem starfa innan þingsins og teljast starfsmenn skrifstofu Alþingis. Ég hef efasemdir um að það sé heppilegt fyrirkomulag, ég hef miklar efasemdir um að heppilegt sé að pólitískir aðstoðarmenn þeirra stjórnmálaflokka sem eiga þingmenn á Alþingi séu hluti af starfsliði þingsins. Það er skoðun mín og ég bið hv. þingmenn að velta því vel fyrir sér. Það er ótrúlega margt sem má skoða í þessum efnum og hér skyldi maður hafa heildarmyndina í huga eins og ég hef nefnt áður.

Það liggur ekkert mat fyrir á því, þarfagreining á því, hver yrðu áhrif frumvarpsins verði það að lögum. Liggur fyrir að það muni auka skilvirkni, bæta lagasetninguna, stuðla að vandaðri vinnubrögðum, að það skapi betri og fjölskylduvænni vinnustað, að það tryggi að þingmenn og starfsmenn viti í upphafi hvers þingdags hve lengi þingfundir muni standa, þannig að bæði þingmenn og aðrir sem koma að þinginu geti samræmt vinnu sína hér og fjölskylduábyrgð eins og ég hef nefnt? Það sem ég hef líka nefnt hér og lít á sem alvarlegasta hlutinn eða þann hlut sem maður þyrfti að hafa hvað mestar áhyggjur af er hvort frumvarpið styrki löggjafarvaldið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að hið gagnstæða muni koma í ljós. Öryggisventlarnir gagnvart framkvæmdarvaldinu hafa að hluta til verið afnumdir. Það er full ástæða til að hafa þungar áhyggjur af því. Ég minni aftur á að það hlýtur að vera höfuðmarkmið að þingmál sem koma til afgreiðslu séu sem best undirbúin og kynnt og ég ítreka líka að það stuðlar að vandaðri lagasetningu, það stuðlar að hraðari afgreiðslu og á þetta hefur m.a. umboðsmaður Alþingis, ef ég man rétt, bent margsinnis. Ef menn gera kröfur um vandaðan undirbúning verður að ætla ríflegan tíma á þingi til allrar málsmeðferðar og þá ítreka ég aftur að þetta frumvarp er að mínu mati víti til varnaðar. Hvorki samning frumvarpsins, frumvarpssmíðin sjálf né undirbúningur og málsmeðferðin á Alþingi uppfylla þær kröfur sem gera verður um vandað löggjafarstarf og ég held því fram að frumvarpið og málsmeðferðin öll frá upphafi til enda einkennist af einhvers konar óðagoti. Það felst m.a. í því að ekki voru kallaðir fyrir sérfræðingar, ekki var leitað málamiðlunar í þaula í fullri alvöru og ekki voru gerðar nauðsynlegar úrbætur á frumvarpinu sem blasti við að gera þyrfti og m.a. komu fram í þeirri einu umsögn sem barst allsherjarnefnd óumbeðið frá Félagi starfsmanna Alþingis.

Það er einkennandi fyrir þetta frumvarp og ýmis önnur sem hafa verið lögð fram að minni hlutanum er ætlað að íhuga nefndarálit, skrifa nefndarálit og ganga frá því nánast yfir blánótt og afgreiða síðan í sama óðagotinu í miklum öðrum starfsönnum á Alþingi fyrir jólahlé eins og öllum er kunnugt um að er. Þessi vinnubrögð eru með öllu óviðunandi og þau eru ekki til þess fallin að efla traust eða virðingu Alþingis. Ég ítreka aftur að það er að mínu mati einkennandi fyrir þetta frumvarp að þar virðist ráða einhver lýðræðisóþægindi eða fælni eða þreyta hjá framkvæmdarvaldinu og stjórnsýslunni.

Það var einkennilega haldið á málum í upphafi þessa máls. Það var sérkennilegt að heyra að aukin aðstoð við þingmenn, fleiri utanlandsferðir og fleira í þeim dúr sem var flækt saman við málsmeðferðarreglur, leikreglur sem við störfum eftir á þingi, skipti máli varðandi frumvarpið. Menn hafa nánast verið settir í þá stöðu að þiggja slíkar gulrætur og vera með frumvarpinu eða ekki. Það er algerlega óviðkomandi þingskapafrumvarpinu hvort landsbyggðarþingmenn fái aðstoðarmenn eða þar fram eftir götunum eða hvort einhverjum utanlandsferðum fjölgi o.s.frv. Það kom líka skýrt fram þegar frumvarpið var kynnt fyrir þingflokksformönnum í sínum endanlega búningi að breytingar væru ekki til umræðu. Takið þetta svona eða ekki. Það var viðhorfið í kynningunni. Það var meira að segja þannig að þetta frumvarp, sem á að leggja grunn að lýðræðislegri umræðu í þinginu, í þingi sem er gegnsætt og lýðræðislegt, var kynnt sem trúnaðarmál og maður spyr: Af hverju? Hver var leyndardómurinn bak við það? Ég var mjög undrandi á þeirri málsmeðferð þegar hv. þingflokksformaður okkar, Ögmundur Jónasson, afhenti okkur frumvarpið á þingflokksfundi kyrfilega merkt sem trúnaðarmál. Hv. þingflokksformaður virti þann trúnað og við fengum ekki skjalið í hendur nema að sjá það inni á þingflokksfundum. Af hverju? Er ekki svo í lífinu að betur sá augu en auga? Er það ekki svo í lífinu að lýðræðið blómstrar þegar fleiri koma að ákvarðanatöku, að tekið sé tillit í allar áttir?

Við höfum lagt fram ýmsar hugmyndir um breytingar, ekki bara núna við meðferð þessa máls í allsherjarnefnd heldur áður. Við höfum reifað fullt af hugmyndum, almennum hugmyndum og sértækum hugmyndum. Við höfum viljað ræða það og ég ítreka og fullyrði enn á ný að það hefði verið hægt að ná í þessu málamiðlun og bærilegri sátt og koma í veg fyrir að friðurinn á Alþingi væri slitinn í sundur með því að gefa okkur í þetta mánuð, einn og hálfan mánuð til viðbótar, tvo mánuði tæpa eins og við lögðum til. Því mátti ekki reyna það til að halda friðinn, halda í það að hér rynnu mál eðlilega áfram? Það skiptir miklu máli að halda friðinn vegna þess að störf Alþingis ganga ekki bara eftir reglum eða því sem sagt er í þingsal eða sagt á fundum forsætisnefndar. Það eru ótrúlega margar ákvarðanir teknar hér á göngum óformlegar til að flýta og hraða þinghaldi. Með þessum vinnuaðferðum er að mínu mati sáð tortryggni og einn stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn er útilokaður. Hann er settur út í kuldann. Það var stundum sagt í skóla að hægt væri að meta gæði skólastarfs á því hvernig er komið fram við þá sem eru færri í hópnum. Getum við hugsað það hér að menn komi fram við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð eins og alvöruflokk? Við höfum starfað þannig. Við höfum lagt fram faglegar hugmyndir og tillögur. Við höfum lagt fram fjölda þingmála. Við tökum þátt í umræðum með mjög faglegum hætti. Við undirbúum öll mál. Við erum samviskusöm. Á þá með því að einblína á ræðutímann einberan að leggja stein í götu okkar? Er það það sem býr að baki, að leggja stein í götu starfsemi stærsta stjórnarandstöðuflokksins á þingi?

Ég hef nefnt það hér að ég telji að öll málsmeðferð þessa máls frá hugmynd til frumvarps hafi verið óvönduð og það er einkennilegt að horfa til þess að nýlega kom út handbók um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa sem forsætisráðuneytið, dóms- og kirkjumálaráðuneytið og skrifstofa Alþingis gefa út. Hún kom út í nóvember 2007 og er afsprengi hugmynda eða ríkisstjórnarsamþykkta frá því í október 2006, ef ég man rétt, um einfaldara Ísland. Beri maður saman þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við þessa frumvarpssmíð við þær kröfur eða þær leiðbeinandi reglur sem hér eru settar þá fær frumvarpið falleinkunn. Það er ekki á vetur setjandi miðað við þær leiðbeiningarreglur sem hér eru eða þær grundvallarspurningar hvort þörf sé á löggjöf, hvort hægt sé að bæta starfsskilyrði þingsins, þingmanna og starfsliðs innan núgildandi lagaramma þingskapa. Var nokkuð gerð þarfagreining á því hver sé mesti vandi Alþingis í löggjafarstarfinu, hvar brenni mest á, hvar við séum óskilvirk og hvar við stöndum okkur vel? Hvar er þarfagreiningin? (Gripið fram í.) Hvar er heildarúttektin? Auðvitað spyr maður sig þessara spurninga. Það vekur ótrúlega undrun að leiðbeinandi rit um vandaða lagasmíð skuli hafa verið virt að vettugi. Ég verð að segja það alveg eins og er.

Ég ítreka að fram kom í nefndinni að hér væri byggt á tillögum Ólafs G. Einarssonar, fyrrum forseta, ef ég man rétt, það væri sótt í smiðju hans. Því var ekki leitað til þessara reyndu manna sem stóðu að þeim tillögum og því var ekki gerður samanburður á tillögum nefndar undir forsæti hv. fyrrverandi forseta Alþingis Ólafs G. Einarssonar og þessu frumvarpi? Því voru ekki þau gögn dregin fram? Því voru ekki gögn dregin fram um þingskapabreytingar á liðnum árum?

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjum fram viðamiklar tillögur við frumvarpið og við leggjum fram tillögur um breytingar á öðrum ákvæðum sem hreyft er við á sérstöku þingskjali. Þær tillögur sem við leggjum fram til breytinga komu flestar fram á skjali sem ég lagði fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fram í allsherjarnefnd og heita hugmyndir að málamiðlun. Það er alveg hárrétt hjá hv. formanni allsherjarnefndar að þetta var ekki kröfugerð. Þetta var hugmynd til að leysa málið með málamiðlun, setjast yfir málin, greina vandann og finna út úr hvað þyrfti að gera. Þessar tillögur voru auðvitað ekki tæmandi. Það er margt annað sem ég hef hér tæpt á sem hefði þurft að koma inn í þessa heildarendurskoðun. Tillögurnar eru í raun tilraun til málamiðlunar gagnvart þeim ákaflega þrönga stakki sem frumvarp forseta og fleiri sniðu.

Með frumvarpinu eins og það liggur fyrir er einhliða vald forseta aukið frekar en hitt. Var á það bætandi? Það er ærið. En það er aukið á vald forsetans. Er það ofurkrafa að draga úr valdi forsetans og draga fram hlutdeild minni hlutans í ákvarðanatöku forseta um starfshætti? Er til of mikils mælst? Er ekki það sem skiptir öllu máli að þingstarfið gangi snurðulaust í nokkuð góðum friði, þ.e. sjálf aðferðin við að semja frumvörp? Auðvitað greinir okkur á um frumvörp sem koma hér inn en við eigum ekki að liggja í skotgröfum um aðferðir við að koma frumvörpum fram. Við stöndum frammi fyrir því í dag. Við leitumst við að tryggja með tillögum okkar betur aðkomu stjórnarandstöðu að skipulagi þinghalds, dagskrá og málsmeðferð, draga úr alræði meiri hlutans hvað varðar formennsku í nefndum og efla sjálfstæða upplýsinga- og rannsóknarmöguleika þingmanna og auðvelda þeim aðgang að opinberum upplýsingum. Við leggjum fram tillögur um rýmri ræðutíma og svo framvegis.

Helstu efnisþættir þessara breytingartillagna eru í fyrsta lagi þeir að þegar forseti kemur úr röðum stjórnarmeirihlutans skuli tryggt að 1. varaforseti komi alltaf úr röðum minni hlutans. Við leggjum til flöggun, þ.e. við leggjum til að forseti verði að tilkynna þingheimi fyrir klukkan þrjú á hverjum degi ef hann eða hún hyggst halda fundi áfram eftir klukkan 20. Er til of mikils mælst þar?

Þessu hefur Félag starfsmanna Alþingis lýst sem áhyggjuefni, að vita ekki fyrir fram hvenær þingdegi lýkur og það er þannig ákvæði í frumvarpinu sem liggur hér fyrir að forseti getur að vild haldið fundi áfram eftir kl. 20 með því að slíta fundi og boða nýjan. Forseti getur haft næturfundi. Forseti hefur nánast alræðisvald um þessa fundi þannig að sú breyting sem var mjög áríðandi, að ákveða fyrir fram, um þrjúleytið, að fundið yrði slitið kl. 8, að hann yrði ekki lengur — þ.e. er það til of mikils mælst í vinnubrögðum að gera þennan fyrirvara, flagga klukkan þrjú? Er það of mikið? Þarf að koma svo mörgum brýnum málum að á kvöldin eða nóttunni að ekki sé hægt að tilkynna þingmönnum og starfsliði þingsins um það? Og yfir þessu er kvartað í bréfi Félags starfsmanna Alþingis.

Við erum með tillögu um að tryggja með samkomulagi sanngjarna og hlutfallslega eðlilega dreifingu milli forustustarfa í nefndum, dreifa því milli þingflokka. Við setjum inn tillögu að almennir þingmenn eigi rétt á að fá upplýsingar um opinber málefni frá opinberum aðilum. Það hefur heldur betur reynt á það. Okkur hefur gengið stundum erfiðlega að fá gögn frá opinberum aðilum. Það þarf þá að fara í gegnum einhverja kanala sem oft eru erfiðari. Við leggjum til að ræðutími við 2. umr. fjárlagafrumvarps skuli ávallt vera tvöfaldur. Við leggjum til að þingflokkur geti fjórum sinnum á hverju þingi óskað eftir tvöföldum ræðutíma í stað þess að lúta valdi forseta í hvert skipti og það vald getur verið geðþóttavald, því miður. Það er undarlegt að vita til þess að svo skammur ræðutími skuli vera settur í 2. umr. þegar um er að ræða hugsanlega verulega vandasöm og erfið mál eins og frumvarp til sakamála og eiga það undir forseta án þess að hafa öryggisventla á því hvort leyfð verði lengri umræða.

Við leggjum líka til að þröskuldur til að veita afbrigði verði hækkaður í þrjá fjórðu. Það er einn helsti öryggisventill minni hlutans að það sé ekki keyrt yfir hann með því að leita afbrigða þegar þarf að keyra mál í gegn sem oft er ekki nauðsyn á. Við leggjum fram tillögu um ræðutíma í sérstakri töflu og það sem ég tel líka afar brýnt í tíunda lagi er að lagt er til að við bætist ákvæði til bráðabirgða um úttekt á starfsemi og starfsháttum Alþingis, starfsaðstöðu þingmanna jafnt sem starfsmanna og hlutverki og stöðu Alþingis í nútímasamfélagi. Ég hef nefnt það á fundum allsherjarnefndar að það sé afar brýnt að slíkt starf fari af stað og slíku starfi verði lokið á yfirstandandi kjörtímabili. Fyrirheit í greinargerð með frumvarpinu eru ekki nóg. Hér er kveðið miklu fastar að og það er tekin ákvörðun um að þessi úttekt fari fram. Ég skora á meiri hlutann að taka þessa tillögu upp í frumvarp sitt fyrir næstu umræðu.

Við höfum lagt fram tillögu til bóta. Ég er alveg sannfærður um það. Hún snýr sérstaklega að því að hér geti fólk samræmt vinnu, fjölskylduábyrgð og fleira og tryggt þessi dýrmætu lýðræðislegu réttindi minni hluta. Þau eru dýrmæt. Lýðræðið snýst líka um það. Þau eru afar dýrmæt hér á þingi þegar framkvæmdarvaldið styrkist ár frá ári. (JM: ... um málfrelsi annarra ...) Hv. þm. Jón Magnússon hefur fullt málfrelsi á við aðra þingmenn. Hann hefur fullt málfrelsi á við þingmenn Vinstri grænna (Gripið fram í.) og annarra flokka. (Gripið fram í: ... meira.) Hv. þm. Jón Magnússon hefur nákvæmlega sömu stöðu og ég á Alþingi, nákvæmlega sömu stöðu þannig að að halda því fram að þingflokkur Vinstri grænna sem vandar þingstörf sín sé að koma í veg fyrir að hv. þm. Jón Magnússon geti tekið til máls er ekki rétt. (Gripið fram í.) Það er bara ekki rétt. Ég lýk hér máli mínu, (Gripið fram í.) frú forseti.