135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[20:28]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar maður hefur eina mínútu til að svara ræðu eins og þeirri sem hv. þm. Atli Gíslason flutti hér þá liggur eiginlega næst við að segja til þess að gera langa sögu stutta að rétt sé að mótmæla öllum fullyrðum sem fram koma sem tilhæfulausum og órökstuddum. En ég mun hugsanlega síðar í umræðunni geta komið að einstökum efnisatriðum.

Hins vegar vegna þess að hv. þingmaður fór mjög um víðan völl í ræðu sinni þá er rétt að geta þess í sambandi við það frumvarp sem hér er til umræðu að fyrst og fremst eitt atriði hefur verið umdeilt og það er deilan um ræðutímann. Ég hef ekki orðið var við það að aðrar breytingar sem þarna er verið að boða séu umdeildar.

Varðandi ræðutímann þá er auðvitað rétt að fram komi að meiri hluti allsherjarnefndar, sá sem myndaðist í starfi nefndarinnar, auðvitað lagði fram tillögur sem gengu út á að koma til móts við þau sjónarmið sem Vinstri grænir töluðu fyrir. Það sem maður veltir fyrir sér hins vegar í þessu máli er það hvort allan þann (Forseti hringir.) tíma, alla þá mánuði sem þetta mál hefur verið í gerjun hafi nokkurn tíma verið raunverulegur samningsvilji af hálfu Vinstri grænna um (Forseti hringir.) ræðutímann.