135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[20:38]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þakklátur hv. þingmanni fyrir að fallast á að hann hafi tekið óvarlega til orða um mig og samstarfsmann minn í iðnaðarráðuneytinu úr röðum BSRB. Það sem ég vil þó aðallega gera að umræðuefni er að hv. þingmaður talaði um muninn á aðstöðu þeirra sem sitja í ríkisstjórn annars vegar og hins vegar aðstöðu stjórnarandstöðunnar. Hann taldi að ósvinna væri að ráðherrar tækju með sér í ráðuneyti tvo til fjóra pólitíska aðstoðarmenn og sagði eðlilega að mikill munur væri á því og þeirri aðstöðu sem stjórnarandstaðan hefur.

Ég segi það alveg skýrt að ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar — og hef sagt það líka sem stjórnarandstæðingur — að ég tel að ráðherrar sem fara nýir inn í ráðuneytin eigi að taka með sér allt upp í þrjá aðstoðarmenn. Sjálfur hef ég einungis einn og það er um það bil tveimur of lítið. Ég man ekki betur en að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi verið mér sammála um það í umræðu fyrir tveimur eða þremur árum.

Hins vegar er ég algjörlega sammála hv. þingmanni um að aðstaða stjórnarandstöðunnar sé ekki boðleg en það er nú eitt af því sem menn taka brátt til umræðu í því skyni að bæta það.