135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[20:41]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Löggjafarvaldið býr að gríðarlega öflugum stuðningsdeildum. Það veit ég sem þingmaður hér til 16 ára bráðum. Hins vegar er alveg rétt hjá hv. þingmanni að mjög hallar á stjórnarandstöðuna í því, það veit ég líka af eigin reynslu. Ég hef sagt árum saman að stjórnarandstaðan þarf að fá aðstoðarmenn á sviði hagfræðinga og lögfræðinga. Það kann að vera rétt eftir atvikum hjá hv. þingmanni að þeir eigi ekki vera partur af hinu hefðbundna starfsliði þingsins.

Ekki er hægt að ætlast til að starfsmenn þingsins sem væru sérstaklega settir til að vinna með stjórnarandstöðunni — ættu ekki sinna öðrum störfum líka — gerðu það af nægilegu sjálfstrausti, það segi ég alveg skýrt. Sérstaklega hallaði á stjórnarandstöðuna eftir að Þjóðhagsstofnun var lögð niður.

Hins vegar undirstrika ég að ég tel að þeir sem koma inn í ráðuneyti sem nýir ráðherrar eigi að hafa með sér öfluga sveit. Þess vegna ættu þeir að hafa tvo til þrjá í stórum ráðuneytum eins og í heilbrigðisráðuneytinu, hugsanlega fjóra pólitíska aðstoðarmenn sem síðan eiga að fara þegar þeir hverfa úr ráðuneytinu. Þannig ná nýr meiri hluti (Forseti hringir.) og nýir ráðherrar að koma fram stefnu sinni sem fljótast.