135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[20:43]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður gat þess réttilega í ræðu sinni að hæstv. iðnaðarráðherra situr hér meira við umræður en aðrir ráðherrar en lét þess jafnframt getið að það væri af málgleði þingmannsins.

Virðulegur forseti. Ég tel að hæstv. iðnaðarráðherra sitji hér af virðingu fyrir störfum þingsins og fyrir lýðræðislegri umræðu. Ég harma ómálefnaleg og ósmekkleg ummæli af þessu tagi og tel að það sé ekki virðingu okkar hér í þinginu samboðið að tala með þeim hætti hvert til annars.

Verið er að veikja stjórnarandstöðuna, sagði hv. þingmaður. Ef svo væri þá væri það verulegt áhyggjuefni því að mikilvægt er að stjórnarandstaðan sé sterk hér. Því spyr ég hv. þingmann hvort það sé ekki örugglega meiri hluti stjórnarandstöðunnar á Alþingi sem flytur málið.