135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:08]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir fjallaði nokkuð um aðdraganda þess máls sem hér er verið að ræða og sagði það afrakstur málamiðlunar og hefði lengi verið rætt. Það hefur verið tekið fyrir á nokkrum fundum í þingflokki Framsóknarflokksins, því dreift og við sýndum okkar þingmönnum það, sagði hv. þingmaður. Tekið er tillit til fullt af atriðum sem við bentum á, sagði hv. þingmaður einnig. Ég spyr: Getur hv. þm. Siv Friðleifsdóttir upplýst mig og aðra þingmenn um nokkur af þeim fjölmörgu atriðum sem Framsóknarflokkurinn náði fram í breytingu á frumvarpinu frá því að það kom fram í haust? Ég er ekki að tala um liðið kjörtímabil eða þar áður. Ég er að tala um frá því í haust vegna þess að það er þetta þing og þeir þingmenn sem það sitja sem eiga að taka ákvarðanir í þessu máli.