135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:09]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að við sýndum þetta frumvarp í þingflokki okkar, þingmenn okkar fóru í gegnum það. Við ræddum ekki hverja einustu grein, enda sumar þess eðlis að okkur fannst við ekki þurfa þess, en aðrar greinar ræddum við ítarlega. Athugasemdir komu fram við nokkrar greinar og við báðum um breytingar á þeim.

Tekið var tillit til hluta þeirra athugasemda sem við bárum fram en ekki var fallist á annað og það sama gilti um aðra flokka. Menn höfðu mismunandi sjónarmið eins og gengur og gerist. Ég tel að menn eigi ekki að hæla sér af því að þeir náðu fram ákveðnum atriðum og harma að þeir náðu ekki einhverjum öðrum. Ég tel að það bæti ekki þetta mál. En ég get alla vega sagt að við vorum ánægð með þær breytingar sem við vitum að gerðar voru fyrir okkar tilstilli, við vorum ánægð með að tekið var tillit til okkar óska varðandi þær breytingar. Frumvarpið hefði ekki litið eins út ef þingflokkur framsóknarmanna hefði samið það aleinn, það er afrakstur málamiðlunar.

Frumvarpið er það gott að við styðjum það og teljum að það sé til mikilla bóta. Ég er sannfærð um að eftir nokkur ár munum við hlæja þegar við lítum til baka. Við munum furða okkur á því að við 2. umr. hafi verið hægt að standa upp tvisvar sinnum og tala endalaust. Við vitum að hluti þingheims notar þennan rétt til þess að lesa upp úr gömlum bókum og ég veit ekki hvað. Það er hlægilegt.