135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:19]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi hin Norðurlöndin og samanburð á ræðutíma á íslenska löggjafarþinginu og hinum Norðurlöndunum en nefndi ekki önnur viðmið eins og vinnuaðstöðu, stuðning við þingmenn, stuðning við stjórnarandstöðuna, faglegan stuðning o.s.frv. Telur hv. þingmaður að því sé saman að jafna, aðstöðu þingmanna á íslenska þinginu og á hinum Norðurlöndunum? Ef við lítum til breytinganna sem lagðar eru til í frumvarpinu og þeirra breytinga sem komið hafa fram frá þingmeirihluta, telur hún að með þeim sé jafnræði náð með hinum Norðurlöndunum hvað starfsaðstöðu varðar? Telur hún að við munum ná þeirri valddreifingu sem þekkist á hinum Norðurlöndunum?

Varðandi stórmál og fimm mínútna innlegg, eins og hún nefndi áðan, telur hæstv. forseti að hún trúi því að ekki verði margir sem koma aftur og aftur eftir fimm mínútna innlegg? Hvað með stóru málin? Hvað gerist þegar mál er það yfirgripsmikið að ekki er hægt að fara yfir það eða gera því skil á þeim ræðutíma sem gefinn er í 1. umr. eða öðrum ræðutíma? Hvað gerist þegar kemur að fimm mínútna bútunum? Hvernig er hægt að koma til skila, svo að skiljanlegt sé í mæltu máli, einhverju samhengi í ræðu þegar um er að ræða fimm mínútna búta? Telur hv. þingmaður að hún hefði getað komið máli sínu á framfæri á tíu mínútum í stað 20 mínútna sem hún gerði hér áðan?