135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:26]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að taka langan tíma í ræðuhöld í þessari umferð, reyna að temja mér þær takmarkanir sem fyrirhugaðar eru á ræðutíma alþingismanna. Mig langar að rifja það upp að þegar ég kom í þingsal fyrir 36 árum eða svo fannst mér andrúmsloftið einkennast af silagangi. Svefnhöfgi sótti að þingmönnum sem hér sátu og hlustuðu á ræður og störf þingsins fóru meira og minna fram á hraða snigilsins svo að ég segi það hreint út. Hér voru á þeim tíma margir snjallir ræðumenn sem gaman var að hlusta á en það var regla fremur en undantekning að hv. þingmenn stóðu í pontu og töluðu a.m.k. í 30 mínútur jafnvel þó að ekki væri tilefni til, það var lenska í þá daga.

Þegar ég kom aftur á þing í fyrravetur sem varamaður fyrir minn flokk, Samfylkinguna, upplifði ég þetta sama ástand. Ræðuflutningur ýmissa ágætra þingmanna, m.a. úr röðum míns flokks, sem þá var í stjórnarandstöðu, var til þess fallinn að svæfa mál, drepa þeim á dreif og koma með þeim ómálefnalega hætti í veg fyrir að önnur mál kæmust til afgreiðslu. Þetta hefur verið algengur siður á Alþingi, ég held við getum öll viðurkennt það. Við hljótum öll að geta verið sammála um að ekki hefur verið góður svipur á störfum hins háa Alþingis hvað þetta snertir. Þrátt fyrir alla þjónustu, tækni og lipurð af hálfu starfsfólks þingsins og þrátt fyrir miklu betri vinnuaðstöðu er yfirbragð þingsins enn hið sama, silagangur og hraði snigilsins ráða ferð.

Það er ekki nýtt af nálinni að gerð sé tilraun til að breyta og bæta þingsköp. Það var gert á síðasta áratug. Gerðar voru atlögur að því sem ekki tókust og allar voru í þá átt að reyna að koma á betra verklagi og bæta ásýnd Alþingis. Nú hefur verið lagt fram enn eitt frumvarpið undir forustu forseta þingsins með stuðningi fjögurra flokka af fimm og er almenn samstaða um framgang þess máls ef Vinstri grænir eru undanskildir. Það eru vonbrigði að sá flokkur skyldi heltast úr lestinni vegna þess að í frumvarpinu er margt mjög gagnlegt. Umræðan hefur að mestu leyti snúist um ræðutímann en frumvarpið fjallar um miklu meira en lengd eða styttingu ræðutíma.

Í frumvarpinu er m.a. fjallað um að starfstími Alþingis verði lengdur. Það hefur stundum verið gagnrýnt að Alþingi standi of stutt og að alþingismenn fari of snemma í frí, hér er tekið á því. Í frumvarpinu er eftirlitshlutverk þingsins eflt að mun og er það vel, það þarf að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Gerð er tilraun til að fækka kvöld- og næturfundum og koma þannig til móts við þær hugmyndir að þingið skuli vera fjölskylduvænna en það er, það snýr reyndar líka að starfsfólki sem er í stöðugri óvissu um lengd funda og vinnutíma. Þá eru í frumvarpinu lagðar nokkrar skyldur á ráðherra hvað varðar Alþingi, að ráðherrar komi á fund þingnefnda, kynni frumvörp sín og geri grein fyrir verkum sínum á komandi þingi.

Í frumvarpinu er enn fremur gert ráð fyrir því að mál sem taka breytingum í 2. umr. fari aftur til nefnda fyrir 3. umr., sem ég tel til mikilla bóta. Það styrkir stöðu þingsins og nefnda og tryggir betri afgreiðslu viðkomandi mála. Ég nefni þetta vegna þess að fyrri ræðumönnum í kvöld hefur því miður láðst að geta um flest af þessu. Umræðan hefur fyrst og fremst einskorðast við ræðutímann. Vinstri grænir, sem eru andvígir málinu, hafa gert ræðutímann að umtalsefni og í upphafi töldu þeir reyndar að í frumvarpinu fælist atlaga að málfrelsinu. Nú er það fyrst og fremst lengd ræðutímans sem er til umræðu. Ekki er lengur talað um að málfrelsi skuli túlka á þann veg að menn geti talað eins lengi og þeir vilja. Væntanlega hafa þá allir fallist á að einhverjar takmarkanir þurfi að vera fyrir hendi. Mér finnst að það þurfi að koma skýrt fram og halda því til haga að menn eru fyrst og fremst að agnúast út í og gera athugasemdir við lengd ræðutímans. Ekki er verið að tala um að ræðutími eigi að vera ótakmarkaður enda er ég sannfærður um af langri reynslu í félagsmálum að því lengri sem ræður eru þeim mun verri eru þær.

Ég vil líka gera athugasemd við það orðalag hv. þm. Atla Gíslasonar að óviðunandi vinnubrögð hafi verið höfð í frammi af höfundum frumvarpsins og nefndinni sem fjallaði um það. Ég minni á að málið hefur áður verið til umfjöllunar á Alþingi og menn hafa tekið mið af þeim sjónarmiðum og þeim hugmyndum sem þar hafa komið fram. Forseti þingsins hefur enn fremur, eftir því sem ég hef verið upplýstur um, haft náið samráð við þingflokka og formenn stjórnmálaflokka við vinnslu frumvarpsins. Allt frá því í haust eða jafnvel í sumar hefur verið lögð í þetta veruleg vinna, (Gripið fram í.) það má segja að sú viðleitni að reyna að laga þinghaldið að samtímanum hafi verið samfelld þannig að þessir hlutir hafa verið í stöðugri endurnýjun og allt gott um það að segja.

Formaður allsherjarnefndar hefur að mínu mati sýnt verulegan skilning og þolinmæði, ég vil jafnvel kalla það langlundargeð, við meðferð málsins í nefndinni. Fjöldamargir fundir voru haldnir, boðið upp á umræður og skoðanaskipti og boðið upp á að tillögur væru lagðar fram. Það gerði fulltrúi Vinstri grænna í nefndinni að lokum og allt gott um það að segja. Þær tillögur voru teknar til umræðu og afgreiðslu í nefndinni með mjög málefnalegum hætti og því var gefinn góður tími. Niðurstaðan varð sú að fallist var á þrjár eða fjórar af þeim tillögum sem Vinstri grænir fluttu en að öðru leyti var það tilkynnt skýrt og skilmerkilega að meiri hluti nefndarinnar gæti ekki fallist á fleira.

Ég sé út undan mér að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem kallaði fram í áðan, er mættur á svæðið eins og hans er von og vísa. Ég minni á að við eigum báðir sæti í Evrópuráðinu sem fulltrúar Alþingis. Þar er stór og mikil samkoma. Evrópuráðið er eiginlega vettvangur mannréttinda með stórum staf. Þar mæta 500–600 fulltrúar, jafnvel fleiri. Ræðutími fyrir framsögumenn er þar að hámarki sjö mínútur og öðrum sem tjá sig sem fulltrúar einhverra tiltekinna hópa, Evrópuráðið skiptist í pólitíska hópa, eru gefnar fjórar mínútur. Ég held að síðan séu skammtaðar tvær mínútur ef einhverjir aðrir vilja blanda sér í umræðuna. Það hefur líka verið upplýst í þessari umræðu, og hefur komið fram í gögnum sem við höfum fengið í nefndinni, að almenna reglan á Norðurlöndunum er sú að tími er skammtaður. Þó að menn vilji taka til máls komast þeir kannski ekki að, verða jafnvel að skrá sig deginum áður til að komast á mælendaskrá. Ef þeir komast ekki að í ræðustól er þeim gefinn kostur á að leggja ræðurnar inn og þær eru síðan prentaðar út. Það eru fjöldamargar takmarkanir á ræðuhöldum og ræðutíma hér og hvar sem við á Íslandi hljótum að geta og vilja tileinka okkur. Það er engin hemja að Alþingi hafi þá ásýnd að menn séu hér í einhverri ræðukeppni, komi upp og haldi langa ræðu til að snúa út úr fyrir öðrum. Ég er ekki að segja að allar ræður séu því marki brenndar en því miður er oft sá keimur af umræðunni. Það er verið að teygja lopann og reyna að koma höggi á andstæðinga og stundum á lítt málefnalegan hátt. Ræður eru margs konar en margar þeirra, og þá aðallega þegar um málþóf er að ræða, eru ekki til að auka virðingu fyrir þessari samkundu.

Ég ber fulla virðingu fyrir sjónarmiðum Vinstri grænna að því leyti að þeir vilja verja hlut stjórnarandstöðunnar hverju sinni. Vonandi verða þeir ekki í stjórnarandstöðu alla tíð en ég legg mikið upp úr áhrifum og stöðu minni hlutans, stjórnarandstöðunnar, hverju sinni. Ég held að treysta eigi sess stjórnarandstöðunnar og tryggja stöðu hennar en það má ekki ganga út í öfgar. Þegar ég lít í fyrsta lagi á tillögurnar sem bornar voru fram í nefndinni á sínum tíma, í öðru lagi á þær tillögur sem Vinstri grænir gáfu út opinberlega sem hugmyndir sínar og í þriðja lagi á tillögurnar sem þeir hafa lagt fram sýnist mér að margt af því megi framkvæma án þess að það sé endilega haft með í þessum lögum. Þar er um að ræða mál sem varða upplýsingaþjónustuna, verið er að tala um útvarpið, útsendingar í útvarpi, að bókasafnið þurfi að vera aðgengilegra og betra og að setja þurfi upp skrifstofur fyrir alþingismenn og aðstoðarmenn. Þetta er vel hægt að gera hvort sem það er fest í lög eða ekki. Þetta eru framkvæmdaratriði sem ég mæli með að eigi sér stað í tímans rás. Að því leyti finnst mér að komið hafi verið til móts við þessi sjónarmið Vinstri grænna og það má gera enn frekar í framtíðinni. Það þarf ekki að gera svo mikið mál úr því hvort við fáum að tala nokkrum mínútum lengur eða skemur.

Ég vek í leiðinni, af því að ég er kominn í pontu, athygli á því sem ég hef gagnrýnt, a.m.k. á göngunum, að þegar alþingismenn leggja fram mál, þingmannafrumvörp, er óvíst hvort þau komast nokkurn tíma á dagskrá. Ég lagði fram mál í upphafi þingsins nú í haust. Ég er ekki enn búinn að flytja framsögu um það, það er ekki einu sinni komið á lista yfir það sem er á dagskrá. Það er fyrirsjáanlegt að einhvern tíma kemst það til 1. umr., kannski seint um síðir, þá fer það til nefndar og eftir það þarf að kalla eftir umsögnum. Það er því ljóst að flest þessara mála fá aldrei neina afgreiðslu eða umfjöllun. Þetta er virðingarleysi gagnvart hinum óbreytta alþingismanni.

Ég geri mér vonir um að með styttingu ræðutímans verði leiðin greiðari fyrir ýmis þörf mál sem hinn óbreytti þingmaður flytur. Forsendan fyrir því að við getum haft betra skipulag á störfum þingsins er að okkur sé í grófum dráttum ljóst hvað umræðan stendur lengi á hverjum degi. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að menn geti lengt og tvöfaldað umræðu. Þingflokkar hafa heimild til þess tvisvar sinnum á vetri að krefjast lengri umræðu, fá tvöfaldan tíma, opnað hefur verið fyrir það að fjárlagaumræðan geti verið lengri og forsetinn getur sjálfur ákveðið lengri tíma ef þörf er á. Það er ekki verið að segja hingað og ekki lengra þegar þessar 10 eða 20 mínútur, eða hvað við erum að tala um, eru búnar. Enn er líka sá möguleiki til staðar að halda uppi svokölluðu „málþófi“ með 5 mínútna ræðum. Ég tók sjálfur þátt í málþófi á árum áður með góðum árangri sem kannski frægt er orðið. Ég er ekki að hreykja mér af því en ég gæti gert það sama þó að lögum verði breytt og ræðutími styttur. Menn gætu þá komið oftar upp og menn sem hafa þrek og úthald fara létt með að tala 10 sinnum í 5 mínútur í hvert skipti.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég nefna eitt enn sem mér finnst mjög áríðandi að komist til skila í þessari umræðu en það eru nefndirnar. Ég er þeirrar skoðunar að nefndir og nefndastörf séu einn mikilvægasti þátturinn í störfum Alþingis. Það sem blasir við almenningi úr ræðustól er á stundum skemmtun, á stundum til fróðleiks, oft nokkurs konar skylmingar sem margir hafa gaman af að horfa á. Í nefndunum takast menn hins vegar á og skiptast á skoðunum með vitrænum hætti. Þar er gögnum safnað saman og þar er farið yfir hlutina með faglegum hætti. Mér finnst að styrkja eigi stöðu nefndanna á Alþingi og opna þær jafnvel eftir atvikum, bjóða ekki einungis tilteknum umsagnaraðilum heldur fá einnig hluta almennings og íbúa til að eiga samræður við löggjafarvaldið.

Ég fór á mjög fróðlega ráðstefnu nýlega um svokallað íbúalýðræði þar sem fluttir voru gagnlegir og skemmtilegir fyrirlestrar. Þar töluðu menn um þá þróun sem er líka í gangi hér hjá okkur að almenningur er miklu upplýstari, hann kemur nær störfum okkar í gegnum tæknina en áður var, er meðvitaður um það sem er að gerast og hefur þekkingu og vitneskju með og á móti í flestum málum. Þingið á ekki að loka sig of mikið af. Við eigum ekki að vera eins og í sýningarglugga og tala í eina átt. Alþingi á að vera opnara og móttækilegra fyrir viðhorfum úti í þjóðfélaginu og það gerum við fyrst og fremst í gegnum nefndirnar. Ég hefði viljað sjá meira og betur um það fjallað í frumvarpinu en ég geri mér vonir um að á því sé hægt að taka í náinni framtíð. Reyndar er talað um endurskoðun eftir þrjú ár, við getum fetað okkur fram veginn og gert margt í millitíðinni. Þegar upp er staðið finnst mér þetta mál eiga rétt á sér og alþingismenn, ekki síst þeir sem hafa verið hér lengi, ættu að taka því vel. Ég segi af fullri vinsemd við ágæta kollega mína úr Vinstri grænum: Mér finnst óþarfi að hafa svona miklar áhyggjur af þessu.